Bjart hjá Brautargengiskonum

01. júní 2012

Hópur kvenna útskrifaðist í gær af Brautargengi með stuttri kynningu á fjölbreyttum viðskiptahugmyndum. Að þessu sinni útskrifast 19 konur í Reykjavík en Brautargengishópurinn í heild telur nú 952 konur frá því fyrsti hópurinn útskrifaðist í Reykjavík 1998.  Frá árinu 2003 hafa námskeið verið haldin víða um land, að lágmarki eitt árlega á Akureyri og tvö á ári á höfuðborgarsvæðinu. 

Útskriftarhópur Brautargengi - Reykjavík vor 2012

Formleg útskrift af Brautargengisnámskeiði í Reykjavík á vorönn 2012 var haldin í húsakynnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Keldnaholti. Ásta Sölvadóttir, fyrrum Brautargengiskona og annar af stofnendum Klifs, skapandi fræðsluseturs í Garðabæ,   hélt stutt erindi fyrir útskriftarhópinn þar sem hún talaði um reynslu sína af námskeiðinu og lífið eftir Brautargengi.  „Að fara á Brautargengi er ein praktískasta ákvörðun sem ég hef tekið. Það að gera viðskiptaáætlun og mynda stefnu fyrir fyrirtækið hefur hjálpað til við þróun fyrirtækisins, skýrt sýnina og auðveldað raunhæfa markmiðasetningu“. Fjöldi Brautargengiskvenna útskrifast á ári hverju og hafa hóparnir verið mjög duglegir að halda hópinn að námskeiði loknu.  Þannig er til fjöldinn allur af Brautargengishópum á m.a. Facebook þar sem konurnar eru duglegar að deila reynslu og miðla upplýsingum auk þess að gefa ráð og hvetja hverja aðra til dáða.  „Vefhönnuður Klifsins er Brautargengissystir, önnur sem er markaðsgúrú hefur veitt okkur góð ráð, við höfum haldið skipulagt námskeið í Klifinu með prjónahönnuði og Brautargengiskonu og ég farið í nudd hjá einni sem er nuddari þegar ég hef verið alveg úrvinda. Það er ómetanlegt að geta skipst á skoðunum og geta leitað ráða. Ótrúlega lifandi og skemmtilegar konur“ segir Ásta.

Færri komast að en vilja

Viðskiptahugmyndir útskriftarhópsins voru mjög fjölbreyttar og eru mislangt á veg komnar. Þannig eru einhverjar þegar komnar í rekstur á meðan aðrar eru enn að undirbúa og skipuleggja framkvæmdina. Fjöldi hugmynda er á sviði skapandi atvinnugreina, hönnunar, menningarstarfsemi og ferðaþjónustu og svo virðist sem ferðamenn séu stærsti einstaki markhópurinn. Fallegir gripir, nýmóðins fatnaður, gisting, skemmtun og jafnvel „skemmtimenntun“ er það sem koma skal hjá framtaksömum og skapandi Brautargengiskonum. Færri konur komust að en vildu á Brautargengisnámskeið á vorönn 2012, því vel á fjórða tug kvenna sótti um að þessu sinni.

Lýsandi ferðalag yfir hugmyndir hópsins

María Lóa Friðjónsdóttir, ein af Brautargengiskonunum setti saman skemmtilegt ferðalag sem hún bað útskriftarhópinn og gesti að koma með sér í. Ferðalagið er sett saman með hugmyndir allra þeirra Brautargengiskvenna sem nú útskrifast í huga. 

„Komið þið í smá ferðalag með mér. Byrjum á að skella okkur á nýtt veitingahús sem bíður okkur uppá steinaldarfæði,  síðan förum við með hestakerru í hestamiðstöð Reykjavíkur og skoðum hestatengdar vörur.  Eftir að hafa skoðað hvað er í boði hjá menningarmiðlun fyrir ferðaþjónustu ákveðum við að heimsækja himneskt keramikverkstæði og kaupum dýrindis postulínsvörur og flottasta ljósalampann í bænum.  Þá er komið að hressandi hvalaskoðunarferð, við erum við öllu búnar,  íklæddar roðbikiníi og regnkápu, með reiðhatt á höfði. Um borð fáum við fræðslu um umhverfishugsun í fyrirtækjum og hvernig hægt er að endurnýta afgangstimbur við gerð hönnunarvöru.  Þegar við komum aftur í land stöndumst við ekki freistinguna, förum á nýja Konditorí kaffihúsið og fáum okkur smurt og nýbakað. Þreyttar en ánægðar tökum við stefnuna á næturstað,  fallegt gistihús í Hafnarfirði. Í töskunni okkar leynist ótrúlega sexý náttkjóll, náttúrusnyrtivörur og útfyllt umsóknar eyðublað um Evrópustyrki.“

Veittar viðurkenningar

Margrét Sveinbjörnsdóttir hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir bestu fjárfestakynninguna. Margrét mun í sumar stofna fyrirtæki sitt; Brúarsmiðjuna sem mun brúa bilið á milli skapandi greina og ferðaþjónustu annars vegar og fræða og ferðaþjónustu hins vegar með það að markmiði að búa til hágæða menningarferðaþjónustu með áherslu á upplifun.

Brynja Þóra Guðnadóttir hlaut viðurkenningu fyrir mest lofandi nýsköpunarfyrirtækið, en hún og tveir húsgagnasmiðir hyggjast stofna fyrirtæki sem framleiðir hágæða hönnunarvöru úr úrgangs- og grisjunarvið úr íslenskum skógum.

María Lóa Friðjónsdóttir hlaut að lokum viðurkenningu fyrir bestu viðskiptaáætlunina um NýNa, fyrirtæki á sviði ráðgjafaþjónustu sem mun létta íslenskum aðilum að sækja styrktarfé til Evrópusambandsins. 

BrautargengiVor2012-2 Brautargengivor2012-3 Brautargengivor2012-4

Hugmyndir þessara kvenna auk allra hinna sýna það og sanna að það er greinilega mikill sóknarhugur í íslenskum konum og þær í sífellt auknu mæli að sækja fram í eigin rekstri.