Nýsköpunargreining

Nýsköpun fer að stórum hluta fram í þroskuðum fyrirtækjum.

Fyrirtæki sem hafa vaxið og verið í rekstri í nokkur ár standa frammi fyrir öðrum áskorunum en frumkvöðlar og sprotar. Slík fyrirtæki hafa oft betri aðgang að auðlindum, en skortir gjarnan frumkvöðlaanda. Þau þurfa að tileinka sér ný vinnubrögð til að gera nýsköpun að órjúfanlegum þætti í rekstri fyrirtækisins.

Fyrir fyrirtæki

Nýsköpunarmiðstöð Íslands býður fyrirtækjum með fleiri en 5 starfsmenn upp á nýsköpunargreiningu sem hluta af verkefninu „Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum“. Þjónustan er í boði fyrir fyrirtæki sem starfrækt hafa verið lengur en í 3 ár.

Markmið verkefnisins er að hvetja starfandi fyrirtæki til nýsköpunar og þróunar í þágu aukinnar framleiðni, bættrar samkeppnishæfni og nýsköpunar. Innan starfandi fyrirtækja er þekking og fjárfesting sem hægt er að nýta til nýsköpunar og aukinnar framleiðni. Nýsköpunargreiningin fer þannig fram að starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar halda um fjögurra tíma vinnufund með 3-5 starfsmönnum fyrirtækisins. Nýsköpunarferlar eru metnir, þarfir viðskiptavina kannaðar og farið er í gegnum hugmyndavinnu og vöru- og þjónustuþróun á öllum stigum. Fyrirtækjamenning er skoðuð, viðskiptaáætlun, uppbygging fyrirtækisins, geta þess og auðlindir. Skömmu síðar fær fyrirtækið skýrslu um stöðu nýsköpunar og hvernig megi bæta ferla og nýsköpunarhæfi innan fyrirtækisins. Með hvatningu og greiningu á tækifærum sem leitt geta til nýsköpunar má styrkja stöðu fyrirtækisins á markaði enn betur.


Hannes Ottósson
Hannes Ottósson
Verkefnastjóri