Allar umsóknir og stuðningsverkefni á einum stað. Upplýsingar um styrki.
Malbik og jarðtækni
Jarðtækni er viðamikið svið í rannsóknum og prófunum á Rannsóknastofu byggingaðnaðarins.
Með tilkomu nýrra rannsóknatækja var sérstakt malbikunarsetur sett á laggirnar til að mæla aflögun og slit á malbiki. Setrið hefur yfir að ráða tækjabúnaði sem uppfyllir Evrópustaðla um prófanir og framleiðslu malbiks.
Malbikunarsetur
Með tilkomu nýrra rannsóknatækja var sérstakt malbikunarsetur sett á laggirnar við Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Vegagerðina og framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar til að mæla aflögun og slit á malbiki. Setrið hefur yfir að ráða tækjabúnaði sem uppfyllir Evrópustaðla um prófanir og framleiðslu malbiks og opnar möguleika á að íslenskt malbik verði endurhannað með það að markmiði að auka enn við endingu þess.
Mikil rannsókna- og þróunarvinna á sér stað innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við endurhönnun malbiks til notkunar við íslenskar aðstæður. Tækin sem um ræðir eru malbiksþjappa til að útbúa sýni, hjólfaratæki til að mæla skrið í malbiki í sumarhitum og slitþolstæki sem mælir þol malbiks gagnvart nagladekkjasliti að vetri til. Þar er helst litið til þess að minnka hjólfaramyndun í malbiki, bæði vegna nagladekkja á vetrum og skriðs í malbiki af völdum þungra bíla á heitum sumardögum. Ýmsir þættir sem ráða gæðum og endingu malbiks eru kannaðir, svo sem steinefnagerð, stærðardreifing, fínefnamagn og gæði, bikgerð, bikmagn, holrýmd, íaukar, hitastig blöndu og fleira. Sérstaklega er vert að nefna rannsóknir á áhrifum íblöndunar fjölliðuíauka (polymers) á slit- og skriðeiginleika malbiks, en fyrstu niðurstöður benda til að full ástæða sé til að halda áfram rannsóknum og þróun slíkra malbiksgerða hérlendis .
Rb á Nýsköpunarmiðstöð Íslands er með aðstöðu til að vera í broddi fylkingar á sviði malbiksrannsókna.