Frumkvæði

Lokað er fyrir umsóknir í úrræðið að svo stöddu. Umsækjendum er bent á að hafa samband við Vinnumálastofnun ef einhverjar spurningar vakna.

 

Frumkvæði er úrræði  Vinnumálastofnunar sem unnið er í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.  Megintilgangur verkefnisins er að styðja fólk sem þiggur atvinnuleysisbætur og er í atvinnuleit við að búa sér til eigin störf.  Í úrræðinu Frumkvæði eiga atvinnuleitendur kost á fræðslu og leiðsögn til að kanna möguleika og tækifæri á að búa til eigið starf.  Þátttakendur kanna þörf fyrir væntanlega þjónustu eða vörur sínar á markaði og gera viðskiptaáætlun um viðkomandi verkefni til að meta hvort verkefnið er raunhæft og hvað þurfi til svo að unnt sé að búa til starf.

Forsendur atvinnuleitanda fyrir þátttöku í úrræðinu Frumkvæði

  • Að þátttakandi sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og þiggi nú þegar atvinnuleysisbætur. Einnig þarf þátttakandi að eiga a.m.k. sex mánuði eftir af bótatímabili sínu.

  • Að þátttakandi skuldbindi sig til að vinna í fullu starfi að eigin frumkvöðlastarfi  í samræmi við umsókn, hvort sem um er að ræða nýsköpunar- eða þróunarverkefni, framleiðslu eða þjónustu þannig að um fullnægjandi ástundun sé að ræða.

  • Að þátttakandi sé að vinna að nýrri viðskiptahugmynd. Þá má þátttakandi ekki hafa stofnað kennitölu utan um reksturinn, hafið störf í þágu þess eða verið áður á launagreiðendaskrá hjá viðkomandi fyrirtæki.
  • Að þátttakandi taki þátt í  fræðslu og vinnusmiðjum á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á samningstímanum og þiggi leiðsögn hjá starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

  • Að þátttakandi skili inn til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verk- og tímaáætlun í byrjun tímabils eftir viðtal með verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar.

  • Að þátttakandi sé í reglulegu sambandi við verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar á meðan unnið er að eigin viðskiptahugmynd, samkvæmt verk- og tímaáætlun, en þarf ekki að stunda virka atvinnuleit á meðan.

  • Að þátttakandi skili viðskiptaáætlun eða sambærilegum gögnum til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands innan þriggja mánaða frá því að úrræði hefst. 
  • Að þátttakandi sé fær um að taka þátt í fræðslu og námskeiðahaldi á íslensku og skrifa viðskiptaáætlun á íslensku eða ensku.