Samfélagsleg nýsköpun

Nýsköpun - samfélagsleg nýsköpun og tengd mál

Eitt af meginmarkmiðum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er hvatning og stuðningur við fyrirtæki og frumkvöðla við nýsköpunarverkefni; á hugmyndastigi, í þróun eða við að koma verkefnunum á markað.  Hvatningin og stuðningurinn getur hvorutveggja legið í beinni handleiðslu og jafnvel þátttöku í verkefnunum en einnig í öflugri upplýsingagjöf.

Eftirfarandi lesning er hins vegar almennar hugleiðingar um nýsköpun og hlutverk hennar í hagkerfinu og tengingu hennar við velferð og lífsgæði samfélagsins. Við teljum að geta samfélags til nýsköpunar, það er að segja geta fyrirtækja, stofnana eða annarra opinberra aðila og einstaklingsframtakið sé grundvallaratriði til sjálfbærni og velfarnaðar.

Nýsköpun - Þekking, tækni og menning

Nýsköpun er undirstaða framþróunar á öllum sviðum mannlegs samfélags og grundvöllur nýrrar þekkingar. Maðurinn er í eðli sínu forvitin vera sem virðist hafa óslökkvandi þrá til þess að sjá, prófa og skapa eitthvað nýtt í viðleitni sinni til að bæta sig og umhverfi sitt sér og öðrum til framdráttar og hægðarauka. Án þessa þekkingarþorsta sætum við líklegast enn í myrkum helli án tengingar við umheiminn. En vegna þess hugvits sem maðurinn hefur þróað með sér til sjálfstæðrar hugsunar hefur mannkyninu tekist að skapa sér heim þekkingar og framþróunar. Maðurinn er stöðugt að uppgötva hjólið að nýju en öll þekking byggir á eldri þekkingu sem við búum að og nýtum okkur til nýsköpunar.

Tækni og vísindi ýta undir nýsköpun á nær flestum sviðum en eru ekki lengur grundvöllur né eini vettvangur nýsköpunar. Innan menningar- og þekkingarsamfélagsins á sér stað stöðug þekkingarsköpun sem síðan ýtir undir nýsköpun.

Hvað er nýsköpun?

Margur spyr sig hvað nýsköpun sé og hvernig beri að skilgreina hugtakið. Margir sjá fyrir sér nýsköpun sem fyrirbæri sem nánast eingöngu tilheyri tækni og vísindum. Eins og bent hefur verið á er nýsköpun hins vegar víðtækara hugtak en svo að eingöngu sé hægt að skilgreina það með tilliti til framþróunar í tækni og vísindum því þekkingarsköpun og nýsköpun á sér stað á öllum sviðum þekkingarsamfélagsins (e.knowledge society).

Ýmsir fræðimenn hafa gegnum tíðina leitast við að skilgreina nýsköpun. Einn þeirra fyrstu sem leituðust við að skilgreina hugtakið út frá hagfræðilegum forsendum var austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter. Honum tókst, gegnum rannsóknir sínar á áhrifum nýsköpunar á markaði kapítalísks hagkerfis, að sýna fram á að þau ferli sem opna nýja markaði, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, sem og aðra stjórnaskipulega þróun, sé hægt að skýra út frá einhvers konar stökkbreytingu í iðnaði/framleiðslu sem stöðugt veldur umbreytingum á innri stoðum efnahagskerfisins, þ.e.a.s. á þann hátt að hið gamla kerfi er stöðugt eyðilagt til þess að búa til nýtt. Hann kallaði þetta ferli skapandi eyðileggingu (e.creative destruction).

Skilgreining á nýsköpun

Nýsköpunarmiðstöð Íslands vill styðjast við skilgreiningu sem sett var fram í Óslóarhandbók OECD um nýsköpun en þar segir:"með nýsköpun er átt við innleiðingu nýrrar eða verulega endurbættrar afurðar (vöru eða þjónustu) eða aðferðar við markaðssetningu eða nýs skipulags í viðskiptum, á vinnustað eða í ytri samskiptum".

Þessi skilgreining nær yfir ýmsa möguleika á sértækri nýsköpun. Í Óslóarhandbókinni er greint á milli fjögurra megintegunda nýsköpunar sem er lýst hér að neðan:

Vara

"Þegar vara eða þjónusta, sem er ný eða verulega endurbætt hvað snertir einkenni eða fyrirhugaða notkun er kynnt á markað. Undir það falla verulegar endurbætur á tæknilýsingu, íhlutum og efnum að meðtöldum hugbúnaði, aðgengileika og öðrum hagnýtum einkennum."

Aðferðir

"Innleiðingu nýrrar eða verulega endurbættrar aðferðar við framleiðslu eða dreifingu. Undir það falla verulegar breytingar á aðferðum, búnaði og/eða hugbúnaði."

Markaður

"Innleiðingu nýrrar aðferðar við markaðssetningu sem felur í sér verulegar breytingar á vöruhönnun eða umbúðum, óbeinum auglýsingum, vörukynningu eða verðlagningu."

Skipulag

"Innleiðingu nýrrar skipulagsaðferðar í viðskiptum fyrirtækis, skipulagi á vinnustað eða í ytri samskiptum."

Í Óslóarhandbókinni er talað um þrenns konar nýjungar:

 • Nýtt í fyrirtækinu
 • Nýtt á markaðnum
 • Nýtt í heiminum.

Eins og bent hefur verið á eru margar útgáfur af hugtakinu til. Ein sú einfaldasta er skilgreining Goldman Sacks: "nýsköpun er fersk og virðisaukandi hugsun". Mikið er til í þessari framsetningu en tvö lykilatriði vantar í skilgreininguna þannig að árangur náist; nokkur orð um framkvæmd og innleiðingu.

Samfélagsleg nýsköpun

Bent hefur verið á ýmsa veikleika í skilgreiningu OECD eins og hún er sett fram og er ástæðan einna helst sú að í  þessu sem öðru á sér stað þróun. Einn angi þessarar þróunar er þróun í breyttum gildum samfélagsins. Þannig hafa sumir bent á að til viðbótar skilgreiningunni sem sett var fram í Óslóarhandbókinni ætti að nefna  samfélagsleggildi. Meðal annars úr þessum jarðvegi sprettur hugtakið samfélagsleg nýsköpun (e. Social innovation. Samfélagsleg nýsköpun hefur eins og önnur hugtök fengið ýmsar skilgreiningar . Við teljum hugtakið hafa víðtæka merkingu,og skilgreinum samfélagslega nýsköpun sem hugmyndir og áform sem uppfylla samfélagslegar þarfir af öllu tagi og leiða til velferðar og bættra lífskjara í samfélaginu.

Samfélagsleg nýsköpun er ekki frábrugðin hefðbundinni nýsköpun nema að því leyti að hún kallar á tilteknar forsendur og hugmyndir um heiðarleika, viðskiptasiðferði, sjálfbærni og réttlæti.

Hér er um að ræða regnhlífarhugtak yfir áherslur sem eru ofarlega í huga almennings, stjórnenda og stjórnmálamanna. Dæmi um slíkar áherslur eru:

 • Umhverfismál:Meðferð og nýting auðlinda á sjálfbæran hátt. Lausnir á sviði loftslagsmála og orkuöflunar.
 • Náttúruvernd:Verndun náttúruperla og stjórnun á nýtingu þeirra. Rannsóknir á vistkerfum og snjallar hugmyndir til þekkingar og nýtingar.
 • Heiðarleiki og réttlæti:Aukið siðferði í viðskiptum og félagslegt réttlæti. Nýjar hugmyndir á sviði stjórnunar og lausnir sem leiða af sér meira félagslegt jafnvægi.
 • Efnahagslegt jafnvægi:Sjálfbært hagkerfi þar sem reynt er að lágmarka óvissuþætti.
 • Jafnræði:Þar sem lögð er áhersla á jafnrétti einstakra þjóðfélagshópa þannig að hver einstaklingur finni sinn farveg fyrir hugmyndasköpun og atvinnuþátttöku til jafns við aðra.

Drifkraftar breytinga

Breytingar á samfélagi eru oftar en ekki drifnar áfram af metnaðarfullum og áhugasömum einstaklingum, nýrri þekkingu og nýjum lausnum en einnig af hreyfiöflum eins og til dæmis umhverfissinnum. Markaðsþróun og hvatning fyrirtækja og stofnana til nýrra hluta hefur einnig mikil áhrif.

Samfélagsleg nýsköpun hefur einnig haft veruleg áhrif á það hvernig stuðningur við þróunarríki hefur þróast. Meðal þekktra frumkvöðla á þessu sviði má nefna Mohammed Yunus frá Bangladesh, stofnanda Grameen Bank, en þar eiga smálánin upptök sín, sem stofnuð voru til stuðnings frumkvöðlum í þróunarríkjum í Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku.  Annar frumkvöðull á sviðinu er  Stephen Goldsmith, fyrrverandi borgarstjóri Indianapolis, sem virkjaði einkageirann í því að veita ýmsum borgum tiltekna þjónustu.

Áhugi á hugtakinu fer víða

Hugtakið um samfélagslega nýsköpun er nánast óþekkt á Íslandi en á sama tíma er umfang slíkrar nýsköpunar hérlendis umtalsvert og í raun með því mesta sem gerist í heiminum. Samfélagsleg nýsköpun nær til allra sviða samfélagsins á einn eða annan hátt. Hér eru nokkur dæmi:

 • Hönnun- Einn af grundvallarþáttum í hönnun vara í dag er endurnýting vara og hráefna við vinnslu þeirra. Veruleg gróska er jafnframt í hönnun vara og mannvirkja sem jafna stöðu einstaka hópa samfélagsins.
 • Tækni- Með framþróun, til dæmis í ör- og upplýsingatækni, skapast veruleg tækifæri til þróunar á snjöllum lausnum sem auka lífsgæði samfélagsins og veita fyrirtækjum og einstaklingum samkeppnisforskot á sjálfbæran hátt.
 • Frumkvöðlar og fyrirtæki- Sprottinn eru upp hugtök eins og samfélagslegir frumkvöðlar og fyrirtæki sem hafa það að meginmarkmiði að vinna að samfélagslegum lausnum þar sem hagnaðarmarkmiðið er til staðar en í öðru sæti. Þar vegur samfélagslegur ávinningur meira.
 • Stjórnun -Nýjungar á sviði stjórnunar hafa gjörbreytt fyrirtækjarekstri undanfarin ár. Við höfum farið í gegnum tímabil sjálfvirknivæðingar, gæðastjórnunar og mannauðsstjórnunar svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta orðin hefðbundin viðhorf í vel reknum fyrirtækjum og stofnunum. Samfélagsleg ábyrgð og samfélagsleg hugsun þarf að komast á þennan stað líka og verða þannig eðlilegur hluti af rekstri fyrirtækja.Þriðji geirinn-: Samfélagsleg nýsköpun nær einnig yfir stofnanir og félagasamtök sem vinna eingöngu með samfélagsleg markmið að leiðarljósi. Samfélagið í heild nýtur góðs af  starfi þessara stofnana og félagasamtaka.
 • Opinber stjórnsýsla- Ný viðhorf og samfélagsleg gildi hafa haft veruleg áhrif á innviði og áherslur í opinberri stjórnsýslu og þá ekki síst kröfur um gegnsæi og aukið jafnræði á öllum sviðum.
 • Þróun þétt- og strjálbýlis- Nýjar kröfur eru gerðar til skipulags byggða, innviða samfélaga og samgangna þar sem grænkun er höfð að leiðarljósi.

Aðeins meiri saga - Samfélagsleg nýsköpun

Samfélagsleg nýsköpun hefur verið tekin fyrir í skrifum hugsuða á borð við Peter Drucker og Michael Young (stofnandi Open University og fjölda annarra stofnana) á sjöunda áratug síðustu aldar. Hugtakið kom einnig fyrir í verkum franskra höfunda á áttunda áratugnum, t.d. Pierre Rosanvallon, Jacques Fournier og Jacques Attali. Hins vegar mótuðust viðfangsefni og hugtök samfélagslegrar nýsköpunar mun fyrr, til dæmis talaði Benjamin Franklin um litlar breytingar innan stofnana í samfélaginu sem gætu stuðlað að lausn hversdagslegra vandamála. Margir róttækir endurbótasinnar á 19. öld, eins og Robert Owen, stofnandi samvinnuhreyfingarinnar, stuðluðu að nýsköpun innan þriðja geirans og allir helstu félagsfræðingarnir, þar á meðal Karl Marx, Max Weber og Émile Durkheim, beindu athyglinni að víðtækari ferlum samfélagslegra breytinga. Yfirgripsmeiri kenningar um samfélagsleganýsköpun urðu til á 20. öldinni.

Samfélagslegir frumkvöðlar - Gildi og mikilvægi (Árdís Ármannsdóttir)

Athyglisverðar heimildir og vefsíður

 • Chambon, J.-L, David, A. and Devevey, J.-M. (1982). Les Innovations Sociales, Presses Universitaires de France: Paris.
 • Goldsmith, Stephen (2010, March). The Power of Social Innovation: How Civic Entrepreneurs Ignite Community Networks for Good. Jossey-Bass.
 • Howaldt, J./ Schwarz, M. (2010) "Social Innovation: Concepts, research fields and international trends". IMO international monitoring.
 • Innovation in the Public Sector an overview of thinking about innovation in the public sector. (2003). Published by the UK government's Strategy Unit.
 • Karl Friðriksson. (2001). Samfélagsstefna. Iðntæknistofnun Íslands: Reykjavík.
 • Let's hear those ideas. (2010). The Economist. 08,12. Retrieved December, 2010.
 • Mulgan Geoff, Tucker Simon and Sanders Ben. (2007). Social Innovation. What it is, why it matters and how it can be accelerated. University og Oxford.
 • Mumford, M.D. (2002). Social Innovation: Ten Cases from Benjamin Franklin, Creativity Research Journal 14,2:253-266.
 • Nambisan, S. (2009, summer). "Platforms for Collaboration", Stanford Social Innovation Review.
 • graduateinstitute.ch/executive/