Róbert Guðfinnsson er Brautryðjandinn 2013

28. febrúar 2013

Viðurkenning fyrir framúrskarandi atorku og hugvit á sviði verðmæta- og nýsköpunar var veitt á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í morgun.  Fyrstur til að hljóta viðurkenninguna, sem hlotið hefur heitið, Brautryðjandinn, var Siglfirðingurinn Róbert Guðfinnsson en viðurkenningin verður veitt árlega hér eftir.

Brautryðjandinn 2013

Róbert Guðfinnsson tók á móti viðurkenningunni frá Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Sigríði Ingvarsdóttur framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Með viðurkenningunni vildi Nýsköpunarmiðstöð Íslands verðlauna Róbert meðal annars fyrir lofsvert framtak og uppbyggingu á Siglufirði síðustu ár.  Gömul hús sem tengjast útgerð og síldarveiðum  hafa verið endurbyggð, máluð í fallegum og skærum litum og þau gædd lífi. Áform eru um að reisa þar bæði hótel í sama stíl og hefja rekstur lyfjaverksmiðju í gömlu húsnæði bátasmiðjunnar. Einnig er búið að gera samninga um myndarlega uppbyggingu á skíðasvæði Siglfirðinga og nýjan glæsilegan golfvöll sem liggur að rótum nyrstu skógræktar landsins. Driffjöðrin á bakvið þessa framkvæmdir er Róbert sjálfur sem nú hlýtur Brautryðjandann 2013 fyrir athafnasemi sína.

Táknmynd viðurkenningarinnar sem veitt var er í formi listaverks eftir Eddu Heiðrúnu Bachman. Verkið málaði hún sérstaklega fyrir þessa viðurkenningu og kallaði fram með glaðlegum og dökkum litum þau skin og skúri sem allir Brautryðjendur ganga í gegnum.

Við óskum Róberti innilega til hamingju með viðurkenninguna og erum þess sannfærð að hann hafi þegar orðið mörgum hvatning til framkvæmda.