Styrkjaúthlutanir Tækniþróunarsjóðs

Tækniþróunarsjóður hefur birt lista yfir þau verkefni sem hann hyggst styrkja í vorúthlutun að þessu sinni.  Í tilkynningu frá Rannís segir að stjórn Tækniþróunarsjóðs hafi samþykkt að bjóða fulltrúum 36 verkefna sem sóttu um  Hagnýt rannsóknarverkefniSprota og Vöxt að ganga til samninga um nýja styrki fyrir allt að 627 milljónum króna á vormisseri 2020. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er þátttakandi í nokkrum verkefnum og hlökkum við til að bretta upp ermar og hefja vinnu við þau.  

Að vanda eru verkefnin hin fjölbreyttustu og eru í mismunandi styrktarflokkum. Hagnýt rannsóknarverkefni eru hugsuð fyrir uppbyggingu og áframþróun á hugmyndum og færni sem hafa breiða skírskotun fyrir íslenskt atvinnulíf. Þar fékk Sunna Wallevik styrk til að vinna að verkefni í kísilframleiðslu sem byggist á því að nota endurunnið hráefni (afoxara) í stað kola við framleiðsluna. Með því væri hægt að draga verulega úr kolefnisspori framleiðslunnar.

Rannsóknastofa byggingariðnaðarins er síðan samstarfsaðili í verkefni sem nefnist „Lúpína í nýju ljósi, trefjaefni framtíðar“ sem Efnasmiðjan ehf stýrir. 

Flokkarnir Fræ, Sproti og Vöxtur eru hugsaðir fyrir frumkvöðlafyrirtæki og er Nýsköpunarmiðstöð Íslands samstarfsaðili í nokkrum þeirra. Eignarhald verkefna er ávallt á forræði frumkvöðulsins og styrkurinn nýtist til að fjármagna þróunarsamvinnu frumkvöðlanna og vísindamanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Með þessum hætti hafa starfsmenn miðstöðvarinnar lagt drjúgan skerf til margra nýskapandi verkefna undanfarin ár ef ekki áratugi.

Í þessum flokki fékk Bjarni Bjarnason og samstarfsaðilar hjá Hyndlu styrk til að rannsaka eldi botnþörunga í borholusjó í kerjum á landi og verður það unnið í samstarfi við dr. Gissur Örlygsson hjá Nýsköpunarmiðstöð. Sigurður Guðmundsson fékk styrk til að vinna að verkefni sínu sem tengist því að þróa framleiðslu á petunze (hráefni fyrir postulín) úr íslensku líparíti. Það byggir einmitt á hagnýtu rannsóknarverkefni sem Nýsköpunarmiðstöð stýrði og hafa komið að því verkefni núverandi og fyrrverandi starfsmenn miðstöðvarinnar s.s. dr. Kristján Leósson og Erla Hauksdóttir. 

Chuen How Ng hjá Genís fékk styrk sem snýr að því að prenta nýstárleg lífvirk efni með þrívíddarprentun og mun vinna það í samstarfi við NMÍ. Genís var á frumkvöðlasetri á Keldnaholti um árabil og hefur átt mikið og gott samstarf með dr. Gissuri Örlygssyni, starfsmanni miðstöðvarinnar. Dr. Gissur kemur síðan að öðru verkefni ásamt dr. Magnúsi Guðmundssyni en það verkefni nefnist Bioplastic Skin

Síðast en ekki síst var veittur styrkur til Optitog ehf. tengt áframhaldandi þróun á ljósvörpu, en það er verkefni sem varð til innan veggja Nýsköpunarmiðstöðvar og felst í fiskveiðum með leysigeisla í stað hefðbundins nælontrolls. Geir Guðmundsson, sérfræðingur á Nýsköpunarmiðstöð vinnur að því verkefni með fyrirtækinu. 

Það er miðstöðinni sérstök ánægja að sjá auk þess styrki til verkefna þar sem miðstöðin hefur getað lagt hönd á plóg við þróun og útfærslu nýskapandi hugmynda. Þannig steig nýsköpunarverkefnið Samfélagsgróðurhús sín fyrstu skref í samfélagshraðlinum Snjallræði sem miðstöðin hefur staðið að ásamt samstarfsaðilum. 

Tvö önnur verkefni sem einnig fengu styrk úr Tækniþróunarjóði tóku þátt í Ræsingu Suðurnesja sem Nýsköpunarmiðstöð í samvinnu Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Hekluna atvinnuþróunarfélag. Annað þeirra er „Hafmeyjan - þarabað og heilsulind“ sem Bogi Jónsson stendur að. Síðast en ekki síst er það vinningsverkefnið úr Ræsingu Suðurnesja, Öryggiskrossinn - Merkingar fyrir flugbrautir sem Sigurður Ingi Kristófersson og Hanna María Kristjánsdóttir hafa þróað.  Ræsing Skagafjarðar gat síðan af sér verkefnið „Stakkaskipti í útflutningi - Einangrandi umbúðir“. 

Mörg önnur verkefni eru góðkunningjar okkar eftir að hafa komið við sögu miðstöðvarinnar á námskeiðum á borð við Frumkvæði sem rekið er með Vinnumálastofnum og á Brautargengi sem er viðskiptanámskeið fyrir konur.

  

Ræsing Norðurlands vestra

Ræsing Norðurlands vestra

Nýsköpunarmiðstöð í samstarfi við Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, leitar að góðum viðskiptahugmyndum
2,5 milljónir í verðlaun í stærsta stafræna hakkaþoni sem haldið hefur verið á Íslandi

2,5 milljónir í verðlaun í stærsta stafræna hakkaþoni sem haldið hefur verið á Íslandi

2,5 milljónir í verðlaun í stærsta hakkaþoni sem haldið hefur verið á Íslandi Nýsköpunarkeppninni Hack the Crisis Iceland lýkur á hádegi í dag. Þetta er stærsta stafræna hakkaþon sem haldið hefur verið hér á landi með nærri tvöhundruð þátttakendum víða að úr heiminum.