Forstjóri flytur ræðu á heimsþingi FabLab

11. júlí 2014

Fab Lab (Fabrication Laboratory) er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Nýsköpunarmiðstöð Íslands rekur fjórar FabLab smiðjur sem gefa ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Smiðjurnar eru staðsettar í Reykjavík, Sauðárkróki, Ísafirði og Vestmannaeyjum. 

Yfir 1.000 einstaklingar sóttu heimsráðstefnu FabLAb í Barcelona

Fyrstu viku júlímánaðar var haldin tíunda heimsráðstefna FabLab í Barcelona sem sótt var af yfir eitt þúsund manns.
Barcelona hefur áður lýst því yfir að borgin stefni að því að verða FabLab borg, sem leggur mikla áherslu á FabLab menningu varðandi framtíðarstefnu á sviði nýsköpunar og iðnþróunar.

Heimsráðstefna FabLAb

Þorsteinn Ingi Sigfússon var beðinn um að koma og flytja erindi um FabLab landið Ísland sem var eitt fyrsta landið til að hefja FabLab væðingu í heiminum.
Forstjóri rakti ástandið á Íslandi í upphafi kreppu, í þann mund er Nýsköpunarmiðstöð hóf störf, fór svo yfir þróun kreppuástandsins og lýsti viðbrögðum Nýsköpunarmiðstöðvar með stofnun frumkvöðlasetra og FabLab smiðja sem m.a. hefðu leitt til stofnunar fyrirtækja sem væru alfarið í anda FabLab eins og Remake Electric ehf.

Upphafsmaður FabLab ánægður með útbreiðslu FabLAb á Íslandi 

Þorsteinn Ingi sagðist mjög ánægður með ráðstefnuna, FabLab á Íslandi ætti mjög marga vini úti í hinum stóra heimi og starfsfólk FabLab á Íslandi væri vinsælt í FabLab heiminum en það tók þátt í fjöldamörgum viðburðum á ráðstefnunni. Neil Gershenfeld prófessor og upphafsmaður FabLab fór fögrum orðum um FabLab á Íslandi en Gershenfeld ritar kafla í Nýsköpunarbókina sem út kom 4. júní s.l. og var honum afhent eintak af bókinni í ræðustól á ráðstefnunni.

Þorsteinn Ingi og upphafsmaður FabLAb

Neil Gershenfeld prófessor og upphafsmaður FabLab ásamt forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Þorsteini Inga Sigfússyni

Margir þekktir einstaklingar sóttu ráðstefnuna og fluttu erindi eins og Massimo Banzi frumkvöðull og stofnandi Arduino rafeindafyrirtækisins. Hann flutti erindi um sitt merka fyrirtæki sem er lykilþáttur í rafeindatækni sem byggir á „open source“.

Nánari upplýsingar um FabLab smiðjur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands má finna hér. 

Mikil gleði í kringum FabLAb

 FabLab miðar að því að hafa gaman að hlutunum. Það var engin undantekning á því á heimsráðstefnunni eins og sjá má.

Forstjóri flytur erindi sitt

Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands flutti erindi þar sem hann fjallaði um FabLab landið Ísland

Frosti, Neil og félagar

Neil Gershenfeld prófessor ásamt Frosta Gíslasyni verkefnisstjóra í Vestmannaeyjum og öðrum FabLab snillingi frá Amsterdam.

Mikill fjöldi sótti heimsþingið

 Ráðstefnan var þétt setin en hana sóttu um 1.000 einstaklingar