Hvalaskoðunarbræður fá viðurkenninguna Brautryðjandinn 2017

02. mars 2017

BrautrydjandinnHörður og Árni Sigurbjarnarsynir, stofnendur Norðursiglingar á Húsavík eru Brautryðjendur ársins 2017. Þetta er í fjórða sinn sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands veitir þessa viðurkenningu.

Bræðurnir stofnuðu fyrirtækið árið 1995 og hófu að bjóða ferðamönnum hvalaskoðun úti fyrir Norðurlandi. Fyrsta sumarið fluttu þeir 1.760 gesti en í dag er velta þjónustu tengdri hvalaskoðun á Íslandi talin í milljörðum.

Viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi atorku og hugvit á sviði verðmæta- og nýsköpunar.

Ríflega 300 manns voru viðstaddir ársfund Nýsköpunarmiðstöðvar og fögnuðu þar meðal annars þessari útnefningu. Framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar rifjaði það upp, að árið 1985 hafi fólk á fundi í Reykjavík tekið vægast sagt illa í þá hugmynd að hvalaskoðun gæti orðið atvinnugrein og las meðal annars upp þessa tilvitnun í blaðagrein frá 1985.

„Yfirleitt tók fólk þessu ekki sérlega vel, fannst þetta ósmekklegt og lét það í ljós.“

Ónefndur alþingismaður taldi þessa uppástungu (þ.e. hvalaskoðun sem atvinnugrein) „þá fáránlegustu sem hann hefði lengi heyrt og sýndi hún gífurlega vanþekkingu á íslenskum aðstæðum.“

Fyrri verðlaunahafar eru Róbert Guðfinnsson, arthanfamaður á Siglufirði, frú Vigdís Finnbogadóttir og Gísli Einarsson, sjónvarpsmaður.

Táknmynd viðurkenningarinnar er listaverk eftir Eddu Heiðrúnu Bachman, en hún lést á síðasta ári. Málverkið er í röð verka Eddu Heiðrúnar sem hún málaði sérstaklega fyrir Brautryðjendaverðlaunin á sínum tíma.

Á myndinni að ofan eru Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Hörður Sigurbjarnarson, sem tók við viðurkenningunni Brautryðjandinn 2017 fyrir hönd þeirra bræðra og Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri.

 

Hvalaskoðun á eikarbátum

Norðursigling ehf. var stofnuð á Húsavík árið 1995 og var fyrst íslenskra hvalaskoðunarfyrirtækja til að bjóða upp á reglulegar hvalaskoðunarferðir. Eitt helsta markmið Norðursiglingar er varðveisla íslenskra eikarbáta. Tveir bátanna hafa verið endurbyggðir sem tveggja mastra seglskip.

Nýr skrúfubúnaður sem þróaður hefur verið sérstaklega hefur þá sérstöðu að hægt er að hlaða rafgeyma skipsins undir seglum. Í hvalaskoðunarferðum mun rafmótorinn knýja skrúfubúnaðinn en þegar skipið siglir fyrir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og nýta búnaðinn til að hlaða rafmagni inn á geyma skipsins. Verkefnið hefur m.a. verið unnið í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.