Markaðssókn erlendis

Í stuttu máli þá þarf að taka eftirfarandi skref áður en útflutningur hefst; byrja á markaðsrannsókn, greiningu markaðar og velja leið inn á markaðinn. Einnig er gott að hafa samband við aðila í stuðningsumhverfinu eins og Evrópumiðstöð á Nýsköpunarmiðstöð eða Íslandsstofu til að fá ráðgjöf.

Þegar kemur að útflutningi þá er mikilvægt að taka tillit til þess að markaðir eru mismunandi og því er nauðsynlegt að gera markaðsrannsókn til að skilja hvernig nýi markaðurinn og viðskiptavinirnir virka. Það eru fjölmargir þættir sem að geta haft áhrif á möguleika þína til að ná árangri á nýjum mörkuðum. 

Það fyrsta sem þarf að gera þegar kemur að markaðssetning vöru og þjónustu erlendis er að gera markaðsrannsókn sem að tekur mið af þeim lögum og reglum sem að gilda á nýja markaðnum. Að auki þarf að taka tillit til mismunandi menningarheima á hinum ólíku mörkuðunum þegar kemur að sölu og markaðssetningu.

 Til að vera sem best undirbúin undir útflutning á óþekkta markaði þá er gott að kynna sér aðstæður þar sem best. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu er að gera PESTLE greiningu (pólítík; efnahagsmál; samfélagsmál; tækni; lög og reglur; umhverfismál). Við þessa greiningarvinnu er fjöldi erlendra heimilda sem hægt er að sem geta gefið góðar upplýsingar við þessa vinnu.  

Það er alveg hægt að fara beint með vöru/þjónustu á aðra markaði en sala á vöru og þjónustu á erlendum mörkuðum gerist mjög sjaldan án milliliða. Fyrirtæki þurfa að skoða hinar mismunandi dreifileiðir sem í boði eru og velja þá leið sem hentar best þeirra vöru og/eða þjónustu. Einnig þarf að hafa í huga að það er mismunandi á milli landa hvernig milliliðir og hvaða dreifileiðir henta best, en þetta getur líka verið mismunandi eftir því hvaða vöru og/eða þjónustu um er að ræða. Algengt er að nýta sér umboðsaðila þegar byrjað er að selja vöru eða þjónustu á nýjum makaði, sá aðili þekkir markaðinn og viðkomandi iðnað vel.

Sumar vörur eru þess eðlis að fyrirtæki verður að vera með viðveru á markaðnum og þarf þá líklega að stofna dótturfélag eða útibú í því landi sem fyrirhugað er að selja á.

 Á vef Íslandsstofu má finna haldgóðar upplýsingar þegar kemur að vali á dreifileiðum erlendis.