Enn að hugsa

Frá hugmynd að veruleika

Að ákveða að fara út í að reka eigin fyrirtæki er mikil og erfið ákvörðun sem ekki er tekin í snarhasti. Margir komast aldrei af þessu stigi og yfir á framkvæmdastigið og fyrir því geta legið margar ástæður. Algengar ástæður fyrir því að fólk fer ekki lengra með hugmyndir sínar eru efasemdir um eigið ágæti og vantrú á að það geti þetta.

Í upphafi lítur rekstur fyrirtækja út fyrir að vera mjög flókinn. Magn upplýsinga sem þú þarft að hafa á takteinum getur verið yfirþyrmandi og síðan hafa hlutirnir tilhneigingu til að taka aðra stefnu en þú væntir. 

Til að gera hlutina enn erfiðari þá virðast þeir sem hafa verið í sömu sporum á undan þér vera fullir af sjálfstrausti og dugnaði. Það sem þú mátt ekki gleyma er að þeir eru aðeins komnir lengra í sama ferli og þú ert nú að hefja. Þeir hafa örugglega einhvern tímann haft heppnina með sér og hafa verið óöruggir, líkt og þú við upphaf þessa ferils.

Það sem virðist vera sameiginlegt með frumkvöðlum sem njóta velgengni er hæfileikinn til að læra  og bregðast við og aðlagast aðstæðum eftir því sem þær breytast. Því má segja að fólki sem gengur vel, gangi vel vegna hæfileika þess til að læra nýja hluti frekar en vegna þess sem það kann.

Því snýst rekstur ekki um það sem þú veist né heldur um það sem þú þarft að vita. Rekstur snýst um að gera hlutina rétt. Mikilvægt er að þú hafir sýn á það hvert þú ætlar þér með rekstrinum og hafir kraftinn til að framkvæma til að ná þeim markmiðum.

Þetta þýðir að þú þarft að læra -  áður en þú hefst handa en fyrst og fremst lærir þú af reynslunni. Það er mikilvægt að læra sem mest um rekstur áður en þú ferð af stað en jafnframt hafa það í huga að þú getur aldrei lært allt. Þú þarft því að taka stökkið.

Bókaðu tíma í handleiðslu og fáðu aðstoð við að koma þinni hugmynd á framkvæmdastig.