Skipulögðu 100 fundi 90 fyrirtækja frá 24 löndum, á einum og sama deginum

29. september 2017

MME 007

 Á Íslensku sjávarútvegssýningunni sem haldin var í Kópavogi, áttu 90 fyrirtæki frá 24 löndum 100 skipulagða fundi hvert með öðru. Á sýningunni fór fram fyrirtækjastefnumót, þar sem opnað er á möguleika á nýjum viðskiptatækifærum og tengslamyndun á stuttum, skipulögðum fundum. Veg og vanda af skipulagningu og framkvæmd fyrirtækjastefnumótsins átti Evrópumiðstöð á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en Evrópumiðstöð er hluti af Enterprise Europe Network tengslanetinu.

Vinsæl aðferð til viðskipta

Samskonar fyrirtækjastefnumót hafa verið haldin í Hörpu í tilefni af Iceland Geothermal ráðstefnunni og við önnur ámóta tækifæri.  Að sögn Kjartans Due Nielsen hjá Evrópumiðstöð er reynsla þeirra og þekking í að halda svona fyrirtækjastefnumót orðin sífellt eftirsóttari og hann gerir ráð fyrir að svona stefnumótum fjölgi.

Kjartan Due Nielsen hjá Evrópumiðstöð:

„Þarna þurftum við að fella saman óskir 90 aðila um að hitta hver annan, þvers og kruss, og allt þarf þetta að gerast á einum degi ráðstefnunnar. Við skipuleggjum fundina og fylgjumst með að tímamörk séu virt, því annars riðlast skipulagið. Stefnumót af þessu tagi hafa reynst mörgum heppilegur upphafspunktur sem hefur síðan oft leitt til varanlegra viðskiptasambanda í framhaldinu.“

Um Evrópumiðstöð

Evrópumiðstöð (Enterprise Europe Network) styður metnaðarfull fyrirtæki í nýsköpun og alþjóðlegum vexti. EEN býður upp á leit að samstarfsaðilum vegna viðskipta,  tækni- og þekkingaryfirfærslu í gegnum gagnagrunn sinn og veitir viðskiptavinum sínum auðveldari aðgang að viðskiptaupplýsingum og styrkjamöguleikum í Evrópu. Alls eru um 600 samstarfsaðilar í yfir 40 löndum í tengslanetinu og er Enterprise Europe Network því stærsta samstarfsnet sinnar tegundar vegna útbreiðslu sinnar sem og fjölbreytileika þjónustunar sem það veitir. 

Þeir sem eru áhugasamir um að fá frekari upplýsingar snúi sér til starfsmanna Enterprise Europe Network á Íslandi.

MME 004

Kjartan Due Nielsen, Gauti Marteinsson og Mjöll Waldorff hjá Evrópumiðstöð stýrðu fyrirtækjastefnumótinu á Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi.