FabLab - stafræn framleiðslubylting

21. júní 2012

Á Íslandi eru starfræktar fjórar stafrænar Fab Lab smiðjur. Fab Lab er alþjóðlegt net stafrænna smiðja sem rekja má til MIT háskólans í Bandaríkjunum. Sherry Lassiter hjá MIT sem leiðir samstarfsnet Fab Lab smiðjanna er stödd á Íslandi þessa dagana meðal annars til að hitta forsvarsmenn Fab Lab á Íslandi.

FabLab - Júní2012

Fab Lab (Fabrication Laboratory) er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. 

Fjórða Fab Lab smiðjan á Íslandi í undirbúningi

Í dag eru þrjár Fab Lab smiðjur starfræktar á landinu; í Vestmannaeyjum þar sem fyrsta smiðjan var opnuð, á Sauðárkróki og Akranesi og síðan verður smiðja opnuð á Ísafirði í haust.  Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um reksturinn á þremur smiðjum af fjórum í samvinnu við öfluga aðila á hverjum stað fyrir sig.  Fab Lab smiðja er vel til þess fallin að efla nýsköpun og þróun á litlum atvinnusvæðum og getur eflt verulega möguleika íbúa til að skapa sér lífsviðurværi með eigin hugmyndum.  Markmiðið með FabLab er að auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum aðferðum í iðnaði og að efla nýsköpun á Íslandi auk þess að auka tæknilæsi almennings og skapa möguleika á aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu.

Stafræna framleiðslubyltingin er hafin

Sherry Lassiter hjá MIT háskólanum í Bandaríkjunum vill meina að þriðja stig stafrænu byltingarinnar sé hafið. Fólk í dag er nú að upplifa tíma þar sem stafræn tækni er nýtt í síauknum mæli til framleiðslu. Því er brýnt að ala börn upp þannig að þau skilji tæknina og geti nýtt sér möguleika hennar.

Viðtal við Sherry er að finna hér

Bendum jafnframt á mjög áhugaverðan fyrirlestur frá Paulo Blikstein prófessor við Standford. Hann vill meina að það land sem verði fyrst til að innleiða FabLab - kennslu í skólakerfið, byggi í leiðinni upp samkeppnisforskot.  Sjá hér