MMI - nýsköpun í starfandi fyrirtækjum

05. mars 2013

Fjöldi leiðandi íslenskra fyrirtækja, norræna Nýsköpunarmiðstöðin, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og helstu nýsköpunar- og tæknistofnanir á Norðurlöndunum hafa undanfarin tvö ár unnið að þróun aðferða sem miða að því að auka nýsköpun og virði í starfandi fyrirtækjum. Verkefnið, Measured and Managed Innovation eða MMI, gengur út á að greina möguleika til nýsköpunar með því að vinna markvisst að nýsköpun á fleiri „sviðum“ í stjórnun og rekstri fyrirtækja eða með því að skapa ný viðskiptatækifæri á óhefðbundinn hátt. Í verkefninu unnu starfandi fyrirtæki markvisst að því að nálgast nýsköpun með nýjum hætti, breyttum aðferðum og viðskiptalíkönum og sköpuðu þannig ný verðmæti.

Páll Kr. Pálsson

Tuttugu og fjögur íslensk fyrirtæki tóku virkan þátt í verkefninu, mörg með eftirtektarverðum árangri. Fyrirtækin komu af fjölbreyttum sviðum atvinnulífsins og var Páll Kr. Pálsson einn þeirra ráðgjafa sem fenginn var til að vinna með fyrirtækjunum í verkefninu. Páll hefur til fjölda ára sérhæft sig í rekstrarráðgjöf til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Óhætt er að segja að verkefnið hafi hvatt þau fyrirtæki sem tóku virkan þátt til að endurskoða áherslur sínar og skýra sýn sína á nýsköpun og tækifæri til vaxtar.  Árangur MMI verkefnisins fór fram úr væntingum allra sem að því stóðu og greinilegt er að mörg sóknartækifæri blasa við á sviði nýsköpunar hjá starfandi fyrirtækjum.

  • Myndband með upplifun og reynslusögum er að finna hér
  • Skýrslu um verkefnið (ensk útgáfa) er að finna hér

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Berglind Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands í síma: 522-9263 /  netfang: berglindh@nmi.is