Klasar

Hugmyndafræði klasa hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár og hefur hugtakið klasi (e. cluster) verið mikið notað víðsvegar um heiminn sem kjarni í umfjöllun um nýsköpun, atvinnuþróun og samkeppnishæfni svæða.

Hvað er klasi?

Klasi er samstarfsvettvangur, oft með þátttöku margra aðila, sem hefur það markmið að ná skýrum og tilteknum árangri. Klasinn opnar fyrir tækifæri einstakra þátttakenda á sama tíma sem orðspor klasans styrkist á þeim markaði sem hann vinnur á sem síðan eykur samkeppnishæfni allra þátttakenda. Oft og tíðum eru klasar með opna félagsaðild og byggja á félagslegum þáttum til að örva útrás og frekari árangur í viðskiptum. Klasasamstarf gengur út á að skapa tengslanet og samstarf fyritækja í viðskiptalífinu sem byggir á vinnuafli, tækni og þekkingu og ekki síst að skapa umhverfi til nýsköpunar.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur gefið út Klasahandbók sem er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir alla sem hafa í hyggju að efla klasa og koma á fót klasatengdum verkefnum. Tekið skal fram að til eru fleiri aðferðir við klasaþróun og stjórnun klasa en þær sem vikið er að í þessu riti. 

 

 

 


Ávinningur af klasasamstarfi

Þegar lagt er mat á hvort stofna eigi klasa þarf að skoða umhverfi og staðsetningu fyrirtækja. Til dæmis þarf að greina hvernig svæði getur þróast án eða með samvinnu og hvernig fyrirtæki geta unnið saman að tilskildum markmiðum til að auka virði allra samstarfsaðila. Sýnt hefur verið fram á að aðilar sem hefja klasasamstarf hafa oft náð samkeppnisyfirburðum á tilteknum sviðum og verulegum ávinningi fyrir þátttakendur.

Markmið fyrirtækja í klasasamstarfi getur verið mismunandi, til dæmis að öðlast ný markaðstækifæri, efla tækniþróun, nýta hæfni og getu samstarfsaðila og/ eða öðlast viðskiptavild við nýja birgja.


Klasaþróun - skref fyrir skref

Það eru einkum þrjú atriði sem þátttakendur í klasasamstarfi þurfa að hafa í huga við klasaþróun sem geta um leið leitt til árangursríkara klasasamstarfs.

1. Eru hugmyndirnar af eflingu klasans og auknu virði hans raunhæfar?
2. Er fyrirhuguð uppbygging á virðisskapandi starfsemi framkvæmanleg?
3. Eru hugmyndirnar sem settar eru í forgang að skapa fyrirtækjunum viðvarandi samkeppnisforskot og eru þær sjálfbærar?

Til þess að svara framangreindum spurningum á markvissan hátt er gagnlegt að fara í gegnum tíu skref. Skrefin hafa verið lögð til grundvallar í þekkingarmiðlun á klasaþróunarstarfi sem unnið er á vegum European Foundation for Cluster Excellence og nánar eru skilgreind í Klasahandbók Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.


Klasastjórnun

Klasastjórar gegna flóknu og ábyrgðarmiklu hlutverki. Í mörgum klasaverkefnum er hugtakið verkefnisstjóri notað yfir þann sem ber höfuðábyrgð á framþróun klasans.Verkefni klasastjóra eru fjölþætt og krefjast ákveðinnar sérþekkingar ásamt því að geta brugðið sér í ákveðin hlutverk.

Þrátt fyrir að hvert klasaverkefni sé sérstakt má greina fjóra áhersluþætti sem algengt er að samstarfið byggi á;

  • Uppbygging tengslanets
  • Að bæta samkeppnisstöðu og rannsóknir
  • Þróun og nýsköpun verkefnisins
  • Vörumerkjaþróun, markaðssetning og upplýsingaflæði

Þar sem hlutverk klasastjórans getur oft verið flókið er mikilvægt að huga að samsetningu stjórnendateymisins út frá því hvaða verkefni eru framundan. Það getur verið nauðsynlegt að mynda verkefnateymi um tiltekin verkefni og mikilvægt að þátttakendur í klasasamstarfinu séu tilbúnir til að leggja því lið ef svo ber undir.


Vöxtur og alþjóðlegt samstarf

Að byggja upp tengsl milli klasa hvort sem er innanlands eða utan er lykilþáttur þegar kemur að vexti. Slíkt getur leitt til nýrra viðskiptatengsla ásamt dýrmætri tækni- og þekkingaryfirfærslu sem aftur getur stuðlað að bættri samkeppnisstöðu klasans. Klasar sem eru að leita eftir samstarfi við aðra íslenska klasa geta leitað til Atvinnuþróunarfélaga og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eftir upplýsingum og ábendingum.

Ef leita á eftir samstarfsaðilum erlendis getur Evrópumiðstöð, Enterprise Europe Network á Íslandi www.een.is, veitt aðstoð. Einnig eru tengslanet líkt og The European Cluster Collaboration Platform http://www.cluster-excellence.eu/eccp.html og TCI network community http://www.tci-network.org/ góður vettvangur til að komast í samband við aðra klasa.


Fjármögnun klasa

Þeir sem koma að fjármögnun klasa þurfa að gera sér grein fyrir því að yfirleitt er um langtímafjárfestingu að ræða. Nauðsynlegt er að tryggja það fjármagn sem þarf til undirbúnings og reksturs klasans fram að þeim tíma sem hann verður sjálfbær. Á Íslandi er algengt að klasaverkefni séu fjármögnuð af fyrirtækjum að stórum hluta en einnig eru nokkrir sjóðir sem hægt er að sækja um styrki í sem sérstaklega eru ætlaðir klasaverkefnum.


Arna Lára Jónsdóttir
Arna Lára Jónsdóttir
Verkefnastjóri
Hannes Ottósson
Hannes Ottósson
Verkefnastjóri
Karl Friðriksson
Karl Friðriksson
Forstöðumaður