Menntamaskína - nýsköpun í framhaldsskólum
Menntamaskína hefur það að markmiði að virkja framhaldsskólanema til nýsköpunar í þverfaglegu samstarfi við sérfræðinga og hagsmunaaðila. Þeir framhaldsskólar sem taka þátt mynda teymi sem taka síðan þátt í fjórum vinnusprettum. Fyrsti spretturinn, svokallaður hönnunarsprettur, er núna um helgina og er gert ráð fyrir að teymin verði komin með mótaða lausn í lok hans. Þá tekur við sjálfstæð vinna og tveir tæknisprettir þar sem teymin fá aðstoð sérfræðinga við það að smíða frumgerð á sínum hugmyndum.
Að lokum er besta lausnin valin af dómnefnd og það teymi hlýtur milljón króna þróunarstyrk frá MND-félaginu til áframhaldandi þróunar á verkefninu.
Núllið á RÚV ræddi við Þóru Óskarsdóttur, verkefnastjóra hjá Fab Lab, Guðjón Sigurðsson, formann MND-félagsins og Hafliða Ásgeirsson, verkefnastjóra hjá Frumbjörg.