Steinsteypunefnd

Steinsteypunefnd var sett á fót árið 1967 af iðnaðarráðuneytinu að frumkvæði Haralds Ásgeirssonar, forstjóra Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Verkefni nefndarinnar var að vinna að rannsóknum sem hindrað gætu grotnun í steinsteypu.

Kveikjan að stofnuninni var að svonefndar alkalískemmdir í steinsteypu höfðu verið uppgötvaðar í Bandaríkjunum. Rannsóknir Haralds sýndu að möguleiki á slíkum skemmdum væri einnig á Íslandi.

Nefndin fjármagnaði miklar rannsóknir á sviði alkalívirkni í steinsteypu, en það var ekki fyrr en árið 1979 að sannað var að um alvarlegan vanda var að ræða á Íslandi. Vegna rannsóknanna var unnt að gera ráðstafanir gegn slíkum skemmdum strax og hafa ekki fundist alkalískemmdir í húsum síðan þá.

Steinsteypunefnd hefur árlega staðið að 5 - 6 rannsóknaverkefnum. Á seinni árum hefur rannsóknasviðið verið breikkað þannig að það lýtur nú almennt að þróun og framförum í steypuiðnaði.

Þegar alkalískemmdir uppgötvuðust gengu helstu framleiðendur steypu og steypuefna á höfuðborgarsvæðinu einnig í nefndina en það voru: Steypustöðvarnar B.M. Vallá og Steypustöðin og fylliefnaframleiðandinn Björgun. 


Saga steinsteypu­nefndar

Þó að steypuskemmdir af völdum alkalíþenslu hefðu óheppileg áhrif á ímynd steinsteypu hérlendis, eins og fyrr er getið, þá leiddu þær eitt gott af sér en það var tilkoma Steinsteypunefndar.

Fyrstu mælingar Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins á alkalívirkni íslenskra steypuefna frá árinu 1962 svo og vitneskjan um hátt alkalímagn í íslenska sementinu urðu til þess að Haraldur Ásgeirsson, forstjóri stofnunarinnar, lagði hart að byggingaryfirvöldum að skoða alvarlega þá hættu sem leynst gæti í íslenskri steypugerð vegna alkalívirkni. Benti hann á þessa hættu m.a. í útvarpserindi 1966 og vakti það þá þegar mikla athygli. Þann 26. janúar 1967 skipaði iðnaðarráðherra sérstaka nefnd til að fjalla um hugsanleg vandamál varðandi þessa hættu eða eins og stóð í erindisbréfi fyrir nefndina: "gera tillögur um með hvaða ráðum unnt sé að koma í veg fyrir þenslu og þar af leiðandi grotnun í steinsteypu hérlendis".

Í nefndina voru skipaðir:

  • Haraldur Ásgeirsson, forstjóri RB, formaður
  • Aðalsteinn Júlíusson, Vita- og hafnamálastjóri
  • Árni Snævarr, verkfræðingur hjá Almenna byggingafélaginu
  • Grímur Bjarnason, formaður Meistarasambands byggingarmanna
  • Gústaf Pálsson Borgarverkfræðingur
  • dr. Jón Vestdal, forstjóri Sementsverksmiðju ríkisins
  • Sigurður Jóhannsson Vegamálastjóri

 

Alkalírannsóknir á Íslandi hafa á síðustu árum færst að hluta til frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Steinsteypunefnd yfir til Verkfræðistofa. Aðstæður á steinsteypumarkaði nú eru orðnar flóknari en áður sérstaklega þar sem fleiri sementstegundir eru nú á markaði. Nú er rannsóknunum mjög beint að nýjum og betri rannsóknaaðferðum. Stórt evrópskt samvinnuverkefni er í gangi sem unnið er hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og verkfræðistofunum Hönnun hf. og Línuhönnun hf. Meginmarkmið þessa verkefnis er að leggja grunn að reglum eða þjóðarskjali við nýja Evrópustaðla um alkalívirkni. Verkfræðistofan Hönnun sér um verkefnisstjórnunina en RANNÍS, Íbúðalánasjóður, Steinsteypunefnd, Landsvirkjun, RARIK, Björgun, Steypustöðin, Loftorka og Aalborg Portland á Íslandi styrkja verkefnið. Dr. Börge Johannes Wigum hjá Hönnun er verkefnisstjóri. 

 


Rannsóknir á steinsteypu

Rannsóknir á sviði steinsteypu er stór þáttur í starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Starfsemi steinsteypudeildar má skipta í eftirtalda meginþætti:

  • Rannsókna- og þróunarverkefni
  • Prófanaþjónustu
  • Ráðgjöf varðandi endingu, viðhald, viðgerðir og gæðaeftirlit. 

Forstöðumaður deildarinnar er Próf. Ólafur H. Wallevik, sem er jafnframt forstöðumaður grunnrannsókna á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.