Frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands - Umfang og árangur setranna í 20 ár

Út er komið ritið Frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eftir Runólf Smára Steinþórsson með viðtölum við frumkvöðla og aðstandendur setranna. 

Sigríður Ingvarsdóttir ritar formála að ritinu:

Þau skipta hundruðum fyrirtækin sem hafa nýtt sér aðstöðu á frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í gegnum tíðina. Frumkvöðlarnir hafa komið þar inn, stofnað fyrirtæki sem hafa vaxið þar og dafnað, stundað rannsóknir og þróun, stefnt að háleitum markmiðum og haft áhrif á samfélagið hér á landi með ýmsum hætti. Þessi fyrirtæki sem hafa stigið sín fyrstu skref á frumkvöðlasetrunum eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að byggja á hugviti og stunda nýsköpun. Þegar litið er í baksýnisspegilinn og rýnt í tölfræði og árangur þeirra fyrirtækja sem hafa verið á setrunum og útskrifast þaðan má glöggt sjá að þarna er um gríðarlega mikilvægan ávinning að ræða sem hefur áhrif á hagtölur landsins. 

Karl Friðriksson hafði veg og vanda af útgáfu ritsins af hálfu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hann ritar inngang að ritinu sem hér fylgir.

Við þau vatnaskil sem nú eiga sér stað gagnvart þjónustu við frumkvöðla hér á landi var ákveðið að fylgja eftir fyrri áformum um að skoða árangur frumkvöðlasetra sem fyrirrennari Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Iðntæknistofnun Íslands, setti af stað árið 1999. Hér er ekki um að ræða heildstætt mat í ljósi margra árangursmælikvarða hjá þeim fyrirtækjum sem notið hafa þjónustu setranna, heldur hefur höfundur ritsins dr. Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor hjá Háskóla Íslands, unnið verkefnið út frá tilgreindum rannsóknarspurningum sem hann setti fram. Hann rekur sögu setranna, skoðar nokkrar lykiltölur, og aðrar kannanir sem gerðar hafa verið og dregur saman niðurstöður úr viðtölum, annars vegar við starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og svo nokkra fulltrúa úr flóru þeirra fyrirtækja sem hófu rekstur eða fengu þjónustu setranna í upphafi starfsemi sinnar.

Eins og kemur fram, þá var litið til fyrirmynda víðsvegar að við stofnun setranna. Þannig mótaði undirritaður  ásamt þáverandi forstöðumanni Impru, Björgvini Njáli Ingólfssyni í samvinnu við forstjóra Iðntæknistofnunar Hallgrím Jónasson, setrin í upphafi. Forstöðumenn setranna hafa verið nokkrir. Eiríkur Þorsteinsson veitti setrunum fyrst forstöðu, síðan Jón Hreinsson og Sigríður Ingvarsdóttir. Setrin hafa alltaf verið hluti stuðningsverkefna Impru sem var deild innan Iðntæknistofnunar og síðan Nýsköpunarmiðstöðvar og Berglind Hallgrímsdóttur veitti forstöðu lengst af. Sigríður Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri í tíð Þorsteins Inga Sigfússonar forstjóra, hafði síðan forystu og umsjón með uppbyggingu setranna, í samvinnu við verkefnastjóra setranna Eyjólf B. Eyjólfsson, Kristján Óskarsson og Sigurð Steingrímsson, sem hefur haft umsjón með starfseminni á Akureyri.

Leiðarljós við stofnun og rekstur frumkvöðlasetranna hefur alltaf verið að efla frumkvöðla- og sportaumhverfi og þar með nýsköpun hér á landi. Að mati stjórnenda miðstöðvarinnar hafa framangreind atriði verið lykilframlag í að byggja upp samkeppnishæft atvinnulíf.

Ritið Frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem flettibók á vefnum.

 

 

Einnig má hlaða ritinu niður sem PDF skjali.  Hér er ritið Frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem PDF-skjal.