Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt til Háskóla Íslands

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóli Íslands hafa gert með sér samkomulag um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt sem hingað til hefur verið sinnt hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands flytjist til Háskóla Íslands. 

Eyjólfur Brynjar Eyjólfsson, starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar, hefur haft veg og vanda af verkefnum sem tengjast nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í skólum landsins, þ.á.m. Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Samsýningu framhaldsskólanna,  keppninni Ungir frumkvöðlar, gerð náms- og stuðningsefnis fyrir nemendur og kennara á grunn- og framhaldsskólastigi, auk handleiðslu fyrir kennara. Þessi verkefni hafa mörg verið unnin í góðu samstarfi með Mennta- og menningarmálaráðuneytið. 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun hætta starfsemi þann 1. júlí nk. en áhersla er lögð á að tryggja áframhaldandi farveg fyrir ofangreind verkefni og hefur því verið undirrituð viljayfirlýsing um að flytja þessi verkefni til Menntavísindasviðs Háskóla Íslands ásamt einu stöðugildi. Markmið flutningsins er áframhaldandi stuðningur við nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í leik-, grunn- og framhaldsskólum og stuðningur við starfsþróun kennara í nýsköpunar og frumkvöðlamennt. Ráðuneytin geri með sér samning til þriggja ára um skiptingu kostnaðar  vegna þessara verkefna. 

Þau verkefni sem flytjast milli NMÍ og Menntavísindasviðs skv. þessari viljayfirlýsingu eru:  

  • Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 
  • Samsýning framhaldsskólanna 
  • Ungir frumkvöðlar – nýsköpunarkeppni í framhaldsskólum, í samstarfi við Junior Achievement og fleiri aðila
  • Gerð námsefnis fyrir nemendur og kennara á sviði nýsköpunar og frumkvöðlamenntar

Til að stuðla að farsælum flutningi og framhaldi þessara verkefna munu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið gera samning við Háskóla Íslands og mun Menntavísindasvið fara með framkvæmd samningsins. Samningurinn mun ná yfir tímabilið maí 2021 til apríl 2023 og  felur í sér eftirfarandi framlög með fyrirvara um samþykki í fjármálaáætlun. 

Aðilar að viljayfirlýsingu þessari gera ráð fyrir að undirbúningur hefjist nú þegar í samræmi við ofangreint og flutningur starfsmanns raungerist fyrir lok apríl 2021. Á tímabilinu ræða aðilar um framhald verkefnisins og kostun þess til framtíðar.