Malbik og jarðtækni

Jarðtækni er viðamikið svið í rannsóknum og prófunum á Rannsóknastofu byggingaðnaðarins.

Með tilkomu nýrra rannsóknatækja var sérstakt malbikunarsetur sett á laggirnar til að mæla aflögun og slit á malbiki. Setrið hefur yfir að ráða tækjabúnaði sem uppfyllir Evrópustaðla um prófanir og framleiðslu malbiks. 

Malbikunarsetur

Með tilkomu nýrra rannsóknatækja var sérstakt malbikunarsetur sett á laggirnar við Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Vegagerðina og framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar til að mæla aflögun og slit á malbiki.   Setrið hefur yfir að ráða tækjabúnaði sem uppfyllir Evrópustaðla um prófanir og framleiðslu malbiks og opnar möguleika á að íslenskt malbik verði endurhannað með það að markmiði að auka enn við endingu þess.

Mikil rannsókna- og þróunarvinna á sér stað innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við endurhönnun malbiks til notkunar við íslenskar aðstæður. Tækin sem um ræðir eru malbiksþjappa til að útbúa sýni, hjólfara­tæki til að mæla skrið í malbiki í sumarhitum og slitþols­tæki sem mælir þol malbiks gagnvart nagladekkjasliti að vetri til. Þar er helst litið til þess að minnka hjólfaramyndun í malbiki, bæði vegna nagladekkja á vetrum og skriðs í malbiki af völdum þungra bíla á heitum sumardögum.  Ýmsir þættir sem ráða gæðum og endingu malbiks eru kannaðir, svo sem steinefnagerð, stærðardreifing, fínefnamagn og gæði, bikgerð, bik­magn, holrýmd, íaukar, hitastig blöndu og fleira. Sérstaklega er vert að nefna rannsóknir á áhrifum íblöndunar fjölliðu­íauka (polymers) á slit- og skriðeiginleika malbiks, en fyrstu niðurstöður benda til að full ástæða sé til að halda áfram rannsóknum og þróun slíkra malbiksgerða hér­lendis .

Rb á Nýsköpunarmiðstöð Íslands er með aðstöðu til að vera í broddi fylkingar á sviði malbiksrannsókna.


Björn Hjartarson
Björn Hjartarson
Deildarstjóri