Námskeið og fræðsla

Nýsköpunarmiðstöð býður upp á fjölbreytt námskeið tengd þróun viðskiptahugmynda og gerð viðskiptaáætlunar. Hlutverk okkar er að svara þörfum og óskum viðskiptavina um fræðslu og hafa frumkvæði að nýjum lausnum á sviði menntunar og nýsköpunar. Við störfum með einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum um land allt.

 

 

Brautargengi - fyrir konur með viðskiptahugmynd

Lumar þú á góðri viðskiptahugmynd sem þig langar að þróa áfram, kanna möguleika á að hrinda í framkvæmd, læra um stofnun og rekstur fyrirtækja og læra að koma hugmyndum þínum á framfæri? Þá er Brautargengi fyrir þig. Þú vinnur með hugmyndina þína, skrifar heildstæða viðskiptaáætlun undir leiðsögn sérfræðinga og lærir um stofnun og rekstur fyrirtækja.

Brautargengi er námskeið sem er sniðið sérstaklega að þörfum kvenna sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og hefja eigin rekstur og kvenna sem eru þegar í atvinnurekstri og vilja auka rekstrarþekkingu sína. 

ATH. Vegna ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður frá og með næstu áramótum sjáum við okkur því miður ekki fært að fara af stað með námskeiðið næsta haust 2020 

Inntökuskilyrði

Meginskilyrði eru að þátttakandi hafi viðskiptahugmynd til að vinna með, sé að hefja rekstur eða sé nú þegar í rekstri og að þátttakandi skuldbindi sig til þess að vinna að gerð viðskiptaáætlunar sinnar. Eins er skilyrði fyrir þátttöku að nemendur hafi aðgang að tölvu með ritvinnsluforriti (word) og töflureikni (exel). Reiknað er með nemendur hafi með sér eigin tölvu í allar kennslustundir.

Markmið

 • Þátttakendur ljúki við vinnu að eigin viðskiptaáætlun

 • Öðlist þekkingu á grundvallaratriðum við stofnun fyrirtækis

 • Fái hagnýta þekkingu á þeim þáttum sem lúta að fyrirtækjarekstri s.s. markaðsmálum, fjármálum og stjórnun

 • Aukin tengsl

Kennslufyrirkomulag

Fyrirlestrar, verkefnavinna og heimavinna. Þátttakendur fá einnig leiðsögn hjá starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar.  Brautargengi er kennt er einu sinni í viku í 15 vikur. Námskeiðið eru haldið tvisvar á ári, á haust og vorönn. 

Námsefni

 • Þróun viðskiptahugmynda

 • Markaðsmál

 • Stefnumótun
 • Fjármál og rekstur
 • Hagnýt atriði við stofnun og rekstur fyrirtækis

 • Kynning á viðskiptahugmynd
 • Markviss uppbygging þátttakenda

Verð og hvað er innifalið 

Námskeiðið kostar 75.000 kr. og innifalið í verði er: 

 • Kennsla og persónuleg leiðsögn

 • Námsgögn

 • Kaffi og meðlæti 

 • Rýni á viðskiptaáætlun og kynningu

Staðreyndir um Brautargengi

Brautargengi hóf göngu sína 1996 í Reykjavík en 2003 var það haldið í tíunda sinn og þá í fyrsta skipti á landsbyggðinni þar sem samkennt var á milli Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða.

Rúmlega 1300 konur hafa lokið Brautargengi og skrifað heildstæða viðskiptaáætlun í kringum viðskiptahugmynd sem þær hafa. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var árið 2005 á árangri Brautargengis eru nú 50 - 60% kvenna sem lokið hafa Brautargengisnámi með fyrirtæki í rekstri og telja flestar að námskeiðið hafi skipt mjög miklu máli varðandi það hvort þær færu af stað með rekstur. Einnig telur mikill meirihluti þeirra að þær séu mun hæfari stjórnendur eftir að hafa lokið náminu. Um og yfir 90% þátttakenda segjast geta mælt með Brautargengisnáminu við vinkonur sínar.

Kannanir okkar sýna einnig að hluti þátttakenda er háskólamenntaður og flest fyrirtækin sem stofnuð hafa verið eða eru í bígerð eru í verslun og þjónustu. Flest þessara fyrirtækja eru með 10 starfsmenn eða færri en þó eru nokkur með yfir 30 starfsmenn. Óhætt er því að segja að Brautargengisnám komi atvinnulífinu til góða þar sem kraftar kvenna nýtast í störfum sem annars hefðu ekki orðið til. Sérfræðingar hafa bent á það að undanförnu að mikilvægt sé að nýta krafta kvenna þar sem á íslenskum vinnumarkaði eru einungis um 27% sjálfstæðra atvinnurekenda konur.


Anna Guðný Guðmundsdóttir
Anna Guðný Guðmundsdóttir
Verkefnastjóri
Hildur Sif Arnardóttir
Hildur Sif Arnardóttir
Verkefnastjóri

Ratsjá

Ratsjáin

 

Ratsjáin er nú orðin að nýsköpunar- og þróunarverkefni Íslenska ferðaklasans

Landshlutasamtök sjö landsvæða á Íslandi hafa tekið sig saman um að bjóða stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum þátttöku í nýrri útgáfu af Ratsjánni, samtengdu verkefni sem hefst í upphafi árs 2021. 

Ratsjáin er ákveðið verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Íslenski ferðaklasinn leiðir verkefnið í samstarfi við RATA og tengiliði frá landshlutasamtökum sveitarfélaga á Austurlandi, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Vestfjörðum, Vesturlandi, Reykjanesi og Suðurlandi. 

Ljóst er að fyrirtæki í virðiskeðju ferðaþjónustunnar eru í miklum ólgusjó sem ekki sér fyrir endann á. Á næstu mánuðum er lykilatriði að halda fast um taumana, nýta sér þau úrræði sem í boði eru af hendi stjórnvalda ásamt því að nýta tímann til að efla nýsköpun, vöruþróun og stafræna ferla fyrirtækisins. 

Nánari upplýsingar um Ratsjá Íslenska ferðaklasans

 


Selma Dögg Sigurjónsdóttir
Selma Dögg Sigurjónsdóttir
Verkefnastjóri
Sigurður Steingrímsson
Sigurður Steingrímsson
Starfandi fjármálastjóri/Verkefnastjóri