Ný bók fyrir framhaldsskóla um nýsköpun

Út er komin samnorræn kennslubók fyrir framhaldsskóla um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á Norðurslóðum. Til viðbótar við kennsluefnið sjálft, eru dæmisögur ungra frumkvöðla frá löndunum fjórum sem lýsa nokkuð vel þeim fjölbreyttu áskorunum sem þessir frumkvöðlar glímdu við – og ekki síst, hvernig þeir náðu að leysa þær. 

Norræna Atlantssamstarfið (NORA) eru samtök fjögurra landa þ.e. Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs en sagan, menningarleg bönd, landfræðileg lega og önnur sameiginleg einkenni tengja þessi lönd saman.

2018 var árleg ráðstefna NORA haldin í Nuuk á Grænlandi og var eitt viðfangsefna hennar, frumkvöðla- menntun á norðurslóðum. Þar kom fram að mikil þörf er á að efla nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á svæðinu en einnig kom fram að ekki væri til samnorræn kennslubók um þetta efni og hvað þá með áherslu á NORA svæðið. 

Í bókinni er farið grunnt yfir marga þá þætti sem tengjast frumkvöðlastarfsemi, allt frá því hvernig hugmyndir geta orðið til, til viðskiptaáætlunar. Mælt er með því að kennarar sem nota þessa bók, leyfi nemendum að spreyta sig á raun verkefnum, þ.e. að leyfa þeim að koma fram með eigin viðskiptahugmynd og hrinda henni í framkvæmd, að einhverju eða öllu leiti – þannig næst besti árangurinn við að kenna frumkvöðlafræði.

Bókin er aðgengileg hér á vefnum ásamt margkonar öðru kennslu- og kynningarefni sem hentar ungu fólki og reyndar öllum þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í nýsköpun og frumkvöðlastarfi. 

Efni þessara bókar er að miklu leiti byggt upp af kennsluefni sem þróað var í verkefninu „RYE Connect (Rural Youth Entrepreneurship)“ en það var 3 ára verkefni, undir stjórn Christians Wennecke, sem hlaut styrk úr Norðurslóðaáætluninni (NPA). Uppbygging bókarinnar styðst við flokkunarkerfi „The Danish Foundation for Entrepreneurship“, sem aðal þekkingarmiðstöð og þungamiðjan í þróun frumkvöðlakennsluefnis, á öllum skólastigum í Danmörku. Grunnur bókarinnar hefur til hliðsjónar hið svokallaða KIE módel en það stendur fyrir og tengir saman Kreativitet (sköpun), Innovation (nýsköpun) og Entreprenørskab (frumkvöðlastarf). Einnig er stór þáttur bókarinnar hin svokallaða Framkvæmdaraðferð (e. effectuation) sem gengur út á það að prófa sig áfram með þeim auðlindum sem eru til staðar, að vinna með öðrum, en jafnframt að geta haft áhrif á framtíðina og skapað eigin tækifæri. Bókin er töluvert aðlöguð að íslenskum aðstæðum og þeim skilgreiningum og náms- og stuðningsefni sem notað er hér á landi.

Er það von okkar að þessi bók verði kærkomin viðbót fyrir þá kennara,nemendur og aðra sem vilja kynnast frumkvöðlafræðum og starfsemi.

Sérstakar og góðar þakkir fær aðalritstjóri bókarinnar og samstarfsmaður á Grænlandi, snillingurinn hann Christian Wennecke hjá Innovation Greenland, fyrir alla þá miklu vinnu sem hann lagði í bókina - án hans hefði þessi bók einfaldlega aldrei orðið að veruleika.

Covid-skýrsla í stað samkeppnisvísitölu frá Alþjóðaefnahagsráðinu í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð …

Covid-skýrsla í stað samkeppnisvísitölu frá Alþjóðaefnahagsráðinu í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) gefur ekki út hefðbundna skýrslu eins og það hefur gert frá árinu 1979, um samkeppnishæfni þjóða, heldur sérstaka skýrslu um alþjóðlega samkeppnishæfni vegna Covid.
Frumkvöðlasetur í 20 ár - rit eftir Runólf Smára

Frumkvöðlasetur í 20 ár - rit eftir Runólf Smára

Út er komið ritið Frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eftir Runólf Smára Steinþórsson með viðtölum við frumkvöðla og aðstandendur setranna.