Stuðningsaðilar nýsköpunar

Það eru ýmsir aðilar sem geta hjálpað þér við að móta hugmyndina þína þannig að hún verði að viðskiptatækifæri.

Nýsköpunarmiðstöð býður upp á þá þjónustu sem finna má upplýsingar um hér á síðunni og hefur starfstöðvar víða um landið. Þar að auki eru möguleikar hjá sérfræðingum á hverju sviði fyrir sig sem geta aðstoðað þig varðandi mismunandi atriði og á mismunandi stigum viðskiptahugmyndarinnar. 

Hér fyrir neðan finnur þú ýmsa aðila úr stoðkerfi íslenska atvinnulífsins sem geta aðstoðað þig með viðskiptahugmyndina.

Atvinnuþróunarfélög

Atvinnuþróunarfélögin hafa það sem eitt af markmiðum sínum að styðja við frumkvöðlastarf í sínu heimahéraði og starfa á allmörgum stöðum á landinu.

Hlutverk þeirra er að stuðla að atvinnu- og byggðaþróun á starfssvæðum sínum. Áhersla er lögð á að veita almenna atvinnuráðgjöf og stuðla að nýsköpun í samstarfi við einstaklinga, starfandi fyrirtæki, samtök í atvinnulífinu, rannsókna- og tæknistofnanir, ráðuneyti og aðra aðila sem hafa tengsl við atvinnulífið.

Atvinnuráðgjafar aðstoða einstaklinga sem áhuga hafa á stofnun fyrirtækja, standa fyrir námskeiðahaldi, vinna að undirbúningi ýmiskonar atvinnuþróunarverkefna og aðstoða og leiðbeina sveitarfélögum. Þeir aðstoða ennfremur ýmsa aðila við undirbúning umsókna um hvers kyns fyrirgreiðslu. Ef þú ert að vinna að hugmynd á starfssvæði eins af atvinnuþróunarfélögunum geturðu haft samband við þau og kannað hvernig þau geta orðið þér að liði.

Finndu þitt atvinnuþróunarfélagAtvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar , Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða , Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga , Heklan - Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja , Samtök sunnlenskra sveitarfélaga , Samtök sveitarfélaga norðurland vestra , Samtök sveitarfélaga á VesturlandiAusturbrú

Byggðastofnun

Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin undirbýr, skipuleggur og fjármagnar verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Byggðastofnun fylgist einnig með þróun byggðar í landinu.

www.byggdastofnun.is

Ferðamálastofa

Ferðamálastofa fer með framkvæmd ferðamála samkvæmt lögum og stuðlar að þróun ferðamála sem atvinnugreinar. Hlutverk Ferðamálastofu er að vinna að og eftir stefnumörkun í málaflokknum og koma með afgerandi hætti að framkvæmd ferðamálaáætlunar, þ.e. framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu, samræmingu umhverfis- og fræðslumála, miðlun upplýsinga, svæðisbundinni þróun, nýsköpunar, atvinnuuppbyggingar og alþjóðlegu samstarfi. Hlutverk Ferðamálastofu er jafnframt að stuðla að samstarfi ólíkra aðila í ferðaþjónustu og að veita þjónustu til aðila innan ferðaþjónustunnar á sviði leyfisveitinga, markaðssetningar innanlands og þróunar-, gæða- og skipulagsmála.

www.ferdamalastofa.is

Íslandsstofa

Markmið Íslandsstofu er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins. Íslandsstofa vinnur náið með öðrum aðilum í stuðningsumhverfi íslenskra fyrirtækja að verkefnum sem snúa að útflutningi og kynningarstarfi erlendis. Einnig annast Íslandsstofa gerð margs konar kynningarefnis sem notað er til kynningar og upplýsingar um land og þjóð, ásamt sérhæfðara markaðs- og kynningarefni í tengslum við einstök verkefni.

Útflutningsþjónusta Íslandsstofu - Íslandsstofa veitir íslenskum fyrirtækjum alhliða þjónustu sem miðar að því að styrkja stöðu þeirra á sviði útflutnings og erlendri markaðssókn. Þjónustu Íslandsstofu má skipta í þrjú svið; upplýsingagjöf, undirbúning og aðstoð á markaði. 

Erlend markaðssókn - Verkefni Íslandsstofu felast í að greiða fyrir útflutningi á vöru og þjónustu, laða til landsins erlenda ferðamenn, kynna menningu og skapandi greinar og laða til landsins erlenda fjárfestingu. Erlendri markaðssókn er skipt í fjórar greinar – ferðaþjónustu og skapandi greinar, matvæli, sjávarútveg og landbúnað, iðnað og þjónstu og beina erlenda fjárfestingu.  

www.islandsstofa.is