Starfskynning - nemi frá Hvolsskóla

04. maí 2017

20170427_101043

Hér á eftir fer dagbók Ástríðar B. Sveinsdóttur, nemanda við Hvolsskóla - en hún kom til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í starfskynningu. 

Kæra dagbók dagurinn í dag var mjög óvenjulegur en jafnframt skemmtilegur. Ég fór í starfskynningu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þegar ég kom í miðstöðina tók yndisleg kona á móti mér en hún heitir Sigríður og hún er framkvæmdastjóri miðstöðvarinnar. Hún byrjaði á að sýna mér kaffistofuna og segja mér frá dagskránni, jú og kynna mig fyrir þeim sem voru í kaffi og síðan bauð hún mér smá bröns, sem og ég þáði.

Eftir brönsinn sýndi Sigríður mér aðsetur nokkurra sprotafyrirtækja sem starfa innan veggja Nýsköpunarmiðstöðvar og sagði mér frá allskonar verkefnum sem þau hafa verið, og eru að framkvæma og vinna að. Ég hitti líka Þorstein, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar og talaði aðeins við hann.

Næst á dagskrá var stutt labb um restina af húsinu með henni Helgu. Helga sýndi mér skrifstofurnar og kynnti mig fyrir fullt af fólki sem var að vinna á skrifstofunum sínum. Síðan fórum við niður og hún sýndi mér nokkrar rannsóknarstofur og ég fékk að sjá rafeindasmásjá í notkun.

20170427_101925 

 

Því næst hitti ég Sigþrúði sem er verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hún var sem sagt að sjá um fyrirlestur sem var haldinn í hádeginu í Setri Skapandi Greina. Í setrinu hitti ég Eyjólf sem er líka verkefnastjóri. En hann sagði mér mér hvernig Nýsköpunarmiðstöð vinnur með fólki og aðstoðar aðila. Hann sagði mér líka frá ýmsum verkefnum og hugmyndum sem eru í gangi hjá þeim.

20170427_153403

Stuttu seinna kom Fjalar markaðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar og ég aðstoðaði hann við að koma hljóðnema í lag.

 20170427_125414

Alda Karen og Aldís frá Ghostlamp komu og héldu fyrirlesturinn en hann var um áhrifavalda og áhrifavaldamarkaðssetningu. Ég sat fyrirlesturinn og ég var agndofa yfir því hve lítið við vitum um þetta en á sama tíma er þetta alls staðar og við tökum ekki einu sinni eftir því. Ég mæli mjög mikið með því að fólk kynni sér áhrifavaldamarkaðssetningu.

20170427_113337

Eftir fyrirlesturinn fórum við aftur uppí Nýsköpunarmiðstöð og ég skoðaði betur húsin á svæðinu. Ég byrjaði á að fara og tala við strákana sem eiga fyrirtækið Lumenox, en það er tölvuleikjafyrirtæki sem er að vinna að sínum öðrum leik. Því næst fékk ég smá kynningu um Efnagreiningarstofuna og kynntist þar verkefni sem ein stelpa er að vinna með en það snýst um að búa til náttúruvænna ammoníak.

Það síðasta sem ég gerði var að skoða Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins. En þar var fullt af verkefnum í gangi. Ég byrjaði á að skoða allskonar búta af malbiki en þeir voru sem sagt allir með mismunandi jarðefni frá ýmsum stöðum á Íslandi. Ég talaði við Erlu Maríu en hún var að gera veg- og jarðefnarannsóknir. Ég sá einnig þversnið af venjulegum veg og satt að segja þá datt mér aldrei í hug að það væri svona mikið á bak við einn veg.

20170427_145550_001

Þegar dagurinn er tekinn saman þá var hann hrikalega skemmtilegur í alla staði og ég gæti ekki hafa skemmt mér betur. Ég hitti fullt fullt af æðislegu og flottu fólki. Ég mæli svo sannarlega með að fólk hugsi út fyrir kassann og geri það sem það langar vegna þess að ég sá hve mikið fólk var að skemmta sér í vinnunni og hve gaman það hafði af vinnunni, þetta var líka svo þægilegt umhverfi og mér leið mjög vel þarna. Augu mín opnuðust betur fyrir öllum möguleikunum sem við höfum. Ég gæti jafnvel séð fyrir mér að vinna hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í framtíðinni.

Ástríður Björk.