Zetan - hjólastólasessa sigrar í nýsköpunarhraðli

Teymi Tækniskólans: Katrín Eva Hafsteinsdóttir,  Hrafnhildur Ósk Ásmundsdóttir, Róbert Orri Gunnarss…
Teymi Tækniskólans: Katrín Eva Hafsteinsdóttir, Hrafnhildur Ósk Ásmundsdóttir, Róbert Orri Gunnarsson og Svavar Már Harðarson.

Lið frá Tækniskólanum bar sigur úr býtum í nýsköpunarhraðlinum MeMa 2018 með uppblásanlegri sessa fyrir hjólastólanotendur sem kallast Zetan.  Nýsköpunarkeppnin MeMa eða Menntamaskína var haldin í fyrsta sinn í ár. Að hraðlinum standa framhaldsskólarnir, Fab Lab Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hver skóli sendi inn hugmynd sem á að leysa áskorun á sviði heilsu og velferðar.  

Tækniskólinn bar sigur úr býtum með Zetuna, sem er sessa sem er forrituð til að geta breytt lögun sinni. Þannig getur sessan aukið blóðflæði til líkamans hjá þeim sem sitja lengi og minkar þannig hættu á legusárum. Teymi Tækniskólans hlaut eina milljón króna í þróunarstyrk frá MND-félaginu og mun auk þess njóta leiðsagnar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í næstu skrefum.

Nýsköpunarhraðallinn MeMa notast við útfærslu af hönnunarsprettum þar sem stuðst er við lausnaleit og innsýn notenda til að fá góðar hugmyndir. Auk þess er stuðst við tæknispretti þar sem hugmynd er útfærð, prófuð með notendum og þróuð áfram og fengu teymin aðgang að Fab Lab Reykjavík og leiðsögn frá sérfræðingum í stafrænni framleiðslutækni. Að lokum bjuggu teymin til virka frumgerð sem hægt var að kynna fyrir dómnefnd. 

Fjögur teymi komust í úrslit en það voru teymi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Verslunarskóla Íslands og Tækniskólanum. Í keppninni var lögð áhersla á heilsu- og velferðartengda tækni með tilvísan í heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Teymin unnu að frumgerð hugmyndar sinnar undir handleiðslu Fab Lab Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Fyrst var farið í gegnum hönnunarsprett, síðan var útbúin frumgerð sem var prófuð, rannsökuð og þróuð áfram. Öll teymin fjögur sem komust í úrslit, fá leiðsögn frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands við að koma hugmynd sinni á markað. 

Dómnefnd var að þessu sinni skipuð Guðjóni Sigurðssyni, formanni MND félagsins, Ósk Sigurðardóttur, stofnanda TravAble, Eyjólfi Eyjólfssyni, verkefnastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar og Ragnheiði Magnúsdóttur, forstöðumanni viðhaldsþjónustu hjá Veitum.

Teymi Menntaskólans við Hamrahlíð, Stefán Logi Baldursson, Orri Starrason, Þorsteinn Sturla Gunnarsson og Hekla Aradóttir. Þorsteinn klæðist frumgerð þeirra, úlpu og bol en snið fatanna og virkni hefur verið þróuð að þörfum fólks í hjólastól. 

Sara Halldórsdóttir og Jón Ágúst Arnórsson úr teymi Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Sara og Jón Ágúst vilja að fyrirtæki séu stolt af góðum aðgengismálum. Þau þróuðu listaverk sem auðvelt er að nýta sem ramp til að bæta aðgengi hjólastóla. Hér með smækkaðri útgáfu hugmyndarinnar.

Teymi Verzlunarskóla Íslands, Saga Eysteinsdóttir, Atli Geir Alfreðsson og Arndís Úlla Björnsdóttir Árdal með appið Hjálpa, sem tengir saman fólk sem vill hjálpast að í daglegum athöfnum. 

 

Verksmiðjan eflir nýsköpun 13- 16 ára

Verksmiðjan eflir nýsköpun 13- 16 ára

Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13 til 16 ára, þar sem hugmyndir og uppfinningar verða að veruleika. Að verkefninu standa Samtök iðnaðarins, RÚV, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Fab Lab, menntamálaráðuneytið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.