Nox flogið úr hreiðri nýsköpunarstuðnings

04. mars 2013

Nýsköpunarfyrirtækið Nox Medical hefur á síðustu fjórum árum skilað rúmum milljarði í gjaldeyristekjur og sér fram á áframhaldandi vöxt á þessu ári.  Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir í samtali við mbl.is að félagið sé nú að fljúga úr hreiðri nýsköpunarstuðnings hér á landi, en ljóst sé að þrátt fyrir stutta rekstrarsögu hafi rekstur félagsins skilað tvöfalt hærri fjárhæð í ríkissjóð en sem nemur þeirri fjárhæð sem félagið hefur fengið í formi beinna og óbeinna styrkja af opinberu fé til nýsköpunar og þróunar.

Pétur Halldórsson hjá Nox Medical

Sagan nær aftur til Flögu

Sögu Nox Medical má rekja aftur til ársins 1994 þegar Flaga hf var stofnað  og þess frumkvöðlastarfs sem dr. Helgi Kristbjarnarson heitinn leiddi og stýrði í því félagi á sínum tíma. Pétur segir að unnið sé eftir þeirri „hugsjón sem hann plantaði meðal ungra og efnilegra verkfræðinga á árum áður“.

Svefnrannsóknartækið T3 er vinsælasta vara Nox Medical

„Helgi kom með aðra sýn á það hvernig framleiða og hanna mætti búnað til svefnrannsókna en menn höfðu áður notað  á þessu sviði“ segir Pétur og bendir á að þarna hafi tölvutækninni hafið innreið sína og leyst af hólmi eldri og úrelta tækni. „Flaga kynnti á sýnum tíma byltingarkenndar tæknilausnir sem komu íslensku hugviti á kortið í þessum geira og varð fljótt leiðandi á alþjóðlegum markaði.  Til þessara verkefna þurfti ekki einungis gott samstarf við lækna, það þurfti verkfræðinga, hugvit og þekkingu, auk kjarks að fara ótroðnar slóðir“ segir Pétur.

Flaga óx hratt, var skráð á hlutabréfamarkað og menn sáu mikil tækifæri í því. Árið 2005 var Bandaríkjamaður ráðinn forstjóri félagsins,en hann hafði aðra sýn á starfsemina en Helgi og taldi að Ísland væri ekki rétt staðsetning fyrir fyrirtæki af þessu tagi og var starfsemi Flögu flutt úr landi án þess að starfsmenn félagsins færu með og eftir varð á Íslandi hópur einstaklinaga með mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði.

Héldu áfram í stað þess að fara í bankana

Segir Pétur að þarna hafi menn þurft að ákveða hvort halda ætti starfinu áfram eða hverfa til annarra starfa, til dæmis flytja sig yfir í sívaxandi fjármálamarkað „Á þessum tíma spurðu ungir verkfræðingar sig hvort þeir ættu ekki að fara að vinna í bönkunum eins og allir hinir og þiggja fyrir góð laun í því sem menn töldu öruggu starfsumhverfi, eða hvort þeir skyldu halda áfram þar sem frá var horfið, sækja enn frekar fram og taka til við hönnun næstu kynslóðar þessara tóla og tækja og færa svefnrannsóknir inn í enn nýjan heim.“

Það varð úr að Sveinbjörn Höskuldsson og sex aðrir einstaklingar „taka keflið og stofna Nox Medical með það að leiðarljósi að gera góða hugmynd enn betri, en fyrsta vara félagsins kom fram á sjónarsviðið 2009“ segir Pétur. Á hann þar við T3 svefnrannsóknartækið, en stærð þess er á við lítinn farsíma og hefur selst í þúsundum eintaka um allan heim í dag. Hvert eintak af tækinu kostar að jafnaði um eina milljón og því til mikils að vinna í þessum geira.

Fljúga úr hreiðri nýsköpunarstuðnings

Í ræðu sinni á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í gær sagði Pétur að nú væri fyrirtækið að fljúga úr hreiðri nýsköpunarstuðnings hér á landi, en við þau tímamót fór hann yfir farinn veg í rekstri fyrirtækisins. „Á síðustu fjórum árum eru uppsafnaðar tekjur fyrirtækisins rúmlega 1 milljarður króna og allt eru það erlendar gjaldeyristekjur“.  Sagði Pétur að opinber stuðningur nýsköpunarsjóða sem runnið hefði til félagsins vera um 80 milljónir, en auk þess hefði fyrirtækið fengið endurgreiðslu á tekjuskatti vegna nýsköpunar að fjárhæð um 60 milljónir frá stofnun Nox Medical.

Tvöföldun starfsfólks á síðasta ári

„Þrátt fyrir öran vöxt stækkar þessi geiri ekki endalaust, en það er morgunljóst að vitund manna um svefnraskanir og mikilvægi þeirra í heilsu fólks hefur aukist gífurlega síðustu áratugi.  Ísland er í dag stórt nafn í heimi sem svefnrannsókna“ segir Pétur. Hann þakkar það ekki síst góðu samstarfi við Landspítalann, sem hann telur mikilvægt að starfa áfram með á þessu sviði. Markaðurinn sem fyrirtækið starfar á er harður að sögn Péturs, en Nox hefur að hans mati alla burði til að taka sér leiðtogahlutverk á þessu sviði. Í dag starfa 21 starfsmaður hjá Nox Medical, en fjöldi starfsmanna hefur tvöfaldast á síðustu 12 mánuðum og Pétur sér fyrir sér frekari fjölgun á þessu ári.

Pétur er bjartsýnn á framhaldið og segir mannauðinn vera það sem skipti mestu máli fyrir uppgang hérlendis á næstunni. „Við höfum á að skipa fólki með þekkingu og reynslu sem á sér ekki hliðstæðu í heiminum.  Ef rétt er á málum haldið, við styðjum við nýsköpun í landinu, eflum tæknimenntun og stöndum vörð um „þjóðargullið“, hugvit fólksins okkar og sækjum fram af krafti, er enginn vafi á því að við Íslendingar munum vinna okkur hratt út úr tímabundinni efnahagslægð og halda áfram vinna stóra sigra á alþjóðlegum vettvangi.“

Höfundur greinar er Þorsteinn Ásgrímsson hjá Mbl.is - grein birt 3. mars 2013 á mbl.is