ICEconsult sigrar í alþjóðlegri LivingLab keppni

03. maí 2012

Hugbúnaðarlausnin CityDirect sem þróuð er af ICEconsult ehf. sigraði í alþjóðlegri samkeppni LivingLabs-Global í Rio de Janeiro í Brasilíu í gær. Hugbúnaðurinn sigraði í flokknum „Public Project Portal." CityDirect er ein af 21 hugbúnaðarlausnum sem hlutu viðurkenningu í ár en 555 lausnir frá 50 löndum tóku þátt.

CityDirect er lausn fyrir sveitarfélög til að gefa íbúum kost á að hafa áhrif á ákvarðanatöku um framkvæmd valdra verkefna með beinum hætti. Verkefnið 1, 2 og Reykjavík notaðist við eldri kynslóð hugbúnaðarins en CityDirect hefur nú tekið næsta skref og gefur íbúum tækifæri til að velja á milli verkefna. Það var borgin Kristiansand í Noregi sem valdi CityDirect en samkeppnin gengur út á það að borgir skrá sig til leiks með ákveðið vandamál sem vantar lausn á og fyrirtæki bjóða lausnir til að leysa þau. Nú tekur við samstarf með Kristiansand þar sem borgin mun taka CityDirect hugbúnaðarlausnina í notkun.

ICEconsult ehf. er nú þegar með starfsemi í Noregi. Ríkisfyrirtækið Statsbygg hefur notað MainManager hugbúnaðinn síðustu mánuði en forritið hugsað sem heildarlausn í stjórnun fasteigna.

Nánari upplýsingar um ICEconsult er að finna hér

Living Lab á Íslandi er verkefni rekið af Nýsköpunarmiðstöð Íslands með það að markmiði að koma á samstarfi milli notenda og framleiðenda við þróun og notkun vöru og þjónustu.  Iceland Living Lab getur jafnframt komið íslenskum stofnunum og fyrirtækjum í tengsl við alþjóðlegt tengslanet Living Lab á sviði nýsköpunar sem miðar að því að efla nýsköpun á öllum sviðum við raunverulegar aðstæður.

Nánari upplýsingar um Living Lab er að finna hér