Átak til atvinnusköpunar

Átak til atvinnusköpunar er styrkáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með umsóknarferlinu fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

 Markmið verkefnisins

  • Að styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta
  • Verkefni sem eru nýjung og skapa ný störf
  • Að styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða frumkvöðla og fyrirtækja

Styrkir geta að hámarki numið 50% af styrkhæfum kostnaði verkefnisins.

Afar mikilvægt er að umsóknir séu vel gerðar og að þar komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar sem þar til að meta umsókn. Auk þess er hægt að hengja viðbótar gögn við rafræna umsókn s.s myndir, teikningar og/eða annað sem skýrir umsóknina enn frekar. Hafi umsókn ekki borist fyrir auglýstan umsóknarfrest, áskilur stjórn Átaks til atvinnusköpunar sér rétt til að hafna umsókn. Munið að það getur verið gott að fá aðra til að lesa yfir umsóknir af þessu tagi og koma með ábendingar. Umsækjendur geta einnig leitað til starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar og óskað eftir aðstoð og yfirlestri á umsókn. 

Hvað er ekki stutt?

  • Fjárfestingar s.s. í tækjum, búnaði eða birgðum
  • Breytingar eða endurgerð á húsnæði
  • Almennur rekstrarkostnaður eða kostnaður við stofnun fyrirtækis
  • Verkefni sem eru í beinni samkeppni við innlenda vöru eða þjónustu
  • Verkefni sem nú þegar hafa fengið stuðning úr Tækniþróunarsjóði eða öðrum sambærilegum sjóðum

Hafi verkefnið verið styrkt áður af Átaki til atvinnusköpunar er umsækjandi hvattur til að ljúka þeim hluta verkefnisins sem styrkurinn var veittur til, áður en sótt er um aftur.

Ef sótt er um styrk til markaðssetningar er mikilvægt að sýnt sé fram á verulegt nýnæmi eða afurðin ætluð til sölu á erlendan markað.

Hafi verkefnið fengið opinbera styrki sem eru yfir viðmiðum Evrópusambandsins (sjá nánar neðst á síðu) kemur það í veg fyrir styrkveitingu.  

Ef umsókn fellur undir verksvið annarra sjóða sem veita sambærilega fyrirgreiðslu, minnka líkur á að Átak til atvinnusköpunar styrki verkefnið.

Ekki er unnt að styðja verkefni ef umsækjandi er á vanskilaskrá. 

Mat umsókna

Umsóknir eru metnar af stjórn Átaks til atvinnusköpunar sem skipuð er af iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Matið byggist eingöngu á þeim gögnum sem umsækjandi leggur fram og ef upplýsingar í umsókn eru ekki fullnægjandi verður umsókninni synjað.

Mikilvægt er að: 

  • Markmið verkefnisins og vinnuferlar þess séu skýrir
  • Markmið glögg, raunhæf og skiljanleg
  • Ávinningur af verkefninu sé skýr
  • Verkefnið feli í sér nýjung sem getur verið atvinnuskapandi á Íslandi
  • Sérstaða verkefnisins komi fram
  • Nýjung verkefnisins komi fram
  • Verkefnið skapi atvinnu og að fram komi hvers konar störf verði til
  • Áætlanir um markaðssetningu og innkomu á markað séu líklegar til árangurs
  • Kostnaðaráætlun sé trúverðug og stuðningur Átaks til atvinnusköpunar líklegur til að skipta sköpum fyrir framgang verkefnisins
  • Verkefnið skili arði

Sé ekki unnt að verða við umsókn eru umsækjendur hvattir til að hafa samband og fá upplýsingar um ástæður synjunar og leiðbeiningar um hvað betur megi fara ef það á við. 

Framkvæmd og eftirfylgni

Þeir umsækjendur sem fá styrk eru boðaðir á fund þar sem skrifað er undir samning um verkefnið. Fyrir fundinn þurfa styrkþegar að fylla út verkáætlun fyrir verkefnið.

Meðan á verkefnisvinnunni stendur eiga styrkþegar þess kost að fá upplýsingar og leiðsögn frá verkefnastjórum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

Styrkur er greiddur út eftir á með hliðsjón af framvindu verkefnisins. Áður en styrkur er greiddur þarf að skila framvinduskýrslu fyrir styrk eða styrkhluta. Í skýrslu skulu m.a. vera upplýsingar um framvindu og árangur borið saman við þær áætlanir sem fylgdu umsókninni (nánari leiðbeiningar).

Styrkþegar eru hvattir til að hafa samband við verkefnisstjóra og fá aðstoð og handleiðslu við hvers konar verkefni sem þeir kunna að vera að fást við hverju sinni.