Frábær stemmning á takt- og tóngerðarsmiðju
20. ágúst 2018
Í kringum 300 manns heimsóttu Setur skapandi greina á Menningarnótt í Reykjavík þann 18. ágúst 2018 og tóku þátt í takt- og tóngerðarsmiðju almennings. Gestir smíðuðu ýmist sín eigin hljóðfæri, gítara eða trommur, stunduðu tónlistartilraunastarfsemi eða slógu taktinn saman í trommuhring.
Hér má sjá myndagallerí frá deginum og stemmningunni á Menningarnótt.
Kynntir voru munir frá íslensku hönnuðunum Berglind Snorradóttur, Dagnýju Bjarnadóttur, Stefáni Yngva Pétursyni, Sæunni Kjartansdóttur, Arnari Má Jónssyni úr úrslitum Distributed Design Awards á Íslandi. Gestir fengu tækifæri til að skoða og leika sér með hljóðfæri. DJ Flugvél og Geimskip og Futuregrapher voru á staðnum og leyfðu gestum og gangandi að taka þátt í tilraunastarfsemi með ýmiskonar hjóðfæri og tóngervla. Karl Ágúst Úlfsson leiddi taktsmiðju með fjölda tromma og slagverkshljóðfæra sem almenningur fékk að prófa.
Í lok hátíðarinnar voru afhent verðlaun í Distributed Design Awards á Íslandi og hlaut Dagný Bjarnadóttir verðlaunin að fyrir hönnun sína á Fang bekkjunum.
Sigurvegari Distributed Design Awards á Íslandi fær í verðlaun ferð til Barcelona til þátttöku í vinnusmiðju um dreifða hönnun, ásamt 250 þúsund króna peningaverðlaunum.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Distributed Design Market Platform, Fab Lab Ísland, Setur skapandi greina, Creative Europe verkefni Evrópusambandsins og Útón stóðu að viðburðinum og þakka öllum sem komu og tóku þátt kærlega fyrir skemmtilega Menningarnótt.
@DDMPEU #DDMPEU #distributeddesign

