Einangrun byggingahluta

Við endurbyggingu og viðgerð gamalla húsa þarf oft að huga að endurnýjun einangrunar samfara breytingum. Oft er lítil eða engin varmaeinangrun þegar veggir eða þak eru rofin í eldri húsum eða þunnur korkur og vikursteinn í steinhúsunum.

Þegar hús eru endureinangruð er mikilvægt að loftræsting, rakavarnarlög og vindþéttilög séu rétt frágengin. Rangur frágangur getur haft veruleg áhrif á eiginleika einangrunarinnar og rýrt einangrunargildi hennar, orsakað rakaþéttingu í byggingarhlutum og framkallað skemmdir í aðliggjandi byggingarhlutum.

Í ritinu Varmaeinangrun húsa er ítarlega fjallað um varmaeinangrun í húsum, eiginleika einangrunarefna, hvernig koma skal fyrir einangrun og rakavarnarlögum í einstökum byggingarhlutum og útreikning á kólnunartölum og varmatapi bygginga. Þó ritið sé ætlað fagmönnum geta leikmenn öðlast aukinn skilning á eiginleikum einangrunar og frágangi hennar í ýmsum byggingarhlutum og þannig forðast mistök sem algeng eru við frágang og útfærslu einangrunar.

Í ritinu Frágangur rakavarnarlaga er fjallað um rétta hönnun þéttilaga í byggingum sem almennt er skipt í vindþéttilög og rakavarnarlög. Rakaþétting er algeng orsök skemmda í byggingum. Í ritinu er gerð grein fyrir efnisvali, uppsetningu og frágangi þéttilaga, rakaflæði og flutningur raka í gegnum byggingarhluta er skýrður jafnframt því sem bent er á góðar lausnir við hönnun þéttilaga.

Í ritinu Raki í húsum er reynt að varpa ljósi á orsakir raka og rakamyndunar í íbúðarhúsum. Rætt er almennt um raka í íbúðarhúsum, gefin eru dæmi um rétta staðsetningu á rakasperru og í ritinu er kafli um loftrakamælingar.

Rb-blöð um einangrun byggingarhluta
Rb-blöð eru notuð af fagmönnum í byggingariðnaði og húseigendum til viðmiðunar um viðhald og gerð mannvirkja.