Efnið skapar andann - vistvæn byggingarefni

23. maí 2012

Hvaða áhrif hafa vistvæn byggingarefni á innivist og hönnun bygginga? Er framboð hérlendis í takt við auknar kröfur um sjálfbærni og umhverfisvitund á byggingarmarkaði?

Þann 24. maí stendur Vistbyggðarráð fyrir ráðstefnu um vistvæn byggingarefni sem ber yfirskriftina, Efnið skapar andann – Vistvæn byggingarefni og áhrif þeirra á innivist og hönnun. Á ráðstefnunni verður sjónum sérstaklega beint að notkun vistvænna byggingarefna  á Íslandi. Af þessu tilefni eru framleiðendur og seljendur vistvænna byggingarefna hvattir til að kynna þær vörur sem uppfylla skilyrði um vistvæna vottun eða eru umhverfisvænni en almennt gerist. Nýsköpunarmiðstöð Íslands ásamt fjölda fyrirtækja og stofnana eru aðilar að Vistbyggðaráði sem er leiðandi vettvangur á sviði sjálfbærrar þróunar við skipulag, hönnun, byggingu og rekstur og viðhald mannvirkja á Íslandi.

Framboð á vistvænum byggingarvörum í verslunum er sífellt að aukast en gera þarf átak í bæði innflutningi en þó ekki síst framleiðslu vistvæns byggingarefnis hér á landi til þess að mæta auknum kröfum sem m.a. birtast í nýjum mannvirkjalögum og byggingarreglugerð. Þá hefur sú þróun átt sér stað undanfarin ár að sífellt fleiri byggingar eru nú umhverfisvottaðar og má ætla að þróunin verði ekki önnur hér á landi, en í  Evrópu er reiknað með að u.þ.b. 40% orkunotkunar og loftslagsmengunar megi rekja til byggingariðnaðarins.  Nú þegar hefur breska vottunarkerfið BREEAM náð nokkurri útbreiðslu hér á landi einkum hvað varða opinber verkefni og er líklegt að markaðurinn taki í notkun fleiri umhverfisvottunarkerfi á næstu árum. Öll gera þessi kerfi ríka kröfu um vottun byggingarefna, en einnig þarf í þessu samhengi að vega og meta áhrif og eiginleika aðflutta efna samanborið við innlenda framleiðslu. Þegar meta á hvort að vara sé umhverfisvæn eða ekki þá þarf m.a. að huga að þáttum eins og aðflutningi og ýmsu öðru í framleiðsluferlinu, t.a.m. því hvers konar orka sé nýtt til framleiðslu vörunnar. Steinsteypa, og steinull eru dæmi um byggingavörur sem hafa verið þróaðar á ólíkan hátt, þar sem taka þarf tillit til ólíkra eiginleika og aðferða í framleiðsluferlinu.

Af þessu tilefni vill Vistbyggðarráð hvetja alla þá sem starfa í eða tengjast íslenskum byggingariðnaði - framkvæmdaraðila, hönnuði og þeirra  sem móta stefnu í þessum málum fyrir hönd ríkis og sveitarfélaga, að kynna sér sjálfbærnimarkmið og notkun vistvænna byggingarefna í tengslum við framkvæmdir og hönnun mannvirkja. Í því sambandi er mikilvægt að huga að markvissri markaðssetningu vistvænna byggingarefna eins og gert er t.a.m. í Finnlandi, en staðreyndin er oft sú að erfitt getur verið fyrir viðskiptavini að leita uppi byggingavörur með umhverfis- og/eða upprunavottun jafnvel þótt að þær séu til staðar.

Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu er að finna hér