Ræsing Húnaþinga!

Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við sveitarfélög í Húnaþingum efna til samkeppni, Ræsingu Húnaþinga, um góðar viðskiptahugmyndir í Húnaþingum, þar sem einstaklingum, hópum og fyrirtækjum er boðið að sækja um þátttöku í verkefninu.

Þátttakendur fá 12 vikur til að vinna viðskiptaáætlun fyrir verkefnin sín en á þeim tíma fá aðstandendur verkefnanna fræðslu og  mikinn stuðning verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar auk fleirum við gerð viðskiptaáætlunarinnar og hugsanlega við vöruþróun og frumgerðasmíði.

Boðið verður m.a. upp á námskeið við gerð viðskiptaáætlana.

Umsóknir

Allir geta sótt um þátttöku í verkefninu. Verkefnið leggur áherslur á viðskiptahugmyndir sem;

 • Eru atvinnuskapandi á svæðinu
 • Eru nýsköpun á svæðinu á einn eða annan hátt
 • Auka framboð á atvinnu fyrir fólk með háskólamenntun
 • Sem eru ekki í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki á svæðinu
 • Með einstakling eða teymi bak við hugmyndina sem er hæft og tilbúið að vinna að hugmyndinni
 • Eru tæknilega framkvæmanlegar á þessum tímapunkti
 • Hafa raunverulegan markhóp sem hægt er að sækja á, innanlands eða erlendis

Dómnefnd skipuð fulltrúum sveitarfélaganna í Húnaþingi og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands tekur ákvörðun um hvort og þá hvaða verkefni fá viðurkenningu. Dómnefnd getur hafnað öllum umsóknum og valið að; auglýsa verkefnið upp á nýtt, fela verkefnisstjóra að vinna með umsækjendum við að bæta umsóknir eða hvetja til samstarfs einstaklinga, fyrirtækja eða hópa til að styrkja umsóknirnar og verkefnin.

Dómnefnd mun m.a. meta verkefni út frá nýsköpun á svæðinu, atvinnusköpun, viðskiptaáætluninni sjálfri, raunhæfni verkefnis og líkum á því að verkefninu verði hrint í framkvæmd.

Verðlaun

Þrjár milljónir eru settar í þróunarpott til að standa straum af verðlaunum og hugsanlegum kostnaði við gerð viðskiptaáætlananna.  Sigurvegari hlýtur allt að 1 milljón í verðlaun.  Einungis verkefni með heildstæða viðskiptaáætlun fara fyrir dómnefnd og eiga kost á verðlaunum. Dómnefnd getur úrskurðað að engin viðskiptaáætlun hljóti fyrsta sætið eða að deila eigi fyrstu verðlaunum með fleiri þátttakendum.

Þróunarpottur

Tvær milljónir eru settar í þróunarpott til að standa straum af hugsanlegum kostnaði við gerð viðskiptaáætlananna og er úthlutað af dómnefnd. Dómnefnd metur þörf verkefnanna fyrir fjármagn. Ef afgangur er af þróunarpottinum getur dómnefnd ákveðið að bæta honum við verðlaunafé. Þátttakendur geta fengið úthlutun úr þróunarpotti verkefnisins til sértækra þátta.

Þróunarpotturinn getur til dæmis styrkt viðskiptahugmyndirnar vegna;

 • Kaupa á markaðsgögnum
 • Efniskostnaðar við smíði á frumgerðum
 • Kostnaðar við tæknilega ráðgjöf
 • Kostnaðar við minniháttar aðkeypta þjónustu (t.d. innihalds rannsóknir)
 • Ferðakostnaðar við öflun gagna fyrir viðskiptaáætlunina

Námskeið og fræðsla

Þátttakendum gefst kostur á að taka þátt í fræðslu um gerð viðskiptaáætlana og vinnusmiðjum þar sem unnið er að viðskiptaáætlununum.  Sjá meðfylgjandi dagskrá.

Dagskrá

31. október 2018

Ræsing auglýst.

11. nóvember 2018. 

Umsóknarfrestur liðinn, unnið úr umsóknum (lágmark 6 þátttakendur).

12.-14. nóvember 2018.

Fundur stjórnar verkefnisins.  Ákvörðun um áframhald og staðsetning vinnusmiðja ákveðin.

15. nóvember 2018.

Upplýsingar sendar til þátttakenda um staðsetningu, tímasetningar og efnistök.

 

Vinnusmiðjur, staðsetning ákveðin síðar

21. nóvember 2018 .

Vinnusmiðja 1,  09:00-12:00, viðskiptaáætlunin, varan og þörfin.

Vinustofa 13:00 – 16:00, verkfærakista Nýsköpunarmiðstöðvar kynnt.

28. nóvember 2018

Vinnusmiðja 2,  09:00 – 12:00, markaðsgreining og markaðsáætlun.

Vinnustofa 13:00 – 16:00, leiðsögn um markaðsmál.

12. desember 2018.       

Vinnusmiðja 3,  09:00-12:00, fjárhagsáætlanagerð, tekjuáætlun, rekstrargjöld og stofnkostnaður.

Vinnustofa  13:00-16:00, leiðsögn í fjárhagsáætlanagerð.

09. janúar 2019.

Vinnustofa 13:00 – 16:00        Leiðsögn við gerð viðskiptaáætlunar.

16. janúar 2019

Vinnustofa 13:00 – 16:00        Leiðsögn við gerð viðskiptaáætlunar.

24. janúar 2019.

Vinnustofa 13:00 – 16:00        Leiðsögn við gerð viðskiptaáætlunar.

31. janúar 2019.                               

Skil á viðskiptaáætlun, fyrir kl.12:00 á hádegi. Berist á netfangið  sigurdurs@nmi.is

 

Allan tímann eiga þátttakendur þess kost að fá einstaklingsbundna leiðsögn hjá verkefnisstjórum

Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. 

Þátttakendur munu einnig eiga þess kost að fá leiðsögn frá starfsmönnum SSNV og hópi

„mentora” sem munu miðla þekkingu sinni eftir samkomulagi hverju sinni.

 

06. febrúar 2019.           

Fundur stjórnar, ákvörðun um viðurkenningar.

08. febrúar 2019.

Lokakynningar og verðlaunaafhending.