Nýr leikur frá Lumenox fyrir Playstation og Windows

14. júlí 2017

Lumenox2Tölvuleikjafyrirtækið Lumenox hefur gefið út nýjan tölvuleik. Leikurinn heitir YamaYama og er stórskemmtilegur partýleikur fyrir vini og hópa til að spila saman.  

Lumenox hefur haft aðsetur á frumkvöðlasetri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands undanfarin misseri. Þeir gáfu síðast út leikinn Aarus Awakening sem var frumraun þeirra inn á hið eftirsótta sölukerfi Playstation Network,  sem Sony rekur fyrir Playstation leikjatölvurnar. Sony gerir mjög stífar kröfur til þeirra sem vilja komast þar inn.

Lumenox er eina íslenska fyrirtækið, fyrir utan stórfyrirtækið CCP sem hefur komið leik inn í Playstation umhverfið og er jafnframt fyrsta leikjafyrirtækið á Íslandi sem komið hefur leik inn á Xbox kerfi Microsoft.

Burkni Óskarsson hjá Lumenox segir ferlið orðið léttara eftir að fyrsti leikurinn var samþykktur, en nýr leikur þarf samt sem áður að standast stífar kröfur Sony Playstation.

„Þótt leikurinn sé kominn inn á PSN fyrir Playstation og á Steam fyrir Windows er aðeins hálfur sigur unninn, því þá reynir á hvort notendur vilji kaupa leikinn og spila hann. Það er undir gæðum og vinsældum leiksins komið hvort hann slær í gegn.“

YamaYama leikurinn

YamaYama leikurinn er tiltölulega smár í sniðum og er seldur sem niðurhal fyrir Playstation og á Steam fyrir Windows. Þetta er svokallaður sófaleikur eða það sem heitir á ensku „couch co-op” leikur. Tveir til fjórir leikmenn keppa saman, annaðhvort á sömu tölvu með fjórar fjarstýringar eða yfir netið. Enga sérstaka kunnátttu þarf til að leika Yamayama og því er hann kjörinn afþreying í stutta stund í skemmtilegum hópi. Leikurinn hentar auk þess öllum aldurshópum, því aðferðin til að sigrast á öðrum er þegar persóna leikmannsins þenur út fitubúninginn sinn, verður eins og Sumo glímukappi í laginu, og ryður þannig hinum keppendunum úr vegi í bókstaflegri merkingu.