Efnisveita ungrar nýsköpunar

Hér að neðan er samantekt á því fróðlega efni sem er aðgengilegt fyrir ungt fólk, um nýsköpun og frumkvöðlamál. Efnið er fjölbreytt og áhugavert og hentar bæði nemendum í grunnskóla, framhaldsskóla og jafnvel sem kynningarefni handa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í heimi frumkvöðla og nýsköpunar eða einfaldlega í fyrirtækjarekstri. Allt efnið er án endurgjalds. 

Kennslubók framhaldsskóla

Hér er komin samnorræn kennslubók fyrir framhaldsskóla um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á Norðurslóðum. Til viðbótar við kennsluefnið sjálft, eru dæmisögur ungra frumkvöðla frá löndunum fjórum sem lýsa nokkuð vel þeim fjölbreyttu áskorunum sem þessir frumkvöðlar glímdu við – og ekki síst, hvernig þeir náðu að leysa þær. 

Hér er bókin á PDF formi - smelltu á táknmynd til að skoða hana. Hægrismelltu á myndina til að hlaða henni niður á tölvuna þína. 

 Hér er bókin á flettibókarformi til að skoða á vefnum. Smelltu á táknmyndina til að skoða.

Í bókinni er farið grunnt yfir marga þá þætti sem tengjast frumkvöðlastarfsemi, allt frá því hvernig hugmyndir geta orðið til, til viðskiptaáætlunar. Mælt er með því að kennarar sem nota þessa bók, leyfi nemendum að spreyta sig á raun verkefnum, þ.e. að leyfa þeim að koma fram með eigin viðskiptahugmynd og hrinda henni í framkvæmd, að einhverju eða öllu leiti – þannig næst besti árangurinn við að kenna frumkvöðlafræði.

Efni þessara bókar er að miklu leiti byggt upp af kennsluefni sem þróað var í verkefninu „RYE Connect (Rural Youth Entrepreneurship)“. Grunnur bókarinnar hefur til hliðsjónar hið svokallaða KIE módel en það stendur fyrir og tengir saman sköpun (kreativitet), nýsköpun (innovation) og frumkvöðlastarf (entreprenørskab).

 Einnig er stór þáttur bókarinnar hin svokallaða framkvæmdaraðferð (e. effectuation) sem gengur út á það að prófa sig áfram með þeim auðlindum sem eru til staðar, að vinna með öðrum, en jafnframt að geta haft áhrif á framtíðina og skapað eigin tækifæri. Bókin er töluvert aðlöguð að íslenskum aðstæðum og þeim skilgreiningum og náms- og stuðningsefni sem notað er hér á landi.


Vertu þinn eigin yfirmaður

Nemendahefti í pdf formi

 

Vertu þinn eigin yfirmaður 

Námsefni í nýsköpun og frumkvöðlafræði fyrir 5. - 7. bekk

Hér má nálgast nemendahefti af Vertu þinn eigin yfirmaður á pdf formi. 

Þetta hefti samanstendur af stuttum textum sem leiðbeina þér um hvernig þú fyllir út meðfylgjandi vinnublað. Á hverri opnu finnur þú dæmi um útfyllt vinnublað sem þú getur notað sem innblástur ef þú ert í vafa um hvað þú átt að gera.

Eftir því sem þú vinnur þig í gegnum heftið lærir þú smám saman á fyrirtækið þitt og þess vegna gæti þig langað til að breyta einhverju á vinnublöðunum. Það gæti því verið góð hugmynd að byrja með því að skrifa svörin við spurningunum á Post-it miða og skrifa þau

í lokin á vinnublöðin sjálf þegar þú ert viss um hvernig þú vilt hafa hlutina.


Kennsluleiðbeiningar - (Vertu þinn eigin...)

Vertu þinn eigin yfirmaður
Nýsköpun og frumkvöðlafræði fyrir 5.–7. bekk
Kennsluleiðbeiningar

Hægt er að sækja pdf útgáfu af heftinu hér. 

 „Vertu þinn eigin yfirmaður“ er vinnubók sem hjálpar nemendum að gera einfalda viðskiptaáætlun. Gengið er út frá því að nemendur hafi þegar hugmynd að vöru eða þjónustu sem þeir geta notað til að gera viðskiptaáætlunina.

Það er mikilvægt fyrir ferlið og til að þroska hæfni nemenda að gefa þeim frjálsar hendur í þróun viðskiptahugmyndarinnar og ekki láta metnað hinna fullorðnu fara með hugmyndina í aðrar áttir. Leyfðu eldmóði og krafti nemendanna að drífa verkið áfram.

Námsmarkmið

Markmiðið er að nemendur fái grundvallarskilning á fyrirtækjarekstri, hljóti þjálfun í notkun helstu verkfæra sem tíðkast í frumkvöðlastarfsemi og auki færni sína á því sviði.

Skilningur á fyrirtækjarekstri

Nemendur öðlast reynslu og skilning á helstu þáttum sem fylgja frumkvöðlastarfsemi, svo sem: Þróun hugmynda, markaðsrannsóknum, greiningu á samkeppnisumhverfi, hópvinnu, markaðssetningu, hönnun, útreikningum og sölu.

Frumkvöðlahæfileikar

Nemendur munu þjálfa frumkvöðlahæfileika eins og sjálfstæði, skapandi lausnaleit, nýsköpun, skilning á eigin hæfni og samvinnu.


Næsta stig - fyrir kennara

 

Þetta námsefni er þróað af Fonden for Entreprenørskab (Frumkvöðlasjóðnum) í Danmörku og þýtt með þeirra leyfi á íslensku. Markmiðið með námsefninu er að veita yfirsýn yfir þau stig sem 7 - 10. bekkur grunnskóla þarf að fara í gegnum í ferlinu „frá hugmynd til sölu á vöru eða þjónustu“. Kennsluefnið er eins konar vegvísir og verkfærakassi sem hægt er að leita til á öllum stigum í ferlinu. Kennsluefnið er leiðbeinandi og lögð er áhersla á að þú getir sniðið ferlið þannig að það henti sem best í þínu fagi og fyrir þinn bekk.

Ferlið fjallar um nýsköpun og frumkvöðlastarf sem miðar að því að fá fram alveg nýjar hugmyndir, sem hafa gildi fyrir aðra og í framhaldinu reyna að raungera hugmyndirnar. 

Hér má nálgast pdf útgáfu af Nýsköpun 03 - kennsluleiðbeiningum fyrir 7. til 10. bekk. 


Frá hugmynd að viðskiptalíkani

Frá hugmynd af viðskiptalíkani - Business Model Canvas

Nýsköpunarmiðstöð Íslands gefur hér út rit um viðskiptalíkön sem byggð eru á reynslu frá International Center for Innovation í Danmörku. Efnið er í anda þeirrar áherslu sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands leggur á skýra framsetningu og byggist á þeim árangri sem náðst hefur með hugmyndafræði Business Model Canvas við mótun viðskiptahugmynda.

Kynntu þér Business Model Canvas - það er ómetanlegt tæki til að móta hugmyndina skref fyrir skref - í rökréttri röð.

Frítt niðurhal af ritinu „Frá hugmynd að viðskiptalíkani“ má nálgast hér.


Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og hefur verið haldin, óslitið síðan. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika. 

Á vefsíðu NKG www.nkg.is má nálgast ýmislegt kennslu- og stuðningsefni í nýsköpunarmennt sem nýtist vel. Hér er áherslan á fyrstu stig nýsköpunar, þ.e. hvernig þú getur hjálpað nemendum þínum að fá hugmyndir sem leysa raunveruleg vandamál eða áskoranir.

 

NKG lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og annarra samstarfsaðila. Í kjölfarið er haldið lokahóf þar sem  forseti Íslands afhendir stórglæsileg verðlaun og viðurkenningarskjöl.

Eigandi NKG er Mennta- og menningarmálaráðuneytið en Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um rekstur keppninnar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banka, Samtök Iðnaðarins, ELKO, IKEA, grunnskóla o.fl. aðila.

Verndari Nýsköpunarkeppni grunnskólanna er forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson.