Áttavitinn - nýtt markaðsþróunarverkefni

28. febrúar 2012

Íslandsstofa kynnir rekstrar- og markaðsþróunarverkefnið Áttavitann, sem sérstaklega er ætlað fyrirtækjum í framleiðslu og hugverkagreinum.  Áttavitinn er einstakt tækifæri fyrir framsýna þátttakendur til að vinna með jafningum að því að stilla áttavitann; lagfæra og leiðrétta áherslur og styrkja þannig grundvöll og rekstrarforsendur síns fyrirtækis, áður en lengra er haldið í markaðsþróun og sókn á erlenda markaði.

Átta til tíu fyrirtæki taka þátt í Áttavitanum og mun verkefnið standa í jafn marga mánuði. Einn vinnufundur er í hverjum mánuði meðan verkefnið stendur, tveir dagar í senn. Á hverjum vinnufundi verður eitt fyrirtæki í brennidepli. Tveir ráðgjafar sjá um að leiða verkefnið og stýra hópavinnu.

Megin áherslur verkefnisins eru:

  • Greining - fyrir hvern vinnufund hittast ráðgjafar og fyrirtækið, sem vinna á með í það skiptið, og greina í sameiningu hvaða þætti í rekstrinum fyrirtækið þarf helst að vinna með. Við þá greiningu er stuðst meðal annars við aðferðarfræði Vaxtarhjólsins. Þessi greining er grunnur að hópavinnunni á vinnufundinum.
  • Úrvinnsla - á vinnufundinum kynnir fyrirtækið starfsemi sína með áherslu á þá þætti sem fyrir liggur að leita úrlausna á. Aðrir þátttakendur vinna síðan í tveimur hópum að því að móta tillögur um úrbætur, tækifæri og leiðir til að bæta og auka árangur.
  • Úrbætur - í lok fundar eru úrbótatillögur hópanna kynntar fyrirtækinu. Ábendingar hópanna eru lagðar fram sem beinar aðgerðir og að auki vinna ráðgjafarnir samantekt sem inniheldur allar úrbótatillögur og umræður hópanna. Markmiðið er að fyrirtækið nýti tillögur og ábendingar vinnufundarins til að setja saman og innleiða aðgerðaáætlun.

Árangur verkefnisins byggir á því að fullkomið traust skapist milli þátttakenda. Þeir þurfa að vera tilbúnir að opna "allar bækur" fyrir hópnum og gert verður trúnaðarsamkomulag milli allra aðila. Þátttökugjald er kr. 150.000 og greiðast kr. 50.000.- við staðfestingu. Að auki þurfa þátttakendur að greiða allan kostnað svo sem ferðir innanlands, gistingu og fæði á meðan á fundi stendur. Umsóknarfrestur er til 12. mars.

Verkefnislýsingu, umsóknareyðublað og skilyrði fyrir þátttöku er að finna á vef Íslandsstofu - www.islandsstofa.is

Nánari upplýsingar veita Erna Björnsdóttir verkefnisstjóri, erna@islandsstofa.is  og Hermann Ottósson forstöðumaður, hermann@islandsstofa.is