Námskeið og fræðsla

Nýsköpunarmiðstöð býður upp á fjölbreytt námskeið tengd þróun viðskiptahugmynda og gerð viðskiptaáætlunar. Hlutverk okkar er að svara þörfum og óskum viðskiptavina um fræðslu og hafa frumkvæði að nýjum lausnum á sviði menntunar og nýsköpunar. Við störfum með einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum um land allt.


Stofnun og rekstur

Námskeiðið fjallar um grundvallaratriði stofnunar og reksturs fyrirtækja. Fjallað er um sölu- og markaðsmál, fjárhagsáætlanir, form fyrirtækja og skattamál ásamt því að farið er yfir mismunandi gerðir viðskiptaáætlana. Út í gegnum námskeiðið vinna þátttakendur með sína eigin viðskiptahugmynd hvort sem hún er komin til framkvæmda eða er á hugmyndastigi. 

Allir þátttakendur á námskeiðinu skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu þess efnis að þeir muni ekki gera hugmyndir annarra að sínum eða á annan hátt hagnast á sértækum upplýsingum annarra þátttakenda sem sitja námskeiðið.

Hverjum er námskeiðið ætlað?

Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa viðskiptahugmynd og hafa áhuga á því að meta rekstrarhæfni hennar. Eins er námskeiðið ætlað þeim einstaklingum sem þegar hafa stofnað fyrirtæki og vilja auka rekstrarþekkingu sína. Eins á námskeiðið við fyrir þá einstaklinga sem eiga eftir að vinna stefnumótun fyrir fyrirtækið sitt, gera rekstraráætlanir, marðasáætlanir og greina fjármögnunartækifæri.

Námskeiðið er haldið í Reykjavík og á Egilsstöðum.

Markmið

Markmið námskeiðisins eru að kynna ýmis gagnleg verkfæri til fyrirtækjareksturs fyrir þátttakendum og leiðbeina þeim við fyrstu skref í rekstri. Námskeiðið veitir: 

 • Þekkingu á grundvallaratriðum við stofnun fyrirtækis
 • Þekkingu á þáttum sem lúta að fyrirtækjarekstri s.s. markaðsmálum, fjármálum og stjórnun
 • Þekkingu til að vinna eigin viðskiptaáætlun

Dagskrá, efnisþættir og verð

Námskeiðið er samtals 40 kennslustundir auk vinnustofu í lokin.

Kennt er á miðvikudögum frá klukkan 17:00-20:00 (á mánudögum á Egilsstöðum).

Helstu efnisþættir eru eftirfarandi:

10. október 2018 (15. okt. á Egs.)

 • Greining viðskiptatækifæra
 • Mikilvægi viðskiptaáætlunar
 • Viðskiptaáætlunargerð – stefnumótun og Canvas

 

17. október 2018 (22. okt. á Egs.)

 • Vara og þjónusta
 • Upplifunarhönnun
 • Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja

 

24. október 2018 (29. okt. á Egs.)

 • markaðs- og samkeppnisgreiningar
 • Markhópurinn - drauma viðskiptavinurinn
 • Markaðsáætlanir

 

31. október 2018 (5. nóv. á Egs.)

 • Stafræn markaðssetning
 • Efnisframleiðsla
 • Leitarvéla bestun
 • Mikilvægi vefsíðu
 • Umræða um helstu samfélagsmiðla

 

7. nóvember 2018 (12. nóv. á Egs.)

 • Rekstrarform fyrirtækja og skráning
 • Verðlagning og núllpunktur
 • Rekstrargjöld og tekjur

 

14. nóvember 2018 (19. nóv. á Egs.)

 • Fjárhagsáætlanagerð
 • Fjármögnun, laun og skattar

 

21. nóvember 2018 (26. nóv. á Egs.)

 • Fjárfestakynningar
 • Markaðssetning og framkvæmdaáætlanir

 

28. nóvember 2018 (03. des. á Egs.)

 • Vinnustofa, handleiðsla og fyrstu skrefin

 

Þátttökugjald er 62.000 kr.  


Anna Guðný Guðmundsdóttir
Anna Guðný Guðmundsdóttir
Verkefnastjóri

Brautargengi - fyrir konur með viðskiptahugmynd

Lumar þú á góðri viðskiptahugmynd sem þig langar að þróa áfram, kanna möguleika á að hrinda í framkvæmd, læra um stofnun og rekstur fyrirtækja og læra að koma hugmyndum þínum á framfæri? Þá er Brautargengi fyrir þig. Þú vinnur með hugmyndina þína, skrifar heildstæða viðskiptaáætlun undir leiðsögn sérfræðinga og lærir um stofnun og rekstur fyrirtækja.

Brautargengi er námskeið sem er sniðið sérstaklega að þörfum kvenna sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og hefja eigin rekstur og kvenna sem eru þegar í atvinnurekstri og vilja auka rekstrarþekkingu sína.

Tímasetningar

Námskeið Brautargengis eru haldin tvisvar á ári í Reykjavík og að jafnaði einu sinni á ári á Akureyri. Eina önn á  ári er síðan námskeið í boði í öðrum landshlutum. Það er þá kynnt sérstaklega.

Brautargengi á Akureyri hefst 6. september 2018 og verður kennt á fimmtudögum kl. 12-16 

Brautargengi í Reykjavík hefst 4. september 2018 og verður kennt á þriðjudögum kl. 12-16

Inntökuskilyrði

Meginskilyrði eru að þátttakandi hafi viðskiptahugmynd til að vinna með, sé að hefja rekstur eða sé nú þegar í rekstri og að þátttakandi skuldbindi sig til þess að vinna að gerð viðskiptaáætlunar sinnar. Eins er skilyrði fyrir þátttöku að nemendur hafi aðgang að tölvu með ritvinnsluforriti (word) og töflureikni (exel). Reiknað er með nemendur hafi með sér eigin tölvu í allar kennslustundir (eða semji um að fá lánaða tölvu hjá Nýsköpunarmiðstöð).

Markmið

 • Þátttakendur ljúki við vinnu að eigin viðskiptaáætlun

 • Öðlist þekkingu á grundvallaratriðum við stofnun fyrirtækis

 • Fái hagnýta þekkingu á þeim þáttum sem lúta að fyrirtækjarekstri s.s. markaðsmálum, fjármálum og stjórnun

 • Aukin tengsl

Kennslufyrirkomulag

Fyrirlestrar, verkefnavinna og heimavinna. Þátttakendur fá einnig handleiðslu hjá starfsmönnum Impru.  Brautargengi er 90 kennslustunda námskeið sem kennt er einu sinni í viku í 4 klst. í senn, samtals í 15 vikur. Námskeiðið eru haldið tvisvar á ári, á haust og vorönn og hefst það í febrúar og september ár hvert.

Námsefni

 • Markviss uppbygging þátttakenda

 • Stefnumótun

 • Stjórnun og starfsmannamál

 • Markaðsmál

 • Fjármál

 • Tölvuvæðing og internetið

 • Hagnýt atriði við stofnun og rekstur fyrirtækis

Verð og hvað er innifalið 

 • Námskeiðið kostar 50.000 kr. og innifalið í verði er: 
 • Kennsla og leiðsögn

 • Námsgögn

 • Verkefnamappa

 • Kaffi og meðlæti

 • Handleiðsla 

Staðreyndir um Brautargengi

Brautargengi hóf göngu sína 1996 í Reykjavík en 2003 var það haldið í tíunda sinn og þá í fyrsta skipti á landsbyggðinni þar sem samkennt var á milli Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða.

Rúmlega 1000 konur hafa lokið Brautargengi og skrifað heildstæða viðskiptaáætlun í kringum viðskiptahugmynd sem þær hafa. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var árið 2005 á árangri Brautargengis eru nú 50 - 60% kvenna sem lokið hafa Brautargengisnámi með fyrirtæki í rekstri og telja flestar að námskeiðið hafi skipt mjög miklu máli varðandi það hvort þær færu af stað með rekstur. Einnig telur mikill meirihluti þeirra að þær séu mun hæfari stjórnendur eftir að hafa lokið náminu. Um og yfir 90% þátttakenda segjast geta mælt með Brautargengisnáminu við vinkonur sínar.

Kannanir okkar sýna einnig að hluti þátttakenda er háskólamenntaður og flest fyrirtækin sem stofnuð hafa verið eða eru í bígerð eru í verslun og þjónustu. Flest þessara fyrirtækja eru með 10 starfsmenn eða færri en þó eru nokkur með yfir 30 starfsmenn. Óhætt er því að segja að Brautargengisnám komi atvinnulífinu til góða þar sem kraftar kvenna nýtast í störfum sem annars hefðu ekki orðið til. Sérfræðingar hafa bent á það að undanförnu að mikilvægt sé að nýta krafta kvenna þar sem á íslenskum vinnumarkaði eru einungis um 27% sjálfstæðra atvinnurekenda konur.


Anna Guðný Guðmundsdóttir
Anna Guðný Guðmundsdóttir
Verkefnastjóri
Elín Gróa Karlsdóttir
Elín Gróa Karlsdóttir
Verkefnastjóri