Starfsorka

Starfsorka er átaksverkefni með það markmið að auðvelda fyrirtækjum að ráða háskóla-, tækni eða iðnmenntað fólk í atvinnuleit. Verkefnið er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þátttaka í verkefninu er opin fyrirtækjum og einstaklingum með rekstur á öllu landinu.
Verkefnistengiliðir
Sigurður Steingrímsson

Starfsorka er þríhliða samningur milli Vinnumálastofnunar, fyrirtækis og atvinnuleitanda um ráðningu í störf sem lúta að nýsköpun og þróun og greiðslu atvinnuleysisbóta. Í samningunum samþykkir atvinnuleitandinn að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur hans ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til fyrirtækisins. Fyrirtækið skuldbindur sig til að ráða atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins við þróun nýrrar viðskiptahugmyndar í allt að sex mánuði og greiðir honum laun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Vinnumálastofnun greiðir sem nemur fjárhæð þeirra atvinnuleysisbóta sem atvinnuleitandi á rétt á úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fyrirtækisins auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð þann tíma.

 

Markmið

  • Að styðja við nýsköpun og þróun í fyrirtækjum.
  • Að koma á tengslum milli atvinnuleitenda og fyrirtækja.
  • Að styðja við frumkvöðla með hugmyndir um nýsköpun.
  • Að styðja við háskóla-, tækni- eða iðnmenntað fólk í atvinnuleit og auðvelda þeim leit að störfum.

Forsendur

Forsendur fyrir þátttöku í verkefninu:

Að um starfandi fyrirtæki sé að ræða og velta síðasta árs sé fimm milljónir eða meira. Rannsóknastyrkir, hlutafé, hlutafjárloforð og verksamningar geta verið jafngildir veltu.

Að eitt eða fleiri stöðugildi séu nú þegar í fyrirtækinu.

Að veruleg nýsköpun/þróun sé í því verkefni sem atvinnuleitandi er ráðinn til. 

Að atvinnuleitandi sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og eigi rétt á atvinnuleysisbótum.

Að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit og á skrá hjá Vinnumálastofnun.

Að atvinnuleitandi sé með háskóla-, tækni- eða iðnmenntun.

Að verkefnið raski ekki samkeppni innanlands í viðkomandi starfsgreinum.

Að ráðning atvinnuleitandans feli í sér fjölgun starfsmanna hjá fyrirtækinu.

 

 

Framkvæmd

Umsækjendur fylla út umsóknareyðublað (sjá neðar) og senda rafrænt til Impru á Nýsköpunarmiðstöð.

1. Mat umsókna

Verkefnisstjóri á Nýsköpunarmiðstöð fer yfir umsóknir og setur í hendur matshóps á vegum miðstöðvarinnar sem metur hvort viðkomandi umsókn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru. Verkefnisstjóri sendir rafrænt svar til umsækjanda þar sem fram kemur hvort verkefnið geti haldið áfram í ferlinu. Vinnumálastofnun fær afrit af svarinu.

2. Leit að starfsmanni

Uppfylli umsækjandi skilyrði um þátttöku hefur hann samband við Vinnumálastofnun og leitar að starfsmanni sem uppfyllir þær kröfur sem koma fram í umsókninni. Vinnumálastofnun bendir á atvinnuleitendur sem hafa þá menntun, reynslu eða hæfni sem leitað er eftir.

3. Ráðning

Fyrirtæki finnur starfsmann við hæfi og gerir ráðningarsamning. Fyrirtækið, starfsmaður og Vinnumálastofnun undirrita síðan sérstakan samning þar sem fram kemur að Vinnumálastofnun greiðir atvinnuleysisbætur í ákveðinn tíma til fyrirtækisins. Hámarkstími er tólf mánuðir.

4. Framlenging á samningi

Eftir fimm mánuði getur fyrirtækið sótt um að framlengja samninginn um sex mánuði. Það skilar áfangaskýrslu nr. 2 til Impru. Verkefnisstjóri fer yfir skýrsluna og sendir niðurstöður til Vinnumálastofnunar og fyrirtækis. Sé framgangur verkefnisins í samræmi við áætlun geta fyrirtækið, Vinnumálastofnun og viðkomandi starfsmaður endurnýjað samning þar um skv. lið 3.

Form fyrir áfangaskýrslu eftir 5 - 6 mánaða þátttöku í Starfsorku má finna í kassa efst til hægri á síðunni.

Beiðni um framlengingu á Starfsorku má finna efst til hægri á síðunni.

5. Lokaskýrsla

Þegar verkefninu lýkur (eftir sex eða tólf mánuði) skilar fyrirtækið lokaskýrslu um verkefnið, þar sem fram kemur hvort og þá hvernig markmið náðust og hvort viðkomandi starfsmaður hafi verið ráðinn ótímabundið.

Form fyrir lokaskýrslu í Starfsorku má finna efst til hægri á síðunni.

Nánari upplýsingar

Reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki.