Metskráning í norrænt heilsuhakkaþon

Gætu upplýsingar um tónlistarhlustun haft áhrif á heilsufar? 

Mörg hundruð manns vilja taka þátt í heilsuhakkaþoni.

Metskráning er frá teymum á ölllum Norðurlöndum í samnorrænt heilsuhakkaþon sem haldið verður í Reykjavík 22. – 24. mars. Þar munu teymi áhugasamra einstaklinga úr öllum áttum keppast við nýta gögn og gagnasöfn um heilsu og heilsufar til þess að þróa lausnir sem miða að því að auka lífsgæði notenda.  Samskonar hakkaþon verður haldið viku síðar í Helsinki í Finnlandi. Nú, þegar 2-3 vikur eru enn til stefnu, hafa 260 einstaklingar og 147 teymi sent inn umsóknir um þátttöku í hakkaþoninu. Af þessum fjölda munu um 70 manns fá boð um að taka þátt í keppninni hérlendis.   

Gögnin sem unnið er með eru alls ekki heilsufarsupplýsingar eingöngu heldur mjög fjölbreyttar persónuupplýsingar úr ólíklegustu áttum. Þannig geta keppendur hannað lausnir sem nýta sér fjárhagsgögn viðkomandi, upplýsingar um notkun á Spotify tónlistarveitunni, skrefamæli úr símanum, vökustundir á sólarhring, notkun á samfélagsmiðlum eða hvaða upplýsingar aðrar sem geta á einhvern hátt haft áhrif á líkamlega, andlega eða félagslega heilsu. 

Forysta Norðurlanda í heilsufarslausnum

Íslenska fyrirtækið Dattaca Labs sér um hakkaþonin í Reykjavík og Helsinki. Hakkaþonin eru samnorræn og styrkt af Nordic Innovation sem Ísland á aðild að. Nordic Innovation hefur það sem markmið að Norðurlöndin leiði þróun á notendamiðuðum lausnum í heilsu sem byggjast á hagnýtingu á fjölbreyttum gögnum. Stór gagnasöfn hafa fengist í gegnum Digi.me kerfið sem hannað er til þess að einstaklingar geti veitt þriðja aðila traustan og öruggan aðgang að sínum persónuupplýsingum án þess að gefa frá sér forræði persónugagnanna. Einnig hefur embætti landlæknis á Íslandi verið framsýnt og fúst til samvinnu enda mikið í húfi fyrir framtíðarlausnir í heilsufarsmálum. Markmið hakkaþonsins er að til verði lausnir sem auka lífsgæði notenda og möguleiki er á að þróa lengra að hakkaþoninu loknu. Í hakkaþoninu er eingöngu unnið með nafnlaus gögn og því engar persónugreinanlegar upplýsingar notaðar. 

Tíu þúsund evrur í vinning

Vinningslið aðalkeppninnar í Reykjavík og Helsinki fá 10 þúsund evrur í vinning á hvort lið. Hérlendis munu Arion banki og félagsmálaráðuneytið einnig veita sérstök verðlaun fyrir áskoranir sem kynntar verða sérstaklega. Teymin sem keppa munu vinna sleitulaust helgina 22. – 24. mars í Háskólanum í Reykjavík. Á sunnudeginum getur almenningur komið í HR og hlýtt á kynningar teymanna á sínum lausnum. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir bestu lausnirnar. 

Allar nánari upplýsingar er að finna á vefslóðinni nordichealthhackathon.com/

 

Nýsköpunarmót Álklasans í HÍ 19. mars

Nýsköpunarmót Álklasans í HÍ 19. mars

Nýsköpunarmót Álklasans verður haldið þriðjudaginn 19. mars frá klukkan. 14:00 -17:00 í hátíðarsalnum í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Að mótinu standa Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samál og Álklasinn.