Fúavarnir

Hugtakið "fúavarnarefni" er hér á landi að umtalsverðu marki ranglega notað um vissar gerðir þunnfljótandi lausna olíuefna, sem einkum eru seld til penslunar á timbur og fást í neytendaumbúðum í byggingar- og málningarvöruverslunum. Fólk talar oft í góðri trú um að "fúaverja", þegar lausnir þessar eru bornar á timbur. Hér er um alvarlegan misskilning að ræða, að svo miklu leyti sem átt er við raunverulega eða virka vörn gegn fúaskemmdum. Rétt er að tala um olíulausnir þessar sem viðarolíur eða olíubæs, eins og við á. Gera má ráð fyrir að yfirborðsefni af þessu eða öðru tagi almennt, veiti við venjulega notkun litla sem enga raunverulega vörn gegn fúaskemmdum, þar sem þau ná í besta falli aðeins að metta timbrið rétt í yfirborðinu. Segja má því að vegna misskilnings hafi olíubæs og aðrar viðarolíur á mjög villandi hátt oft verið kölluð "fúavarnarefni".

Til þess að tryggja sem best gegn fúa þarf viðurinn að vera gagnvarinn, en gagnvörn felst í að þrýsta eiginlegum fúavarnarefnum djúpt inn í viðinn, eða eftir atvikum í gegnum hann, í sérstökum tækjabúnaði. Fúavarnarefni eru í raun sveppaeitur. Ekki getur því talist æskilegt af umhverfisástæðum að nota gagnvarinn við nema þar sem búast má við fúaskemmdum. Sem dæmi um ofnotkun hér á landi er borðaklæðning utan á húsum, eða það sem títt er nefnt vatnsklæðning, sem talsvert virðist bera á að sé gagnvarin. Að líkindum finnast þó engin dæmi um fúaskemmdir í slíkri klæðningu, ef hún er rétt frágengin, enda þótt skemmdir af þessu tagi séu algengar víða erlendis.

RB-blöð um verndun viðar gegn fúa og fleira
Markmiðið með blöðunum er að koma á framfæri undirstöðuþekkingu, sem nota má til að bæta árangur við notkun viðar, þ.e. trjáviðar eða timburs, þar sem búast má við að fúaskemmdir geti orðið. Blöðin eru ætluð iðnaðarmönnum sem vinna við timbur og almennt eigendum mannvirkja úr timbri, sem og hönnuðum og öðrum sérfræðingum við gerð verklýsinga og við eftirlitsstörf.