/media/8698/elo3.jpg

Tækniþróun og þekkingaryfirfærsla


Fagleg þjónusta og ráðgjöf sem stuðlar að betra efnisvali, vandaðri framleiðslu og hagkvæmni

Efnis-, líf- og orkutækni

Megináhersla  Efnis-, líf- og orkutækni (ELO) er að stuðla að aukinni þekkingu, færni og almennri uppbyggingu íslensks atvinnulífs í gegnum nýsköpun, tækniþróun, rannsóknir og þekkingaryfirfærslu á völdum áherslusviðum. ELO vinnur að þessu markmiði með þátttöku í innlendum og erlendum tækniþróunar- og rannsóknarverkefnum, veitir ráðgjöf um tækniþróun og framleiðslu og framkvæmir einnig ýmsar prófanir aðallega á sviði efnis- og framleiðslutækni.

Áherslur og verksvið ELO byggja á áhuga og þörfum íslensks atvinnulífs fyrir rannsóknir og þróun hverju sinni auk þess að horfa til framtíðar. Sérfræðingar á sviðinu fylgjast með straumum og stefnum í nýsköpun og rannsóknum á sínum fagsviðum, innlendis sem erlendis, og eru vakandi fyrir nýjum tækifærum.

Á hverju áherslusviði myndar deildin hóp sérfræðinga og aðstoðarmanna sem leysa krefjandi verkefni í samvinnu, bæði sín á milli og í samvinnu við háskóla, aðrar rannsóknastofnanir og atvinnulífið. Mörg verkefni eru unnin í erlendu samstarfi með það að markmiði að auka tengsl og þekkingu íslenskra sérfræðinga og fyrirtækja út á við og efla þannig þann þekkingargrunn sem ELO og íslenskt atvinnulíf býr yfir.

Framkvæmdastjóri deildar er Kristján Leósson.

Áherslusvið deildar:

Efnistækni
Tengiliður er Kristján Leósson

Efnistækni, þar sem unnið er með innri byggingu efnis og eiginleika efnis tengt notkun, er stórt rannsókna og þróunarsvið á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Unnið er með málma, plastefni, keramik auk annarra gerða efnis og efnisblandna. Efni og nýting þess er forsenda fyrir helstu atvinnuvegum þjóðarinnar.

Plasttækni
Tengiliður er Páll Árnason

Á sviði plasttækni er unnið að rannsóknum í samstarfi við innlend og erlend fyrirtæki og stofnanir, prófunum á efnum og vöru, fræðslu um plastefni, vörur og framleiðslutækni og ráðgjöf við vöruþróun, efnisval, framleiðslutækni og mat á gæðum.

Örtækni
Tengiliður er Kristján Leósson

Þau svið tækni og vísinda sem snúa að uppbyggingu og meðhöndlun efnis á nanóskala hafa undanfarin ár verið í mikilli þróun. Litið hefur verið til þessara sviða sem helstu vaxtarsprota í tækni og vísindum. Örtækni hefur mikla þverfaglega nálgun og mun þróun hennar og notkun að mati margra helstu sérfræðinga gerbreyta mörgum hefðbundnum lausnum í vísindum og tækni. 

Heilbrigðistækni
Tengiliður er Gissur Örlygsson

Á heilbrigðistæknisviði er unnið að rannsóknum, þróun og þjónustuverkefnum sem tengjast lækningatækjum og lífstoðefnum (biomaterials) til notkunar í vefjaverkfræði. Rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði lækningatækja, svo sem tækjabúnaðar til tannlækninga og til nota í tengslum við sjúkraþjálfun.

Sérfræðingar Nýsköpunarmiðstöðvar hafa yfir að ráða reynslu og þekkingu á öllu ferlinu frá hugmynd til hönnunar, frumgerðasmíðar og forritunar og prófunar og að fullbúnu tæki tilbúnu til fjöldaframleiðslu. Rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði lífstoðefna, sérstaklega á sviði beinígræðsluefna og efna til viðgerða á beini, verkefni er lúta að þróun á yfirborðsmeðhöndlun beinígræðlinga, verkefni sem hafa að markmiði að þróa stoðgrindur (scaffolds) fyrir vefjarækt. Sérfræðingar Nýsköpunarmiðstöðvar hafa yfir að ráða þekkingu á t.d. efnafræði og efnisfræði lífstoðefna ásamt aðgangi að margvíslegri greiningartækni og aðstöðu til þróunarvinnu.

Jarðhiti
Tengiliður er Kristján Leósson

Nýsköpunarmiðstöð Íslands vinnur rannsókna- og þróunarstarf tengt jarðhita og nýtingu hans á nokkrum vel skilgreindum sviðum. Á sviði efnistækni er unnið að verkefnum tengdu efnisvali og áraun efnis í snertingu við jarðhitagufu og vökva, á sviði efnaferla er unnið að nýtingu gastegunda úr jarðhitagufu og á sviði orkurannsókna er heildarnýting orkunnar til rannsóknar.

Tjónagreiningar og prófanir
Tengiliðir eru Aðalsteinn Arnbjörnsson og Kolbrún R. Ragnarsdóttir

Á Efnis-, líf- og orkutækni er umfangsmikil þekking og reynsla á sviði ýmis konar tjónagreininga og prófana. Þegar óhapp ber að höndum getur oft verið nauðsynlegt að fá haldgóða skýringu á því hvað fór úrskeiðis og greina á milli orsaka og afleiðinga. Slíka þekkingu má nýta til fyrirbyggjandi aðgerða eða til að skera úr um hvort einhver beri ábyrgð á bilun eða óhappi.