Norðaustan 10 - sýning opnuð á Húsavík

27. janúar 2012

Sýning hefur nú verið opnuð í Safnahúsinu á Húsavík með afrakstri og afurðum úr samstarfsverkefninu  Norðaustan 10. Afraksturinn verður jafnframt til sýnis á Hönnunarmars í Reykjavík dagana 22. - 25. mars 2012.

vagga

Norðaustan 10 er vöruþróunarverkefni sem unnið hefur verið á Norðaustur- og Austurlandi í samstarfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, "Úti á Túni - menningarmiðstöð" á Húsavík og "Þorpið - skapandi samfélag" á Egilsstöðum. Í verkefninu voru nokkrir vöruhönnuðir fengnir til þess að vinna að vöruhönnun í samstarfi við framleiðslufyrirtæki á svæðunum þar sem útgangspunkturinn er

  • að fyrirtækin geti séð um framleiðslu á vörunum og að útfærsla taki þannig mið af þeim tækjabúnaði sem fyrirtækin hafa yfir að ráða og þeirri þekkingu sem starfsmenn búa yfir
  • að efnisval taki að einhverju leyti mið af efni sem hægt er að nálgast á svæðinu og er einkennandi fyrir svæðið
  • að vörurnar geti skapað aukin umsvif hjá fyrirtækjunum

Á Húsavík voru það hönnuðirnir Róshildur Jónsdóttir, Brynhildur Guðlaugsdóttir, Snæbjörn Stefánsson og Stefán Pétur Sólveigarson sem unnu að verkefninu í samstarfi við fyrirtækin Norðurvík, Víkurraf, CP Pökkunarfélag, Víkurverk og Ísnet.  Verkefnið var unnið samhliða á Austurlandi í samstarfi við Þorpið - skapandi samfélag.

Nánari upplýsingar um verkefnið veita Solveig Ýr Sigurðardóttir, verkefnisstjóri á Húsavík í síma: 522-9492 / netfang: solveig@nmi.is og Kristbjörg Jónasdóttir, verkefnisstjóri á Egilsstöðum í síma: 522-9471 / netfang: kristbjorg@nmi.is