Mótun viðskiptahugmynda

Hér hafa verið tekin saman nokkur mikilvæg atriði varðandi stofnun og rekstur fyrirtækja. Góður undirbúningur og vandaðar áætlanir auðvelda þér vinnuna til framtíðar. 

Ferlið frá því að hugmynd kviknar og þar til að viðskiptahugmyndin er orðin að arðbærum rekstri getur verið nokkuð langt, en þarf alls ekki að vera flókið. Hugmyndir þróast eftir því sem þú kynnir þér efnið betur og sú hugmynd sem þú leggur upp með í dag gæti orðið allt önnur en sú sem þú munt reka sem fyrirtæki í framtíðinni. 

Mundu að þú þarft ekki að kunna eða vita allt, en verkefni þitt er líklegra til árangurs eftir því sem þú kynnir þér málin betur.

Það sem virðist vera sameiginlegt með frumkvöðlum sem njóta velgengni er hæfileikinn til að læra og bregðast við og getan til að aðlagast breytingum. Því má segja að fólki sem gengur vel, gangi vel vegna hæfileika þess til að læra nýja hluti frekar en vegna þess sem það kann.

Mikilvægt er að þú hafir sýn á það hvert þú ætlar þér með rekstrinum og hafir kraftinn til að framkvæma til að ná þeim markmiðum.

Þú þarft að læra margt áður en þú hefst handa við rekstur fyrirtækis, en fyrst og fremst lærir þú af reynslunni. Það er mikilvægt að læra sem mest um rekstur áður en þú ferð af stað en jafnframt hafa það í huga að þú getur aldrei lært allt. Þú þarft því að taka stökkið.

Viltu fá aðstoð? Skráðu þig fyrir leiðsögn og fáðu aðstoð við að koma þinni hugmynd á framkvæmdastig.

Stuðningsaðilar í atvinnulífinu

Það eru ýmsir aðilar sem geta aðstoðað þig við mótun viðskiptahugmyndar þinnar á öllum stigum. Hér hefur verið tekinn saman listi af nokkrum þeirra.