Hellingur af gulli í íslenska jarðhitaberginu

28. febrúar 2013

Ný endurskoðuð greining á sýnum úr boruholukjörnum úr Þormóðsdal hefur leitt í ljós að vænlegt þykir að undirbúa gullvinnslu á svæðinu. Í undirbúningi er að hefja ítarlegri leit með vinnslu í huga og það í samvinnu við breska sérfræðinga. Í allra vænlegustu sýnunum reynist þéttleiki gullsins vera í kringum 400 grömm af gulli í tonni af bergi.

Ársfundur 2013 - Þorsteinn Ingi

Þorsteinn Ingi Sigfússon prófessor og forstjóri færði þær fréttir á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands nú í morgunsárið að  ný endurskoðuð greining á fjölmörgum sýnum  úr borkjörnum sem fengist hefðu úr Þormóðsdal fyrir um áratug síðan, leiddi í ljós að vænlegt þykir að undirbúa gullvinnslu á svæðinu. Í samvinnu við erlenda aðila sem þekkja mjög vel til í vinnslu eðalmálma er í undirbúningi að hefja ítarlegri leit með vinnslu í huga. Þorsteinn greindi frá því að breskir sérfræðingar hefðu farið yfir gögn sem unnin hafa verið með borunum og gert nýtt líkan fyrir dreifingu málmsins í Þormóðsdal. Í kjölfarið væru í gangi samningar um málið.

Íslenskt gull er einstakt

Það sem er mjög sérstakt við gullið í Þormóðsdal og eins flest gull í Íslensku bergi er að sérstakar aðstæður hafa gert það að verkum að það fellur út. Gull á Íslandi er upprunnið í jarðhitahitasvæðum sem tengjast gömlum megineldstöðvum. Það fellur út í sjóðheitum vökva sem leikur um bergið og fylgir venjulega útfellingasteindum eins og t.d  kvartsi. Sprungumyndanir, jarðskjálftavirkni og útskolunarvatn geta skapað alveg sérstakar aðstæður fyrir útfellingu gulls. Það sem er talið einkar jákvætt er að, gagnstætt því sem oftast gerist í gullæðum heimsins, er íslenska gullið laust við erfiða þungmálma og aðskotamálma eins og kvikasilfur. Þess vegna mætti í besta falli reikna með að gullvinnslan yrði eitthvað umhverfislega vænlegri en oft er erlendis. Í allra vænlegustu sýnunum reynist gullþéttleiki allt að 400 milljónustu hlutar, eða með öðrum orðum 400 grömm af gulli í tonni af bergi. Borkjarnarnir, sem einhverjir eru frá allt að 100 metra dýpi, eru í dag varðveittir hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Mógilsá og Þormóðsdalur vænlegustu fundarstaðirnir

Íslensku fyrirtækin Málmís og Melmi, sem eru nú í eigu  Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, ISOR og erlendra aðila, tóku upp gulleit víða um landið undir lok síðustu aldar. Snemma kom í ljós að meðal vænlegustu fundarstaða gulls voru Mógilsá í Esju og Þormóðsdalur. Síðarnefndi fundarstaðurinn tengist 1-2 milljón ára gamalli megineldstöð er reis þar sem nú eru Móskarðshnjúkar og Grímmannsfell. Helstu sérfræðingar verkefnisins hérlendis hafa verið jarðfræðingarnir Hjalti Franzson hjá ÍSOR og Guðmundur Ómar Friðleifsson hjá HS Orku. Í undirbúningi er að birta niðurstöður rannsókna í heild sinni á vísindaráðstefnu erlendis innan skamms.

Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri segir að tvennt sé í huga hans á þessum sjötta ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar. Annars vegar skylda sín að upplýsa almenning um þessa nýju þróun og hugsanlegan valkost í námuvinnslu hérlendis – en ekki síður að ítreka þá trú sína að auðlindir eins og góðmálmar í jörðu eigi sér keppinauta í því þjóðagulli sem mannauður Íslands býr yfir. Það þjóðargull hljóti að vera það verðmætasta þegar uppi er staðið!