CRISTAL ráðstefna á Húsavík
Fjöldi áhugasamra sótti Cristal-ráðstefnuna sem var haldin á Húsavík 7. september. Ráðstefna var liður í Erasmus+ verkefninu CRISTAL sem hefur verið í gangi síðan 2015 og er Norðurþing tilraunasamfélag í verkefninu. Verkefnið snýr að því að auka tæknimennt, nýsköpun og sjálfbærni í kennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi ásamt framhaldsfræðslu. Ráðstefnan fór fram í sal Borgarhólsskóla á Húsavík og voru niðurstöður Cristals verkefnisins kynntar.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands stýrir verkefninu og eru bæði Þekkingarnet Þingeyinga sem og skólar í Norðurþingi samstarfsaðilar í því, ásamt Háskólanum á Akureyri og tveimur erlendum samstarfsaðilum; Lindberg&Lindberg vélaverkfræðistofa og verkstæði í Svíþjóð og Azienda Agricola „Dora“ sem er lífrænn ólífubóndi á Sikiley.

