Ársrit klasa 2019 komið út

Út er komið Ársrit klasa fyrir árið 2019. Klasasetur Íslands gefur ársritið út í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Ritstjóri klasaritsins er Karl Friðriksson og umsjónarmaður er Hannes Ottósson. 

Ritinu er ætlað að koma á framfæri þekkingu og fróðleik um klasa, stjórnun og rekstur þeirra og er vettvangur fræðigreina og rannsókna er tengjast sviðinu. Jafnframt er í ritinu gerð grein fyrir þróun klasa á alþjóðavettvangi og þjónustu sem íslenskir klasar geta nýtt sér í starfsemi sinni. 


Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ritar formála að klasaritinu og leggur þar áherslu á að fræðsla og miðlun þekkingar á sviði klasamála eigi sinn sess í nýsköpunarstefnu stjórnvalda og ítrekar ráðherra mikilvægi Klasaseturs Íslands í því samhengi. Einnig fylgir forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Sigríður Ingvarsdóttir,  ritinu úr hlaði með nokkrum orðum. 

Í Klasaritinu 2019 er meðal annars fjallað um tækifæri til öflugrar nýsköpunar á sviði heilbrigðis- og líftækni. Birt er samtal við forystumenn um stofnun heilbrigðisklasa, þá Þorkel Sigurlaugsson viðskiptafræðing og Hans Guttorm Þormar líffræðing, sem og verkefnisstjóra klasamála hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Hannes Ottósson. Grein er í ritinu um samstarf og samnýtingu í þágu lífvísinda og er þar rætt við forystufólk Lífvísindaseturs Íslands, prófessorana Þórarin Guðjónsson og Eirík Steingrímsson, og Sigríði Klöru Böðvarsdóttur forstöðumann.


Viðtal er í ritinu við Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, fyrsta íslenska stjórnarmanninn í TCI en Ásta hefur verið klasastjóri Íslenska ferðaklasans frá byrjun árs 2016. Af öðrum greinum má nefna Hugleiðingar um samtal og samvinnu hönnuða og vísinda í samtímanum eftir Garðar Eyjólfsson, grein eftir Karl Guðmundsson á Íslandsstofu sem leggur áherslu á verðmætasköpun klasa og rætt er við Tjörva Bjarnason, sviðsstjóra hjá Bændasamtökunum og stjórnarmann í Landbúnaðarklasanum um nýsköpun og samvinnu í landbúnaði. 


Að vanda er nokkuð myndarlegt fræðiefni í klasaritinu frá Háskóla Íslands en að þessu sinni fjalla þau Kristín Sverrisdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson um lokaverkefni Kristínar í grein með heitinu „Nálgun að ytri greiningu“ sem fjallar um framlag Porters til greiningar á samkeppnishæfni auk þess sem Runólfur Smári setur sérstaklega fram spurningar um stefnu og stefnumótun fyrirtækja. Hulda Guðmunda Óskarsdóttir, doktorsnemi við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands birtir þar að auki grein um Lífklasa frá sjónarhóli fræðanna.
Fjölmargt annað er í ritinu svo sem greinar um áhugaverða klasaþróun í Belgíu, sérstaklega á Flandri, Fjölnýtingarklasa á Grundartanga, auk þess sem fjallað er um heilbrigðistækni og fjárfestingar með spjalli við þær Heklu Arnardóttur og Jenný Ruth Hrafnsdóttur frá Crowberry Capital.

Að Klasasetri Íslands standa: Háskóli Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri. Ritinu er ætlað að koma á framfæri þekkingu og fróðleik um klasa, stjórnun og rekstur þeirra. Einnig er það von aðstandenda að ritið verði vettvangur fræðigreina og rannsókna er tengjast sviðinu. Jafnframt er í ritinu gerð grein fyrir þróun klasa á alþjóðavettvangi og þjónustu sem íslenskir klasar geta nýtt sér í starfsemi sinni.

 

Hér má nálgast Ársrit klasa 2019 í flettibókarformi.

 

Teymin átta ásamt mentorum á lokahófi þann 28.nóvember

Lokahóf Snjallræðis 2019

Lokahóf Snjallræði / Startup Social fór fram í borgarstjórnarsal ráðhúss Reykjavíkur 28. nóvember. Teymin átta sem hafa verið að vinna að verkefnum sínum siðustu átta vikur kynntu verkefnin sin.
Skýrsla WEF um jafnrétti

Ísland er í fyrsta sæti meðal 153 þjóðríkja á sviði jafnréttismála

Ísland vermir enn fyrsta sætið í mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins um stöðu jafnréttismála meðal 153 þjóðríkja. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er samstarfsaðili ráðsins hér á landi.