Markaðssetning- Samkeppnisgreining

Kanna þarf hversu mikil samkeppni er á viðkomandi sviði, hver eru einkenni hennar og hvort samkeppnin sé alþjóðleg, innlend eða svæðisbundin. Nauðsynlegt er að átta sig á aðgerðum samkeppnisaðila og byggja sérstöðu þína meðal annars á eða útfrá henni. Með slíkum vinnubrögðum er fyrirtækið betur í stakk búið að öðlast samkeppnisforskot á markaði. Hægt er að notast við tæki og tól til að átta sig betur á og geta verið viss um að öll mikilvægustu atriði séu skoðuð til hlítar. 5 þátta líkan Porters er tæki sem einfalt er að nota. SVÓT og PESTEL eru einnig mikið notuð.

Hafa ber í huga að samkeppni getur verið af ýmsu tagi og getur verið bein eða óbein. Mögulega gæti annars konar vara komið í stað viðkomandi vöru/þjónustu. Til dæmis mætti líta svo á að bíóhús séu í óbeinni samkeppni við keiluhallir í flokki afþreyingar.

Samstarf fyrirtækja getur verið afar verðmætt hvort sem er innan eða milli ólíkra atvinnugreina. Með slíku samstarfi geta fyrirtæki oft opnað á ný tækifæri og skapað ný verðmæti. Samstarf fyrirtækja á sviði tækni og sjávarútvegs hefur til dæmis oft skapað ný tækifæri og verðmæti.

Markhópagreining / markhópar

Mikilvægt er að skipta mögulegum viðskiptavinum í markhópa til að spara orku, fjármagn og tíma. Þetta kallast markaðshlutun og getur hún miðast við mismunandi þætti, til dæmis:

  • Landfræðilega skiptingu (landsfjórðunga, borgarhluta eða önnur svæði)
  • Lýðfræðilega skiptingu (aldur, tekjur, menntun)
  • Einstaklingseinkenni (lífsstíl, persónuleika)
  • Kaupvenjur (magn, tryggð, tilefni)

 Hver eru einkenni hvers hóps og hvernig megi ná til hans. Hverjir eru væntanlegir viðskiptavinir (þín afmörkun, markhópur), hverjum á að selja vöruna (ath. geta verið mismunandi hópar fyrir ólíkar vörur fyrirtækisins) Hver eru einkenni valdra markhópa (aldur, tekjur, menntun, lífsstíll, persónuleiki, gildi, o.s.frv.) Veltu fyrir þér hvaða sérkenni hvers markhóps megi nýta sem vísbendingar um hvernig megi ná til viðkomandi hóps (t.d. hvaða fjölmiðla nýta þeir, hverjar eru kaupvenjur þeirra, o.s.frv.). Hvar búa viðskiptavinirnir? Hverjar eru kaupvenjur helstu viðskiptavina og hvernig mun fyrirtækið koma til móts við þær?

Hvert verður megin markaðssvæði fyrirtækisins fyrst um sinn? Ákveðinn landshluti, allt landið, ákveðið land erlendis, ein borg erlendis? Þeim mun betur sem markaðssvæðið er skilgreint þeim mun betur gengur að ná til væntanlegra viðskiptavina.

Markmið 

Mikilvægt er að setja sértæk markmið fyrir markaðssetningu og markmiðin ættu að vera SMART - skýr, mælanleg, aðgengileg, raunhæf og tímasett. Markmiðin skulu miða að vexti í einhverri mynd, í sölu, markaðshlutfalli, arðsemi fjárfestinga osfrv. Yfir tiltekið tímabil, landfræðilegt svæði, sölusvæði.

Dæmi:

  • Að auka söluna á vöru X um Y% á árinu 20XX með því að búa til markaðsherferð á Facebook.
  • Efla vörumerkjavitund hjá X markhópi um Y% árið 20XX
  • Fá 30 nýja viðskiptavini frá X markhópi á fyrsta/öðrum/þriðja/fjórða ársfjórðungi
  • Selja 100 vörur á viku
  • Auka við markaðshlutfall um 5% á þessu ári
  • Minna markaðskostnað um 10% á næstu 6 mánuðum

Hægt er að skipta markmiðum í tvennt, í skammtímamarkmið (1 ár) eða langtímamarkmið (3 – 5 ár)