Frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar

Frumbjörg - frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar

Frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar, Frumbjörg, er samstarfsverkefni Sjálfsbjargar - Landsamband fatlaðra, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Háskólans í Reykjavík og fleiri aðila. Markmið setursins er að örva nýsköpun meðal fatlaðra og tengdra aðila, fjölga atvinnutækifærum og skapa vettvang fyrir rannsóknir, nýsköpun og þróunarstarf á velferðar- og heilbrigðissviði, - einkum því sem tengist hreyfihömluðum og öðrum fötluðum. Hreyfihamlaðir einstaklingar hafa gjarnan litla eða enga aðstöðu eða leiðsögn til að vinna að sínum hugðar- og hagsmunaefnum og með stofnun Frumbjargar vill Sjálfsbjörg koma til móts við þessa einstaklinga.

Frumbjörg hóf starfsemi sína 29. febrúar 2016 og er staðsett í húsnæði Sjálfsbjargar Hátúni 12 á 1. hæð (gengið er inn norðan megin við húsið - að neðan verðu) og farið upp eina hæð. Þá hefur verið opnuð vefsíða þar sem fram koma allar nauðsynlegar upplýsingar – www.frumbjorg.is. Reksturinn hefur farið rólega af stað og er kallað eftir að fatlaðir frumkvöðlar eða frumkvöðlar sem eru að vinna að verkefnum á sviði heilbrigðis- og velferðarmála gefi sig fram og kynni sér möguleikana hjá Frumbjörg. Húsnæðið er mjög vel staðsett og allt aðgengi er mjög gott. Í takt við nýja tíma og þarfir vill Sjálfsbjörg með þessu sinna betur þörfum einstaklinga og atvinnulífs fyrir rannsóknir, nýsköpun og frumkvöðlastarf með hagsmuni og velferð hreyfihamlaðra að leiðarljósi. Segja má, að það sé ný hugsun þar sem aðgengismál snúast ekki lengur eingöngu um þröskulda og stiga, heldur ekki síður um aðgengi að menntun, upplýsingum, atvinnu og lífsgæðum til jafns við aðra landsmenn.

Frumbjörg er hugsuð sem sérlega aðgengilegur vettvangur fyrir hreyfihamlaða til þess að taka þátt í fjölbreytilegri nýsköpun. Ekki síst verður hlutverk frumkvöðlamiðstöðvarinnar að styðja við hreyfihamlaða og aðra fatlaðra til sjálfsbjargar í atvinnulegu tilliti og efla þannig atvinnulífið með þátttöku sem flestra og bæta lífskjör og lífsgæði þessa hóps.

Tvenns konar starfsemi er fyrirhuguð í Frumbjörgu:

  • Fyrir fatlaða og þá sérstaklega hreyfihamlaða einstaklinga sem vinna að sínum eigin verkefnum á frumkvöðla- eða nýsköpunarsviði hver svo sem þau eru.

  • Fyrir fatlaða eða ófatlaða einstaklinga sem vinna að frumkvöðla- eða nýsköpunarverkefnum á heilbrigðis- og velferðarsviði með sérstaka áherslu á hreyfihamlaða eða aðra fatlaða.

Skrifað hefur verið undir samstarfssamning við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar, sem starfar í Hátúni 12 mun einnig starfa í nánu samstarfi við Frumbjörg, en þar er mikil þekking um félagsþjónustu- og heilbrigðiskerfin og margvísleg hjálpartæki samankomin. Einnig hefur verið gerður samstarfssamningur við Háskólann í Reykjavík.  Bundnar eru miklar vonir við samstarf við þessa aðila og er með þessu byggð upp þrenns konar tengsl, í fyrsta lagi akademísk tengsl, í öðru lagi byggt á reynslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við sambærileg verkefni og að lokum er nýtt reynsla og þekking Sjálfsbjargar á málefnum hreyfihamlaðra. Allir þessir aðilar hafa tengsl við atvinnulíf og samfélag.

Áhugasamir frumkvöðlar geta sótt um aðstöðuleigu hjá Frumbjörg í gegnum umsóknarferli Nýsköpunarmiðstöðvar hér