Varan og mótun viðskipta­hugmyndar

Vara eða þjónusta sem uppfyllir þarfir og skapar virði fyrir viðskiptavin er mikilvægur grundvöllur að sérhæfingu og samkeppnisforskoti. Virði fyrir viðskiptavin getur m.a. verið fólgið í nýjungum, bættri virkni, lágu verði, meiri gæðum, einföldu notendaviðmóti, góðri hönnun og sterkri ímynd.


Frá hugmynd að viðskiptalíkani

Hér eru leiðbeiningar um það hvernig þróa má viðskiptahugmynd, faglega og á fljótvirkan hátt. Viðskiptalíkan hvers fyrirtækis er grunnur að nútíma rekstri. Mótun viðskiptalíkansins og endurmat er oftar en ekki uppspretta nýrra tækifæra til umbóta, hvort sem hugmyndin felur í sér að stofna nýtt fyrirtæki eða endurmóta eldri rekstur.

 

Vefútgáfan - Frá hugmynd að viðskiptalíkani á 10 mínútum

Með því að smella á þessa útgáfu gefst þér færi á að skoða leiðbeiningarnar í vefútgáfu.

 Prentútgáfan - Frá hugmynd að viðskiptalíkani á 10 mínútum

Stundum er betra að prenta leiðbeiningarnar út, til að dreifa í hópi eða krassa og krota á meðan farið er yfir efnið. 

Hér er A4 útgáfa á pdf-formi til útprentunar. 


Hugmyndavinna

Hugmyndavinna er forgrunnur að árangursríkri viðskiptahugmynd, en þó mikilvægt sé að leggja metnað í hugmyndavinnu, þá er hugmynd ein og sér er ekki nóg til að fara af stað með verkefni. Vinna þarf áfram með hugmyndina og þróa í átt að mögulegum markaði. Stundum koma margar hugmyndir til greina og þá þarf að velja þær bestu úr. Gott er á þessu stigi að fá einhvern með sér til að skoða hugmyndir, velta þeim fyrir sér, vinna með þær og velja úr.

Þegar hugmyndum fækkar er gott að grípa til aðferða sem hjálpa til að meta hver hugmyndanna sé vænlegust til að byrja á. Stundum tengjast hugmyndir og er þá jafnvel hægt að vinna með þær samhliða. Gott að byrja á einni hugmynd í einu og vinna sig út frá henni, en jafnframt er mikilvægt að halda utan um aðrar góðar hugmyndir til að geta unnið með þær síðar.

Hafðu í huga við val á hugmyndum  

  • Hugmyndina þarf að vera hægt að þróa lengra, þannig að frekari viðskiptaþróun sé möguleg
  • Hugmyndin þarf að endurspegla þau gildi og þá stefnu sem þú vilt standa fyrir
  • Jafnvel þó hugmyndin sé góð, fellur hún ef til vill ekki að þörfum markaðarins
  • Ræddu við sem flesta um hugmyndina og hlustaðu vel á þá rýni sem þú færð
  • Skrifaðu strax niður hugmyndir og horfðu á þær út frá mörgum og ólíkum sjónarhornum 

Til eru margar leiðir til að vinna með og þróa hugmyndir. Eftirfarandi eru nokkrar aðferðir sem geta nýst við að þróa hugmyndir áfram og á þann stað sem gerir þér kleift að taka upplýsta ákvörðun um það hvort þú eigir að halda áfram eða velja aðra leið.


Þvingaðar hugmyndir

Hugmyndir kallaðar fram

Hægt er að nýta sér ýmsar aðferðir við að þvinga fram hugmyndir um allt og ekkert eða eitthvað ákveðið efni sem þarf að leysa. 

Áttan

Áttan er ein þeirra aðferða sem hægt er að nýta við að þvinga fram hugmyndir. Blað er brotið saman í átta hluta (fjórum sinnum í tvennt). Stilltu tíma á átta mínútur. Skrifaðu eða teiknaðu eina hugmynd í hvern kassa. Eftir átta mínútur eru komnar átta hugmyndir.

Post it miðar

Tíminn er stilltur í 5-10 mínútur og ein hugmynd fer á hvern Post-it miða. Skráðar eru niður eins margar hugmyndir á meðan að tímanum stendur og í lokinn eru allir miðarnir festir á vegg. Hugmyndir eru settar í flokka og þátttakendur meta bestu hugmyndirnar sem unnið verður áfram með.


Stemmningsspjald

Stemnings­spjald (Mood board)

Hægt er að nýta þessa aðferð hvort heldur sem verið er að vinna að grunnviðskiptahugmynd eða sértækum verkefnum (lógógerð, bæklingagerð, heimasíða, innanhúshönnun). Stemmningspjald er samsafn mynda og hugtaka sem eiga að endurspegla andrúmsloft eða kalla fram ákveðnar tilfinningar sem kann að vera erfitt að setja fram á skriflegan máta eða koma til skila á munnlegan hátt. Þessi aðferð getur einnig hjálpað þér að finna sérstöðu eða koma öðrum í skilning um hver sérstaða þín er umfram aðra á markaði. 

Stemningspjald

Stemningsspjöld hjálpa til við að setja grunninn sem á endanum þróast í ákveðið þema – litir, letur, lögun, tónlist, húsgögn eða annað sem styður við kjarnastarfssemina. Stemningsspjald er góð aðferð við að koma teymum saman um sameiginlega fleti hugmynda því með því að skapa sameiginlega sýn.  

Hægt er að nýta ýmsa tækni til að vinna stemningsspjald. Hægt er að klippa út myndir, orð og setningar og líma á A3 eða stærra spjald. Einnig eru aðrar lausnir eins og t.d. Pinterest, Illustrator, moodboard til að búa til rafræna útgáfu af spjaldinu.  


Hugarflug

Hugarflug

Það er misskilningur að það þurfi hóp í hugarflug, því vel er hægt að fara á hugarflug einn og sér. Gott er að taka sér hlé frá tölvu með þessari aðferð en það er ekki nauðsynlegt. Gott er að grípa í blað og penna en það að skrifa á blað getur haft jákvæð og öðruvísi áhrif á heilann heldur en að skrifa á lyklaborð. 

Orðabanki - kortlagning - brúaðu bilið

Orðabanki. Gott er að skrifa allt það sem kemur upp í hugann varðandi tiltekið viðfangsefni niður á blað. Þannig verður til orðabanki fyrir tiltekið verkefni sem verið er að vinna að. Að skapa orðabanka getur komið hjálpað við að koma skriði á hugmyndaþróun í stað þess að hugsa frá upphafi um heildina.

Kortlagning. Því næst er gott að flokka orðin og koma reglu á hugsanirnar. Þannig er hægt að gera hugarkort af verkefninu með eins marga undirflokka og hver kýs. Markmiðið er sett í miðjuna og búnir til flokkar út frá því.

Brúaðu bilið. Hvort sem þú áttar þig á því eða ekki þá ertu að glíma við einhvers konar bil. Þú ert á ákveðnum stað en vilt vera á öðrum. Skrifaðu niður öll skrefin sem þarf að vinna til að komast þangað. Þannig hefur þú áþreifanlegan lista yfir verkefni sem þarf að ganga í til þess að verkefnið verði að veruleika.

hugmyndamynd


Stjarnan

Búðu til sexhyrnda stjörnu. Í hvern odda er skrifað, hver, hvað, hvar, hvenær, hvers vegna og hvernig. Í miðjuna er vandamálið/tækifæri skrifað.

Búðu svo til spurningar úr hverjum odda sem byrja á þessum orðum; Hver er viðskiptavinurinn? Hvaða þjónustu/vöru vill hann fá? Hvar vill hann nálgast hana?  Ekki reyna að svara spurningunum um leið og þær eru skrifaðar heldur skaltu reyna að fá eins margar spurningar og hægt er.

Stjarnan dæmi

 

Stjarna/varan


Sex hattar

Með því að skoða viðfangsefnin frá mismunandi sjónarhorni geta hugmyndir þróast til hins betra. Fólki hættir til að hugsa á þann hátt sem hentar þeim sjálfum og 6 hatta æfingin hjálpar því við að tileinka sér öðruvísi þankagang.

Sex hatta aðferðin

Aðferðin hentar einstaklingum eða hópum við lausn ákveðinna viðfangsefna. Litur hattanna er myndlíking fyrir mismunandi stig hugsana eða umræðna sem síðan samþættast í lausn eða ákvörðun.

Oftast er byrjað á hvíta hattinum til að samræma skoðanir þátttakenda á núverandi stöðu. Hver hattur er svo settur upp í nokkrar mínútur. Minnstur hluti tímans fer í rauða hattinn enda er þar óskað eftir fyrstu viðbrögðum en ekki mati. 

 

Hvíti hatturinn er hattur upplýsinga. Skoðið staðreyndir og fyrirliggjandi upplýsingar um viðfangsefnið á markvissan hátt. Hugaðu að þeirri þekkingu og hæfni sem nauðsynleg er til að leysa viðfangsefnið og hvar hægt sé að nálgast hana.

Rauði hatturinn er hattur tilfinninga. Skoðið viðfangsefnið með hliðsjón af þeim tilfinningum sem tengjast því. Hvaða tilfinningar hafa þátttakendur til viðfangsefnisins? Reiði, gleði, ótti? Hver eru fyrstu viðbrögð?

Svarti hatturinn er hattur neikvæðni. Skoðaðu viðfangsefnið með neikvæðu viðhorfi. Hvað er rangt við fyrirætlunina? Af hverju ætti hún ekki að virka? Hvaða vandamál gætu komið upp? Hvaða áhættu er um að ræða?

Guli hatturinn er hattur jákvæðni. Skoðaðu viðfangsefnið með jákvæðu viðhorf. Hvað er gott og rétt við fyrirætlunina? Af hverju mun áætlunin ganga upp? Hver er árangurinn? Hverjir eru kostir áætlunarinnar? Hugið hér að framtíðarsýn og draumum.

Græni hatturinn er hattur sköpunar. Skoðaðu viðfangsefnið á skapandi hátt. Líttu á viðfangsefnið út frá öðru sjónarhorni til að fá nýjar hugmyndir og lausnir.

Blái hatturinn er hattur skipulagningar. Blái hatturinn er notaður til að skilgreina viðfangsefnið skilmerkilega, skoða hvert er markmiðið og hvernig ætlunin er að komast þangað. Skoðaðu hvað hefur áunnist, hver eru næstu skref, hvert verður framhaldið og dragðu saman þær ákvarðanir sem teknar hafa verið.

 Vinnuskjal fyrir hatta Edward d. Bono's

 

 


 


Hvað svo?

Þegar að hugmynd hefur verið valin er nauðsynlegt að fara með hana í gegnum ítarlegra greiningartól til að meta möguleika hugmyndarinnar á markaði. Einföld aðferð til að framkvæma grunnmat hugmyndar er að skoða hana út frá möguleika hugmyndarinnar á markaði. Einföld aðferð til að framkvæma grunnmat hugmyndar er að skoða hana út frá viðskiptamódeli Canvas (BMC).


Business Model Canvas

Business Model Canvas er tól sem hægt er að nota við hugmynda- og stefnumótunarvinnu, hvort sem er fyrir nýjar viðskiptahugmyndir eða starfandi fyrirtæki. Lögð er áhersla á að draga sérstöðu hugmyndar fram og hámarka verðmætasköpun. Aðferðin byggir á einföldu myndrænu korti þar sem sett eru inn aðalatriði hugmyndar er tengd: Virði vörunnar, innviðir, viðskiptavinir og fjármál. Aðferðin kom fyrst fram í bók Alexander Osterwald árið 2008 og naut strax mikilla vinsælda.

 

Mikilvægt er að skrifa ekki inn á blaðið - heldur skrifa á post-ið miða sem er auðvelt að breyta og færa til. 

Hér er rafræn útgáfa af Canvas sem heldur í þessa mikilvægu virkni að skrifa á miða og raða inn á spjaldið.     

         

 

Varan/virði Virði vörunnar

Vara eða þjónusta sem uppfyllir þarfir viðskiptavinarins og skapar fyrirtækinu sérhæfingu og samkeppnisforskot. Virði fyrir viðskiptavin getur m.a. verið fólgið í nýjungum, bættri virkni, lágu verði, betri gæðum, einföldu notendaviðmóti, góðri hönnun og sterkri ímynd.

Lykilsamstarf Lykilsamstarf

Samstarf getur aukið hagræðingu og dregið úr áhættu. Gott samstarf við birgja getur auðveldað fyrirtækinu að leggja áherslu á kjarnastarfsemi. Þátttakendur í samstarfi geta bætt hvorn annan upp og hægt er að líta til stefnumarkandi samstarfs.

Lykilstarfsemi Lykilstarfsemi

Sú starfsemi sem er nauðsynleg til að koma virði til viðskiptavina. Hérna gæti verið um að ræða hefðbundin verkefni eins og rekstur á bifreið og starfsmannahald. Mikilvægt er að huga vel að þeirri starfsemi sem skapar fyrirtækinu sérstöðu, hvort sem sú sérstaða byggir á lágu verði, miklum gæðum eða einhverju öðru.

Lykilauðlindir Lykilauðlindir

Þær auðlindir sem eru nauðsynlegar til að skapa virði fyrir viðskiptavin. Auðlindir er þau verðmæti sem fyrirtækið nýtir til að viðhalda rekstri sínum.  Þessar auðlindir geta t.d. verið mannauður, fjármagn og hugverk.

Vidskiptavinir Viðskiptavinir

Mikilvægt er að átta sig á því hvaða viðskiptavinum fyrirtækið ætlar að þjóna. Markhópum er hægt að skipta upp eftir mismunandi þörfum þeirra og fyrirtækið stefnir að því að uppfylla þarfir sinna markhópa. Markhópar geta t.d. verið fyrirtækjamarkaður, konur, unglingar, íþróttafólk og sumarhúsaeigendur.

Dreifileiðir Dreifileiðir

Fyrirtæki getur komið virði til viðskiptavina sinna með mismunandi dreifileiðum. Skilvirkar dreifileiðir eru hraðvirkar og hagkvæmar. Dreifileiðir geta t.d. verið yfir búðarborð eða í gegnum dreifingaraðila.

Markhópar Samskipti

Mikilvægt er að leggja áherslu á ákveðin og meðvituð samskipti við hvern markhóp. Samskipti við viðskiptavin geta t.d. byggt á persónulegum samskiptum eða sjálfafgreiðslu.

Kostnaður Kostnaður

Ýmis kostnaður fellur til af starfseminni og hægt er fara mismunandi leiðir. Sum fyrirtæki eru drifin áfram af því að halda öllum kostnaði í lágmarki á meðan önnur leggja meiri áherslu á gæði. Fastur kostnaður er sá kostnaður sem breytist ekki í hlutfalli við aukna framleiðslu, t.d. húsnæði. Breytilegur kostnaður er sá kostnaður sem hlýst af hverri framleiddri einingu, t.d. hráefni.

Tekjur Tekjur

Tekjur fyrirtækisins geta skilað sér með ýmsum hætti. Tekjur geta t.d. verið í formi sölu á vöru leigu, áskrift eða þóknun. 

 

Smelltu á myndina hér fyrir neðan, prentaðu út og byrjaðu að vinna. Mikilvægt er að hafa gula Post-it miða við hendina þegar unnið er með Business Model Canvas og skrifa niður orð og setja í viðeigandi reit. Einnig er hægt að vista skjalið inn í tölvuna og skrifa inn í reitina ef engir gulir miðar eru til staðar. 

Business model canvas