Fyrirtæki vikunnar: SagaMedica

10. júlí 2012

Fyrirtæki vikunnar á frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er SagaMedica ehf. SagaMedica er staðsett á frumkvöðlasetrinu KÍM - Medical Park, sérhæfðu frumkvöðlasetri Nýsköpunarmiðstöðvar í heilbrigðistækni og tengdum greinum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Þráinn Þorvaldsson.

SagaMedica - starfsfólk

Náttúruvörur úr íslenskum lækningajurtum

Fyrirtækið SagaMedica var stofnað árið 2000 og er í dag leiðandi í íslenskum náttúruvöruiðnaði og þar með talið rannsóknum á íslenskum lækningajurtum og framleiðslu hágæðanáttúruvara úr þeim. Stofnun fyrirtækisins á sér rætur í rannsóknarstarfi sem Dr. Sigmundur Guðbjarnason, lífefnafræðingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, hóf árið 1992. Tveimur árum síðar fékk Sigmundur annan lífefnafræðing, Steinþór Sigurðsson, til liðs við sig en þeir hafa unnið ötullega að rannsóknum á íslenskum lækningajurtum. Með rannsóknunum hefur tekist að sýna fram á vísindalegar ástæður fyrir vinsældum vissra jurtategunda í gegnum aldirnar.

Nýleg klínísk rannsókn hefur staðfest að náttúruvaran SagaPro sem unnin er úr íslenskri ætihvönn gagnast vel við næturþvaglátum. Samkvæmt rannsókninni felst virkni SagaPro einkum í því að auka blöðrurýmd.  Þetta er í fyrsta skipti sem klínísk rannsókn fer fram á íslenskri náttúruvöru og birtist grein um rannsóknina í alþjóðlega ritrýnda læknatímaritinu Scandinavian Journal of Urology and Nephrology.   

  • Nánari upplýsingar um fyrirtækið er að finna hér
  • Nánari upplýsingar um frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar er að finna hér
  • Myndband frá frumkvöðlasetrum er að finna hér