Viðskiptahugmyndin

Ekki verða allar viðskiptahugmyndir til á sama hátt, það er ekki þannig að allar hugmyndir verði til skyndilega, líkt og kveikt sé á peru, eða þær verði allar til að loknum áralöngum hugleiðingum. Ef þig langar að verða þinn eigin herra og standa í eigin fyrirtækjarekstri þá eru til ýmsar aðferðir til að fá góðar hugmyndir.   Það er ekki oft sem algjörlega nýr rekstur/hugmynd fer af stað, hugmynd sem engum hefur dottið í hug fyrr. Á móti hverri nýrri hugmynd um rekstur eru miklu fleiri eldri og margreyndari hugmyndir sem eru nýttar. Málið er að finna einhverja nýja og skemmtilega nálgun sem aðskilur rekstur þinn frá þeim sem eru í sömu grein. 

Hvað gerir hugmynd góða?

Hugmyndir kvikna oft út frá einhverju sem er þegar til. Þegar svo er getur verið að hugmyndin hafi kviknað þegar þú varst að vinna fyrir einhvern annan. Eins gæti hugmyndin þín hafa kviknað út frá áhugamáli. Hvernig sem hugmyndin kann að hafa kviknað er mikilvægt að þú spyrjir þig tveggja spurninga: Í hverju er ég góður og hvað hef ég gaman af að gera? Ef þú þekkir kosti þína og galla, styrk þinn og veikleika gefur það þér til kynna hvernig þú vinnur; hversu vel, hversu frumlega og hversu hratt.

Rekstur sem gengur vel uppfyllir í flestum tilfellum eina eða fleiri af fullyrðingunum hér að neðan:

  • Vara/þjónusta sem aldrei hefur verið boðið upp á áður.
  • Þróun eða aðlögun vöru/þjónustu að nýjum þörfum.
  • Vara/þjónusta boðin hópi sem ekki hefur verið vel sinnt.
  • Vara/þjónusta boðin á svæði sem ekki hefur verið vel sinnt.
  • Bjóða sömu vöru/þjónustu betur en allir hinir.
  • Bjóða sömu vöru/þjónustu ódýrar en allir hinir.


Tækifæri /þörf myndast á markaði og listin er að laga hugmyndina að tækifærinu. Eins og gengur, þá eru tækifærin ekki alltaf sýnileg öllum og þess vegna nýtur þú ekki alltaf skilnings hjá þeim sem þú þarf stuðning frá, eins og bönkum, stofnunum og ráðgjöfum.

Að sannfæra annað fólk um að hugmyndin þín sé frábært tækifæri er ein af mörgum ástæðum þess að frumkvöðlar þurfa drifkraft, þrautseigju og ákveðni.