Íslensk sérfræðiþekking er mesta þjóðargullið

28. febrúar 2013

Ljóst er að helsta þjóðargull okkar Íslendinga liggur í mannauðnum og verður sú þekking sem til verður í innlendum og erlendum samstarfsverkefnum seint metin til fulls. Samstarfsverkefni sem snúa meðal annars að yfirfærslu þekkingar á milli atvinnugreina, fullnýtingu hráefnis, grænkun hagkerfisins, nýjum lausnum á sviði steinsteypu, matvæla og ferðaþjónustu eru þegar farin að leiða af sér nýja sprota og betri nýtingu á náttúrulegum auðlindum.

Ársfundur 2013 - Sunna Wallevik

Sunna Wallevik, verkefnisstjóri talaði um blá lón, eldfjöll og byggingará ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands


Umhverfisvæn verkefni og rannsóknir

Fjölbreytileiki var í fyrirrúmi á fjölmennum ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands nú í morgunsárið þar sem  kynnt voru verkefni sem þegar eru í gangi innan Nýsköpunarmiðstöðvar samhliða áformum um ný verkefni. Íslensk steinsteypa hefur til að mynda fengið mikla athygli bæði hérlendis og ekki síður erlendis þar sem íslenskar rannsóknir sem fram fara á íslenskri steypu og þróun hennar þykja með þeim faglegri í heiminum. Nú er í hönnun og þróun umhverfisvænt sementslaust steinlím þar sem eldfjallaaska úr Eyjafjallajökli og kísilútfellingar úr Bláa lóninu eru aðal hráefnin og lofa rannsóknir og prófanir góðu að sögn Sunnu Ó. Wallevik, verkefnisstjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem vill meina að ný blanda gefi af sér hvoru tveggja sterkari og umhverfisvænni steypulausnir.

Frá sjávarútvegi á Íslandi til íhluta í sportbíla

Ingólfur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Efnis-, líf- og orkutækni hjá Nýsköpunarmiðstöð gerði þekkingaryfirfærslu á milli fagsviða að viðfangsefni sínu.  Jákvæðar niðurstöður rannsókna á nýrri íblöndun málma á slitfleti toghlera hafa leitt til þess að sambærilegar rannsóknir og prófanir eru nú að eiga sér stað á bremsuborðum í sportbílum erlendis. Þannig getur þekking sem verður til á einu fagsviði hæglega nýst og reynst hagkvæm á öðrum fagsviðum og stuðlað að betri nýtingu á dýrmætu hráefni.  Fanney Frisbæk, verkefnisstjóri á Nýsköpunarmiðstöð tók í erindi sínu annan vinkil á grænkun hagkerfisins en Ingólfur og sagði frá EcoTroFood, verkefni sem hefur það að markmiði að minnka umhverfisálag frá innlendum og evrópskum matvælaiðnaði. 

Fab Lab - Þorsteinn Broddason

Þorsteinn Broddason talaði um möguleika Fab Lab á Íslandi


Fab Lab til Reykjavíkur

Stafrænu Fab Lab smiðjurnar, sem nú eru fjórar talsins á Íslandi, voru kynntar fyrir áhugasömum gestum ársfundar. Smiðjurnar eru reknar í nánu samstarfi við alþjóðlegt net Fab Lab smiðja um allan heim sem leitt er áfram af MIT háskólanum í Boston. Fab Lab smiðjurnar eru opnar öllum áhugasömum og búnar tækjum og tólum gera fólki kleift að búa til frumgerð af nánast hverju sem er. Smiðjurnar eru í dag staðsettar í Vestmannaeyjum, á Sauðarkróki, Ísafirði og Akranesi. Unnið er að opnun Fab Lab smiðju í Reykjavík, nánari tiltekið í Breiðholti, í samstarfi við Fjölbrautarskólann í Breiðholti og Reykjavíkurborg og eru vonir bundnar við opnun strax í haust.