Gæðavottanir og umsagnir

Nýsköpunarmiðstöð Íslands vottar byggingarvörur eða veitir umsögn um þær í samræmi við ákvæði í lögum og reglugerðum, sé eftir slíku leitað. Í ákvæðunum kemur fram að byggingarvörur skuli, allt eftir atvikum, vera CE-merktar eða hafa vottun eða umsögn um að þær uppfylli kröfur byggingarreglugerðar, standist staðla og falli að verklagi og séríslenskum aðstæðum, og er þetta forsenda fyrir markaðssetningu. Húseiningar flokkast sem byggingarvörur og sérhvert einingahús skal bera vottun.

Sé ÍST EN-staðall það sem nefnt er "samhæfður" fyrir byggingarvöru skal varan bera CE-merkið eftir tiltekna dagsetningu, en merkið tryggir þó ekki að séríslenskum reglugerðarákvæðum sé fullnægt. Útgáfa vottorðs er almennt háð því að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafi með höndum samfellt eftirlit með framleiðslu vörunnar og, eftir atvikum, gerðarprófun, en öðrum kosti er aðeins gefin út umsögn.

Vottunarstjóri er Rögnvaldur S. Gíslason

Umsóknir

Þeir sem óska eftir vottun eða umsögn skulu sækja um slíkt á sérstöku eyðublaði, sem opna má hér að neðan, fylla út og skila rafrænt.

Leiðbeiningar um notkun umsóknareyðublaðsins eru að finna á Ísland.is